Helgarsprokið 30. júní 2002

181. tbl. 6. árg.

Í dag er 201 ár liðið frá fæðingu rithöfundarins og hagfræðingsins Frédérics Bastiats og er það prýðilegt tilefni til að rifja upp líf hans og einkum starf. Einhverjum þykir þó ef til vill sem menn séu heldur seinir með slíka upprifjun því ólíkt meira tilefni hefði verið til hennar fyrir ári, þegar 200 ára afmælis Bastiats var minnst víða um heim. Þá væri þess hins vegar að geta að á þeim degi gaf Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, út íslenska þýðingu þekktasta ritverks Bastiats, en Lögin hafa verið þýdd á ótal tungumál og haft mikil áhrif á milljónir lesenda þau 152 ár sem liðin eru frá því þau fyrst komu út. Óhætt er að fullyrða að bókin á brýnt erindi við nútímalesendur en sú hugsun, sem Bastiat gagnrýnir þar með áhrifamiklum hætti, er enn rík í mörgum og leggur hömlur á saklaust fólk í öllum löndum, minnkar athafnafrelsi þess og dregur úr lífsgæðum hvar sem hún fær að dafna óáreitt.

„Vefþjóðviljinn er hins vegar alls ekki á móti menningu eða íþróttum. Blaðið er á móti því að borgararnir séu þvingaðir til að styðja tónleikahald eða fótboltaleiki. Vefþjóðviljinn er andvígur því sem kalla mætti þvingaðar íþróttir og þvingaða menningarstarfsemi.“

Frédéric Bastiat fæddist í Bayonne í Frakklandi hinn 30. júní 1801. Hann hlaut góða undirstöðumenntun og átján ára gamall hóf hann hagfræðinám og var Adam Smith á meðal þeirra sem mest áhrif höfðu á hann. Með námi sínu sinnti hann ýmsum störfum; hann starfaði á bókhaldsstofu og hjá innflutningsfyrirtæki, hann var bóndi um skeið og sinnti jafnframt stjórnmálum og sat á þingi. Bastiat stofnaði félag til baráttu fyrir frjálsri verslun í Bordeaux og hann sat í stjórn slíkra samtaka í París. Fyrsta ritsmíðin sem gefin var út eftir Bastiat var svar hans við bænaskrá kaupmanna í nokkrum borgum, en þeir höfðu óskað eftir því að tollar á búvörur yrðu felldir niður en þeim haldið við á iðnvarningi. Bastiat studdi fyrri kröfu kaupmannanna en lagðist öndverður gegn hinni. „Þið heimtið forréttindi fárra en ég vil frelsi fyrir alla“ skrifaði hann og þau orð bergmála í öðrum ritum hans. Meðal annarra verka hans má nefna ritgerð hans um áhrif tolla á almenning, Des tarifs français et anglais, en hún hafði mikil áhrif enda þóttu efnistök hans einstæð. Nokkru síðar, í júní 1850, komu Lögin út en eins og áður segir hafa nýjar og nýjar kynslóðir drukkið þau í sig og hafa þau reynst mörgum sem vin í eyðimörk þeirra ofstjórnarhugsunar sem ekkert lát virðist á. Bastiat varð sjálfur ekki var við sigurgöngu þessarar bókar sinnar. Hálfu ári eftir að Lögin komu út var hann sjálfur allur.

Í Lögunum fjallar Bastiat um hlutverk laganna, það er að segja þeirra laga sem sett eru mönnum til eftirbreytni. Hvert er hlutverk laganna? Og, það sem ekki skiptir minna máli, hvert er ekki hlutverk laganna? Eiga lögin einungis að hindra óréttlæti eða á einnig að freista þess að útdeila réttlæti? Var réttlæti til áður en menn tóku að setja lög? Og er kannski nauðsynlegt að takmarka lögin til þess að koma í veg fyrir óréttlæti? Hugleiðingar Bastiats, sem í senn eru einarðar og skynsamlegar, eiga brýnt erindi við nútímamenn. Um allan hinn vestræna heim þenjast lög og reglugerðir út. Sífellt er verið að setja nýjar reglur, banna fleira, leiðbeina mönnum ýtarlegar, setja þrengri skilyrði og taka hærra gjald fyrir fleira. Allt er það sagt vera öllum til góðs eða þá sérstakt réttlætismál. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi þróun spillir mannlífinu og skerðir lífskjörin og er þá ógetið þess óréttlætis sem margir telja fólgið í því að opinberu valdi sé beitt til að skipta sér einkamálum annarra. Á slíkum tímum eru hálfrar annarrar aldar gömul Lög Frédérics Bastiats hreinasta heilsubót fyrir hugsandi fólk.

