Helgarsprokið 14. júlí 2002

195. tbl. 6. árg.
Comment voulez-vous gouverner un pays qui a deux cent quarante-six variétés de fromage?
– Charles De Gaulle

Hvernig á eiginlega að fara að því að stjórna landi þar sem völ er á 246 ostategundum? Þessi all óvenjulega spurning vafðist að minnsta kosti fyrir Charles De Gaulle sem treysti sér þó yfirleitt ágætlega til að leysa þau vandamál sem steðjuðu að hverju sinni. En hvort sem það eru allar þessar ostategundir eða aðrar ástæður sem valda því, þá hefur mönnum oft gengið bölvanlega að stjórna Frakklandi. Þannig virðast frönsk verkalýðsfélög ótrúlega iðin við að efna til verkfalla og annarra mótmæla og horfa svo kallaðir lýðræðislega kjörnir ráðamenn gjarnan aðgerðalausir upp á það er lög og regla eru numin úr gildi en alræði verkalýðsforystunnar tekur við. Þá virðist oft sem franskir bændur standi utan við lög og rétt, að minnsta kosti virðist frönskum yfirvöldum aldrei hugkvæmast að gera neitt í því þegar bændur hrúga framleiðsluvörum sínum á þjóðvegina til þess að krefjast þess að enn meira verði fyrir sig gert. Samgöngur í Frakklandi liggja ósjaldan niðri vegna þess að tómatar og grasker fylla þjóðvegina án þess að yfirvöld geri nokkuð annað en að snúa upp á vandlega snyrt yfirskeggið.

En þó ekki verði hér gert lítið úr þeim erfiðleikum sem allar þessar ostategundir setja menn í – og án þess að þau vandræði verði útskýrð hér sérstaklega – þá er einnig önnur ástæða fyrir því að mönnum hefur gengið svo illa að stjórna Frakklandi. Hún er sú að menn hafa gert allt of mikið til þess að reyna að stjórna Frakklandi. Í Frakklandi hefur sósíalismi fengið að grassera og skriffinnska hefur árum saman fengið að draga þrótt úr fólki og fyrirtækjum. Og vinstrimennskan í Frakklandi hefur gjarnan verið jafnvel enn verri en víðast hvar í Evrópu. Ekki er þannig langt síðan að franskir kratar stóðu fyrir víðtækri þjóðnýtingu fyrirtækja og þannig mætti áfram telja. Þó í dag telji ýmsir – ekki síst yngra fólk – sem evrópskir kratar séu nútímalegir merkismenn þá er örstutt síðan að vinstri flokkar Evrópu, og þá einnig á Íslandi, börðust fyrir þjóðnýtingu fyrirtækja. Og sömu menn og börðust af krafti fyrir þeirri stefnu gapa nú óáreittir um það hversu nútímalegir þeir séu.

En þessir nútímalegu menn, sem nú kannast hvorki við að vera sósíalistar né hafa nokkurn tíma verið það, þeir hafa fundið sér nýtt skurðgoð þar sem þeir geta í raun sameinað áhuga sinn á skrifræði og óendanlegt málæði um „nútíma“ og „fagmennsku“: Evrópusambandið. Þar vantar nú hvorugt þó postularnir vilji nú sjaldan nema við annað kannast. Þeim finnst allt skrifræðið svo sjálfsagt að þeir átta sig ekki einu sinni á því hvílíkt skrifræðið er. Þeim finnast reglurnar svo góðar að þeir taka ekki eftir því að verið sé að setja reglur. Allt sem er bannað, er bara svo slæmt að það er ekki eins og verið sé að banna neitt. Þykir þeim.

