Mánudagur 1. júlí 2002

182. tbl. 6. árg.

Ríki og sveitarfélög eru dugleg við að stofna stofnanir. Þau eru svo dugleg að til að fela ósköpin heita sumar stofnanir nú orðið „stofur“, sennilega af því að það er vinalegra viðskeyti og dreifir athygli fólks frá því að stofnunum fer fjölgandi. Sumar stofnanir verða fyrirferðamiklar og valda miklum skaða með því að þvælast fyrir fólki og fyrirtækjum, og er Samkeppnisstofnun gott dæmi um slíka stofnun. Aðrar stofnanir eða „stofur“ eru svo nýtilkomnar að þær hafa ekki enn náð að valda miklum skaða, og má í því sambandi nefna Höfuðborgarstofu, sem er glæný stofnun sem smíðuð hefur verið fyrir nútímalegasta borgarfulltrúann, Dag B. Eggertsson. Hann hefur í viðleitni sinni til að færa allt í nútímalegra horf í Reykjavík kosið að fara þá leið að láta stofna utan um sig sérstaka stofnun, Höfuðborgarstofu, með lítt skilgreint og óljóst hlutverk og þar með mikla möguleika á útþenslu.

Vegna þessarar áráttu hins opinbera til að stofna nýjar stofnanir er ekki svo lítils virði að sjá af og til að hægt er að snúa af þessari braut. Það er því ástæða til að gleðjast yfir því að í dag er ekki lengur starfandi sú stofnun sem í gær var í fullu fjöri og hét Þjóðhagsstofnun. Enn frekar er ástæða til að fagna þessu þegar litið er til þess að reynt hefur verið linnulítið með nefndarskipunum og lagafrumvörpum í tuttugu ár að leggja stofnunina niður. Eins og yfirleitt þegar til stendur að leggja stofnanir niður eða draga úr starfsemi þeirra hefur málið dagað uppi, því það er miklu þægilegra fyrir stjórnmálamenn að hreyfa ekki við slíkum málum. Stofnun kann að vera orðin óþörf að miklu leyti, ef til vill vegna breyttra tíma, vegna þess að verkefni hennar eru unnin annars staðar svo um tvíverknað er að ræða eða vegna þess að færa má verkefnin til í hagræðingarskyni. Þrátt fyrir þetta kjósa ráðherrar yfirleitt að taka ekki þann slag sem þarf til að leggja niður stofnunina, en að þessu sinni tókst að koma málinu í höfn og það þótt andmæli vinstri manna hafi verið með hefðbundnum hætti. En eins og fyrr sagði þurfti tuttugu ára undirbúning.

Oft er erfitt að fylgjast með hinu opinbera þenjast út og oft þykir frjálslyndum mönnum fátt þokast í rétta átt þegar hið opinbera er annars vegar. En af og til holar dropinn steininn og er það ágæt áminning til frjálslyndra manna um að missa ekki móðinn heldur standa saman og ná frekari árangri.