Þriðjudagur 16. júlí 2002

197. tbl. 6. árg.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur stundum sagt frá er Gary Johnson ríkisstjóri Nýju Mexíkó ekki hrifinn af banni við neyslu fíkniefna. Á heimasíðu ríkisstjórans geta menn kynnt sér skoðanir hans og ýmsan fróðleik annan um fíkniefnabannið og þann skaða sem bannið veldur. Á Vísi í gær er sagt frá ræðu sem Johnson hélt um liðna helgi þar sem hann ítrekaði fyrri afstöðu sína: „Ríkisstjórinn í Nýju Mexíkó, Gary Johnson, sagði stríðið gegn vímuefnum vera ömurleg mistök í ræðu nú um helgina. Hvatti hann fólk til að neyta ekki vímuefna en sagði bann við notkun þeirra vera að tæta landið í sundur, ekki efnin sjálf. Skaði vímuefna yrði minni ef bann við notkun þeirra yrði afnumið og stjórnvöld einbeittu sér að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Johnson sagði að stríðið gegn vímuefnum vera orsök margra vandamála. Að minnsta kosti helmingur allra útgjalda sem fer í löggæslu, dómstóla og fangelsi fer í þetta stríð. Um 1,6 milljón manna er handtekið á hverju ári fyrir að brjóta vímuefnalöggjöfina. Til að fangelsa fólk sem neytir vímuefna er því verið að sleppa út ofbeldisfullum afbrotamönnum.“

Ríkisstjórinn fer ekki í launkofa með þessar skoðanir sínar. Hann telur það meðal mikilvægustu mála að endurskoða fíkniefnalöggjöfina. Það kom meðal annars fram í stefnuræðu hans fyrr á árinu.

Ídag eru 1999 dagar liðnir frá því útgáfa Vefþjóðviljans hófst og í dag kemur blaðið út í tvöþúsundasta sinn. Þar sem sá áfangi skiptir blaðið sjálft litlu máli þá gerir það ekki ráð fyrir því að aðrir láti sig hann meiru varða. Allt að einu er hann ekki verra tilefni en hvert annað til að kasta lítilli kveðju á lesendur og þakka þeim fyrir samfylgdina. Og eins og stundum áður beinir blaðið sérstökum kveðjum til þess fólks sem hefur séð ástæðu til að styðja við bakið á útgáfunni með frjálsum framlögum sínum, en í gegnum hnapp vinstra megin á síðunni er hægt að bætast í þann góða hóp. Þá vill blaðið enn þakka öllum þeim sem svo oft sjá ástæðu til að senda blaðinu línu en eins og áður hefur verið getið þá eru allar þessar kveðjur, hlýjar sem kaldar, blaðinu hvatning til að halda áfram á þeirri braut sem það hefur fylgt síðustu tvöþúsund sólarhringana eða svo.