Laugardagur 13. júlí 2002

194. tbl. 6. árg.

Milton Friedman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, gagnrýndi evruna á dögunum og sagði að hún myndi hrynja innan 5-10 ára. Þetta þykir sjálfsagt sumum furðulega djörf spá, sér í lagi þegar evran er nánast búin að ná Bandaríkjadal að verðgildi. Verðgildi evrunnar nú er að vísu ekki mikið þegar litið er til þess hvernig hún var skráð í upphafi, en þá var hún 18% verðmætari en dalurinn. Engu að síður hefur hún að undanförnu sótt í sig veðrið gagnvart dalnum og þess vegna halda sjálfsagt einhverjir að forsendurnar fyrir myntinni séu skyndilega orðnar betri en þær voru fyrir þessa hækkun. Svo er þó ekki og ekkert hefur breyst fyrir utan það að Bandaríkjadalur hefur verið að veikjast mikið gagnvart öllum myntum að undanförnu, og þar með gagnvart evrunni. Í því liggur meginskýringin á styrkingu evrunnar. Sé evran borin saman við aðra gjaldmiðla en dalinn lítur dæmið allt öðru vísi út. Hún hefur til að mynda veikst gagnvart svissneska frankanum, norsku krónunni og svo auðvitað íslensku krónunni, en íslenska krónan er nær 7% sterkari gagnvart evrunni en hún var um áramótin síðustu.

Svona útreikningar á styrk gjaldmiðla segja svo sem ekki mikið um hversu lífvænlegir þeir eru, en þegar evrusinnar horfa nú á gjaldmiðlakrossinn evra/dalur og draga þá ályktun að evran sé að slá í gegn, er nauðsynlegt að kippa þeim niður á jörðina aftur. En vandinn við stuðningsmenn þess að Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu og taki upp evruna er sá að þeir eru ekki mikið niðri á jörðunni. Þeir byggja ekki aðeins skýjaborgir og loftkastala, heldur flytja þeir þangað inn og lifa þar í einhverri sam-evrópskri draumaveröld. Í þeirri draumaveröld er Evrópa sambandsríki með sameiginlega stjórnarskrá og her alviturra embættismanna sem eru á sífelldu iði um álfuna til að kippa í spotta hér og hnýta lausa enda þar. Evrópusambandssinnarnir gleyma því þegar detta inn í þessa fantasíu sína að Evrópa er sett saman af fjölmörgum ólíkum ríkjum og að í Evrópu er afar ólíkt fólk að ýmsu leyti. Sumum finnast sérkenni hvers landsvæðis álfunnar skemmtileg en aðrir vilja að allir verði eins. Staðreyndin er þó sú að menn eru ekki allir eins og tala meðal annars afskaplega ólík tungumál og það er ein meginskýringin á því að Milton Friedman hættir sér út í að spá falli evrunnar innan tiltölulega fárra ára. Friedman sér fyrir sér aukið atvinnuleysi í álfunni með tilkomu evrunnar, því tungumál og aðrar menningarlegar aðstæður, muni draga úr hreyfanleika fólks, en eitt meginskilyrði þess að evran geti gengið upp er að fólk sé hreyfanlegt og fari þaðan sem lífsskilyrði eru lökust. Þetta sjá menn að gengur upp í Bandaríkjunum, en þar tala menn sama tungumálið flestir að minnsta kosti og líta þess vegna ekki svo á að óvinnandi vegur sé að flytja sig um set. Allt öðru máli gegnir um Frakka að flytja yfir landamærin til Þýskalands eða Dana að flytja til Portúgals.