Fimmtudagur 18. júlí 2002

199. tbl. 6. árg.

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

1. mgr. 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands

Vonbrigði? Já kannski. En kannski ekki. Jú auðvitað hefði mátt ætla að svo augljóst væri að lögleg atvinnustarfsemi yrði ekki bönnuð með lögreglusamþykkt að enginn dómsmálaráðherra gæti staðfest þá samþykkt þar sem það væri reynt.

Í fyrradag staðfesti Sólveig Pétursdóttir hins vegar þá breytingu sem borgarstjórn Reykjavíkur vildi gera á lögreglusamþykkt höfuðstaðarins, þess efnis að bannað verði að stunda svokallaðan einkadans í borginni. Eins og flestir menn vita hefur fjöldi fólks stundað þennan dans og haft af honum verulegar tekjur undanfarin ár. Ekki þarf að deila um það að einkadans hefur verið atvinna fjölda fólks og hann byggt lífsafkomu sína á honum. En nú þykjast borgaryfirvöld bara hafa bannað þessa atvinnustarfsemi, svona af því ákveðinn hópur í þjóðfélaginu er á móti henni! Og Sólveig Pétursdóttir er búin að leggja stimpil sjálfs dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við athæfið.

Með því að afnema stjórnarskrána með lögreglusamþykkt er þess freistað að fækka um eina þeim starfstéttum þar sem karlmenn þurfa að mæta með bindi í vinnuna.

En hvað, dettur einhverjum í hug að þetta standist? Borgarlögmanni datt það að minnsta kosti ekki í hug enda benti hann borgaryfirvöldum á að ekki fengi staðist að nota lögreglusamþykkt til þess arna. Lítum aðeins á stjórnarskrá landsins, svona til skemmtunar. Þar kemur fram eins og greinir hér að ofan, að mönnum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir sjálfir vilja, svo lengi sem hún er ekki bönnuð með lögum. Og ekki aðeins bönnuð með lögum heldur verða líka „almannahagsmunir“ að krefjast þessa banns. Hvernig er það, sjá ekki allir menn að það sem verður aðeins bannað með lögum, og það meira að segja með fleiri skilyrðum, að það bara verður ekki bannað með lögreglusamþykkt?? Alveg óháð því hvort menn hafa jákvæða, neikvæða eða enga skoðun á einkadansi.

Búum til lítið dæmi:

1. Á veitingastað í miðborg Reykjavíkur er lítill klefi og þar inni er hálfnakinn maður að dansa fyrir unga konu sem hyggst greiða honum fyrir sýninguna. Maðurinn hefur framfleytt sér með slíkum dansi undanfarin ár og haft af honum góðar tekjur sem hann hefur jafnan gefið upp til skatts.

2. Inn ryðst vörpulegur lögregluþjónn og segir ábúðarmikill að nú megi maðurinn ekki lengur vinna fyrir sér með þessum hætti.

3. Fyrir duttlunga örlaganna er dansarinn einmitt með lítið blátt kver á sér, „Stjórnarskrá lýðveldisins“, og les nú upp úr því áður tilvitnaða 75. grein, þar sem segir að öllum sé frjálst að stunda þá vinnu sem ekki sé bönnuð með lögum. Og að slík lög megi ekki setja nema almannahagsmunir séu í húfi.

4. Maðurinn spyr nú lögregluþjóninn hvort Alþingi hafi með lögum bannað sér að vinna fyrir sér með einkadansi.

5. „Já eða nei?“, bætir hann við þegar lögregluþjóninum verður svarafátt.

Hvaða svar vilja menn nú ráðleggja lögregluþjóninum? Á hann bara að segja að þrátt fyrir að stjórnarskráin segi berum orðum að engin atvinnustarfsemi verði stöðvuð nema með lögum að þá sé búið að banna þetta starf með lögreglusamþykkt? Er mönnum alvara??

Og þeir sem halda að borgarstjórn og dómsmálaráðherra geti tekið löglega atvinnugrein og bannað hana með lögreglusamþykkt, hvaða takmörk ætli það fólk telji á „heimildum“ til að leggja slík bönn á? Ef borgarstjórn og Sólveig Pétursdóttir myndu á morgun banna rokktónleika með lögreglusamþykkt, væri það þá ekki allt í lagi líka? Eða klassíska tónleika, það mætti væntanlega líka banna þá með lögreglusamþykkt? Ef taka má eina atvinnugrein og banna í lögreglusamþykkt, þá má taka hvaða atvinnugrein aðra sem er og fara eins með hana. Þeir sem láta sér koma til hugar að þessi gerningur Ingibjargar Sólrúnar og Sólveigar fái staðist, þeir hljóta að álíta að búið sé að afnema atvinnufrelsi í Reykjavík.

Hvaða skoðun sem menn hafa á einkadansi þá hljóta allir rólegir menn að sjá að hann verður ekki bannaður með lögreglusamþykkt. Ekki frekar en nokkur önnur atvinnustarfsemi. Það er hins vegar stóralvarlegt mál að dómsmálaráðherra svokallaður hafi látið nokkra borgarfulltrúa í Reykjavík komast upp með að misnota lögreglusamþykktir með svo stórkostlegum hætti. Sólveig Pétursdóttir treystir sjálfsagt á það að engir verði til þess að taka upp hanskann fyrir það fólk sem starfar við einkadans eða það fólk sem sækir slíkar sýningar. Henni verður ekki að þeirri ósk sinni.

Nei, ekki einu sinni Óli Þ. Guðbjartsson hefði staðfest þessa breytingu á lögreglusamþykktinni.