Hvað er eiginlega með þennan Magnús Hlyn Hreiðarsson, fréttamann Ríkissjónvarpsins? Nú hefur hann tvö kvöld í röð fjallað um tímabundna brottvikningu framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs án þess að spyrja þeirra spurninga sem máli skipta. Meginatriði málsins eru í stystu máli þessi: Komið hefur fram að ríkisendurskoðun hefur gert alvarlegar athugasemdir við það að árum saman hefur bókhald Kvikmyndasjóðs alls ekki verið fært auk þess sem fleira þykir aðfinnsluvert við störf framkvæmdastjórans. Þá hefur komið fram, að ríkisendurskoðun hefur ítrekað farið fram á það við framkvæmdastjórann að hann bæti ráð sitt. Menntamálaráðuneytið ákvað svo á dögunum að víkja framkvæmdastjóranum frá störfum um skeið og leggja það í hendur sérstakrar nefndar hvernig bregðast eigi við frammistöðu hans, eins og gert er ráð fyrir þegar slík staða kemur upp. Mun framkvæmdastjórinn vitaskuld fá að skýra málstað sinn fyrir þeirri nefnd.
Fréttamaður Ríkissjónvarpsins ræddi við framkvæmdastjóra þennan þegar ákvörðun ráðuneytisins var kunngjörð. Framkvæmdastjórinn kvaðst vera mjög ósáttur þar sem hann hefði ekki fengið að greina frá sinni hlið á málinu. Fréttamaðurinn spurði framkvæmdastjórann þá strax hvernig stæði á því, hvort þar væri um „pólitík“ að ræða! Þannig fór fréttamaðurinn þegar í stað að gefa til kynna að það væru einhverjar óeðlilegar og illar ástæður fyrir því að menn væru að níðast á blásaklausum framkvæmdastjóranum. Fréttamanninum datt hins vegar ekki í hug að spyrja nokkurra spurninga sem eðlilegt hefði verið að spyrja. En þær hefðu að vísu kannski ekki orðið eins þægilegar fyrir framkvæmdastjórann. Þegar framkvæmdastjórinn kvartar yfir því að sín hlið málsins komist ekki að, nú þá blasir við að spyrja hver hún sé. Þegar ríkisendurskoðun kvartar yfir því að framkvæmdastjórinn haldi ekki bókhald fyrir Kvikmyndasjóð og hafi ekki gert þrátt fyrir áralangar kvartanir, nú þá blasir við að spyjra hvort þær ásakanir séu réttar og hverju það þá sæti. En ekki að spyrja þess eins hvort „pólitík“ sé að baki.
Og í gær hélt sami fréttamaður áfram. Þá var hann búinn að draga fram Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmann og dyggan viðskiptavin Kvikmyndasjóðs og fékk út úr honum að umræða um þessi mál væri óþægileg. Svo spurði fréttamaðurinn þeirrar spurningar hvort hér lægi að baki barátta um „völd“. Og þegar sú spurning var komin, þá kom sú næsta sem var engu síðri. Fréttamaður Ríkisútvarpsins spurði Friðrik Þór Friðriksson hvort skýringin á brottvikningu framkvæmdastjórans væri ekki bara einhver stirð samskipti framkvæmdastjórans og Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndagerðarmanns!
Hvað er þetta eiginlega? Framkvæmdastjóri opinberrar stofnunar heldur ekki bókhald árum saman þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir ríkisendurskoðunar. Og fréttamaður Ríkissjónvarpsins fer þá hús úr húsi til að reyna að koma því inn hjá almenningi að framkvæmdastjórinn sé leystur frá störfum vegna „pólitíkur“ og „stirðra samskipta við Hrafn Gunnlaugsson“. Er fréttastofunni sjálfrátt að senda þetta út?