Mánudagur 15. júlí 2002

196. tbl. 6. árg.

Talið er að um 2% af þeim koltvísýringi sem myndast á jörðinni myndist við bruna jarðefnaeldsneytis, olíu, kola og gass. Koltvísýringur er ekki eitruð lofttegund eins og hann kemur fyrir í andrúmsloftinu heldur uppistaðan í ljóstillífun plantna og þar með grundvöllur lífs á jörðinni. Því meiri koltvísýring sem plöntur hafa því betri spretta. Á einni af mörgum umhverfisráðstefnum í Ríó fyrir áratug strengdu stjórnmálaleiðtogar þess heit að draga úr útblæstri koltvísýrings og annarra svonefndra gróðurhúsalofttegunda á næstu árum. Lítið varð um efndir. Síðar var þetta heit endurnýjað undir nafni Kyoto og standi allir aðstandendur Kyoto samningsins við sitt – sem er auðvitað nær útilokað- verður hiti andrúmsloftsins kannski 0,04°C lægri en ella eftir 50 ár. Samningar þessir eru byggðir á tölvulíkönum sem gera ráð fyrir að hiti andrúmslofts jarðar muni hækka vegna aukins styrks svonefndra gróðurhúsalofttegunda og einmitt samkvæmt þessum sömu líkönum hefur Kyoto samningurinn nær engin áhrif á hita andrúmsloftsins.

Í síðasta mánuði samþykkti öldungadeild Kaliforníuþings að stemma stigu við útblæstri koltvísýrings með því að setja nýjar reglur um eldsneytiseyðslu bíla. Þessar nýju reglur voru reyndar aðeins samþykktar með eins atkvæðis mun og eiga eftir að hljóta náð fyrir augum ríkisstjórans áður en þær taka gildi. Það er ekki síst áhugavert við þetta framtak Kaliforníuþings að þingið hefur áður sýnt „frumkvæði í umhverfismálum“. Fyrir allmörgum árum setti þingið reglur þess efnis að 10% bíla í ríkinu árið 2003 yrðu að vera án útblásturs (zero-emission). Þá tölu bjartsýnir stjórnmálamenn að almenn notkun rafmagnsbíla væri handan hornsins. Í dag, hálfu ári áður en 10% markinu á að vera náð, er það auðvitað víðs fjarri enda hafa rafmagnsbílar ekki náð þeirri útbreiðlsu sem vonast var til. Rafmagnsbílar geta heldur vart talist án útblásturs á meðan rafmagnið í þá er að mestu leyti framleitt með bruna jarðefnaeldsneytis. Þingið hefur því fært markið til ársins 2009.

Og þannig helda menn áfram að vinna stórsigra í umhverfismálum; hittast á ráðstefnum og málþingum út um allar jarðir, skipa starfshópa og rýnihópa, semja skýrslur, gera bókanir, sáttmála og samninga sem engin leið er að fara eftir.