„Fyrir nokkru komu saman fulltrúar nokkurra evrópskra borga og stilltu saman strengina í baráttu sinni við fíkniefnaneyslu borgaranna. Meðal krafna þeirra var sú að fólki verði bannað að berjast fyrir því að bann við fíkniefnaneyslu verði fellt úr gildi! “

Næst ætlar Evrópusambandið að snúa sér að tjáningarfrelsinu enda geta ráðamenn þess aldrei hætt að ala borgarana upp í Brusselótta og góðum siðum. Fyrir rúmri viku samþykkti Evrópuþingið skýrslu nefndar nokkurrar sem lagði til víðtækar og harðar aðgerðir til að berjast gegn kynþáttafordómum og andúð á útlendingum – aðgerðum gegn „racism and xenophobia“. Ekki var nú haft fyrir því að skilgreina hvað átt væri við með xenofóbíunni, en þeim til fróðleiks sem álíta að það geti nú ekki farið milli mála, má geta þess að hópur merkismanna sem gengur undir því aðlaðandi nafni, „The EU’s Racism and Xenophobia Monitoring Unit“, hefur meðal annars gefið það út að andstaða við hinn nýja gjaldmiðil, evruna, sé „monetary xenophobia“. Það er því ekki víst að þess verði langt að bíða að menn verði dæmdir í fjársektir og fangelsi fyrir að andæfa Evrópusamrunanum eða einstökum einkennum hans. Allt í nafni mannhelginnar og umburðarlyndisins.

Staða tjáningarfrelsisins er nokkuð sérstök. Það á oft mjög undir högg að sækja en á sama tíma er því jafnvel gert of hátt undir höfði. Þannig þykir ýmsum það sérstakt tjáningarfrelsismál að þeir eða aðrir megi rjúfa trúnað um hvað sem er. Mörgum þykir það tjáningarfrelsisatriði að þeir geti ausið menn auri, sakað þá um alls kyns lögbrot en án þess að færa fram nokkuð haldbært máli sínu til stuðnings. Og dómurum þykir afar fínt að sýkna slíka menn í meiðyrðamálum. Sérstaklega gildir þetta ef hinn ásakaði maður er stjórnmálamaður eða af öðrum ástæðum þekktur í þjóðlífinu. Þá þykir mjög fínt að kalla hann „opinbera persónu“ og þannig láta eins og gefið hafi verið út á hann almennt veiðileyfi. Slíkir menn, dómarar sem aðrir, virðast ekki átta sig á því að meiðyrðalöggjöfin gerir enga slíka mismunun á fólki sem ekki er von.

En svo er tjáningarfrelsið einnig í vörn. En þá er það ekki af því að verið sé að vernda einstaklinga og fjölskyldur þeirra, heldur er verið að amast við skoðunum sem ráðamönnum hverju sinni líkar ekki. Í þeirri baráttu er vitaskuld byrjað á þeim skoðunum sem fáir vilja bendla sig við en þá þykjast menn vera vissir um að fáir muni koma ákærðum og dæmdum mönnum til varnar. Þannig var hér á Íslandi sjómaður nokkur nýlega dæmdur í 100 þúsund króna sekt og fangelsi til vara fyrir að hafa látið í ljós þá sérstöku skoðun sína að Afríkunegrar væru latari en Íslendingar. Þó það sé aukaatriði, þá væri gaman að vita hvernig dómstólar hefðu brugðist við ef maðurinn hefði orðað þessa skoðun sína þannig að hann teldi Íslendinga duglegri en negrana. Kannski hefði hann þá sloppið! En hvað um það, þeir sem fagna þessum dómi þeir ættu að velta fyrir sér inn á hvaða braut menn eru komnir. Maðurinn var ekki dæmdur fyrir að vega að nokkrum tilteknum manni. Hann var einfaldlega dæmdur fyrir að láta í ljós þessa skoðun sína.

Fyrir nokkru komu saman fulltrúar nokkurra evrópskra borga og stilltu saman strengina í baráttu sinni við fíkniefnaneyslu borgaranna. Meðal krafna þeirra var sú að fólki verði bannað að berjast fyrir því að bann við fíkniefnaneyslu verði fellt úr gildi! Hvað kemur næst? Evrópusambandið vill banna andúð á útlendingum. Sumir vilja banna einstök orð og hugtök. Það megi bara nota ákveðin hugtök um ákveða þjóðfélagshópa, önnur orð séu „gildishlaðin“ og þess vegna eigi menn bara að banna þau, og svona má áfram halda. Því þegar hið opinbera er byrjað að banna ákveðnar skoðanir, hvenær mun það þá hætta? Hvenær munu menn hætta að bæta við nýjum skoðunum sem endilega þarf að stöðva, svona til þess að berjast fyrir auknu „umburðarlyndi“?