Þeir sem beita sér gegn opinberum stuðningi við tiltekið málefni fá gjarnan að heyra kenningar um að þeir séu ekki aðeins á móti þessum tiltekna opinbera stuðningi heldur séu þeir jafnframt sérstakir hatursmenn málefnisins sjálfs. „Hvað hafiði eiginlega á móti menningu“ er Vefþjóðviljinn spurður í bréfum frá örvæntingarfullum lesendum sínum þegar hann amast við kvikmyndasjóði eða tónlistarhúsi svo aðeins örfá dæmi séu nefnd. „Af hverju er ykkur svona illa við íþróttamenn?“ hvá andstuttir íþróttaáhugamenn þegar blaðið gagnrýnir linnulaus framlög ríkis og sveitarfélaga til íþróttafélaganna. Vefþjóðviljinn er hins vegar alls ekki á móti menningu eða íþróttum. Blaðið er á móti því að borgararnir séu þvingaðir til að styðja tónleikahald eða fótboltaleiki. Vefþjóðviljinn er andvígur því sem kalla mætti þvingaðar íþróttir og þvingaða menningarstarfsemi. Í Lögunum víkur Bastiat einmitt að þeirri baráttuaðferð að segja andstæðinginn einfaldlega á móti því sem hann vill ekki að ríkið beiti sér fyrir:

„Þrátt fyrir að vera svolítið góð með sig, er eins og jafnaðarstefnan finni á sér að öll hennar kerfi og fyrirætlanir eru á endanum heil ófreskja af lögmætu hnupli. En hvað gerir hún? Hún dylur það vandlega fyrir fólki – og líka sjálfri sér – með fegrandi heitum, eins og: bræðralag, samstaða, skipulag, samvinna. En af því við biðjum ekki um svona mikið af lögunum, af því við óskum ekki annars en réttlætis, segir jafnaðarstefnan gjarnan að við viljum ekki bræðralag, samstöðu, skipulag eða samvinnu – og gefur okkur umsögnina einstaklingshyggjumenn.
Hið rétta er að við höfnum ekki náttúrulegu skipulagi heldur þvinguðu skipulagi. Við höfnum ekki frjálsri samvinnu heldur bara ósjálfviljugri samvinnu. Við höfnum ekki eðlilegu bræðralagi heldur bara lög-skipuðu bræðralagi. Við höfnum ekki náttúrulegri samstöðu manna sem forsjónin kveður á um, heldur bara tilbúinni samstöðu, sem sviptir fólk sinni eðlilegu ábyrgð.
Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn.“

Eins og hér sést var Frédéric Bastiat ekki nema mátulega hrifinn af jafnaðarstefnunni og þarf það engum að koma á óvart sem horfir til þess að Bastiat barðist fyrir raunverulegu frelsi einstaklingsins og gegn hvers kyns forræðishyggju, og þá ekki síst þeirri sem falin er bak við þann fagurgala sem blekkir einfeldninga á öllum öldum. Ekki verður efni Laganna hins vegar rakið hér frekar að þessu sinni þó Vefþjóðviljanum þyki óhætt að mæla með bókinni við lesendur sína. Með þeim meðmælum er þó sjálfsagt að láta fylgja þá athugasemd að sjaldan sé að marka lýsingar útgefenda á þeim bókum sem þeir sjálfir gefa út. Þeir sem hins vegar taka þessi meðmæli blaðsins trúanleg geta fest kaup á Lögunum og fengið þau send heim með því annars vegar að senda Andríki bréf þess efnis eða með því að smella á hnappinn „Frjálst framlag“ hér til hliðar, fylla út þá reiti sem upp koma af samviskusemi og senda 1.500 króna eingreiðslu. Bókin er kilja, 73 blaðsíður að lengd og kostar sem sagt með heimsendingu krónur fimmtán hundruð.