Miðvikudagur 17. júlí 2002

198. tbl. 6. árg.

ÍBLADBERIfréttum Stöðvar 2 undanfarin kvöld hefur verið þrástagast á því að íslenskir blaðberar séu eina fólkið í veröldinni sem „hafi ekki kjarasamning“. Ekki er ljóst hvað fréttamönnum stöðvarinnar gengur til með þessum rangfærslum því eins og flestum landsmönnum er væntanlega ljóst, þar sem þeir hafa flestir borið út blöð eða átt börn eða systkin sem borið hafa út blöð, þá ganga blaðberar að tilboði blaðaútgefenda um að bera út blöð gegn ákveðinni greiðslu. Þegar menn taka slíku boði er um samning að ræða. Og um slíkan samning er ekkert betra orð en einmitt kjarasamningur. Jafn undarleg er sú kenning að blaðberar sem ekki eru í verkalýðsfélagi geti ekki sótt vangreidd laun til vinnuveitanda síns. Vangreidd laun eru eins og hver önnur skuld og blaðberi – eftir atvikum með fulltingi lögráðamanns síns – á sömu möguleika og hver annar að innheimta slíka skuld. Aðild að stéttarfélagi er auðvitað ekki skilyrði fyrir lögfræðilegri innheimtu skulda.

Það sem fréttamenn Stöðvar 2 eiga þó líklega við með því að blaðberar séu „án kjarasamnings“ er að þeir hafa ekki verið neyddir til aðildar að stéttarfélagi. Það er ef til vill ekki að undra þótt þaulvanir fréttamenn haldi að enginn megi gera kjarasamning nema stéttarfélög því flest stéttarfélög láta sem þau hafi einkarétt á gerð slíkra samninga „á félagssvæði sínu“. Stór hluti landsmanna þarf að sæta því að einhverjir skriffinnar á kontórum stéttarfélaga semji fyrir þeirra hönd og hirði svo hluta af launum þeirra í félagsgjöld, orlofshúsasjóði, tjaldavagnaleigur, ferðaskrifstofurekstur, líkamsræktarstöðvar, skólastarfsemi, rekstur listasafna, blaðaútgáfu og annað spik sem hlaðist hefur utan á verkalýðshreyfinguna á þeim áratugum sem vinnandi menn hafa verið neyddir til aðildar að henni. Þótt fréttamenn sem árum saman hafa verið nauðugir í félagi Lúðvíks Geirssonar hafi ekki haft spurnir af því er hins vegar til fleira fólk en blaðberar sem lifir ágætu lífi án þess að láta slíka einlæga aðdáendur Leníns sem Lúðvík Geirsson eða aðra stéttarfélagsforkólfa hafa vit fyrir sér og hriða af sér fúlgur fjár um hver mánaðamót.

En það eru ekki aðeins fréttamenn sem hafa hagað sér einkennilega í þessu máli. Svonefndur umboðsmaður barna hefur hvatt til þess að blaðberar verði innlimaðir í einhver stéttarfélög, helst VR eða Eflingu! Er honum alvara? Eiga 10 ára börn að vera skyldug til aðildar að stéttarfélögum?