Laugardagur 29. júní 2002

180. tbl. 6. árg.

Landsmenn hafa fengið að fylgjast með því seinni part þessarar viku hvað getur gerst þegar eignarréttur er ekki skýr. Þá getur hreinlega allt farið í hund og kött, bitist er um verðmætin og ýmsum brögðum beitt til að komast yfir þau. Hér er vitaskuld verið að vísa til þrætunnar Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Sú staðreynd að stór hluti eigin fjár sjóðsins er undir afar veikum eignarrétti – sumir segja að það eigi enginn – hefur orðið til þess að upp hafa komið deilur af því tagi sem ekki gætu komið upp þegar félagsformið felur í sér skýran eignarrétt. Enginn veit hver niðurstaða þessa máls verður, en ólíklegt má telja að hún muni leysa þann vanda, sem fylgir eignarhaldi – eða skorti á eignarhaldi – hjá sparisjóðunum, í eitt skipti fyrir öll.

En það er víðar pottur brotinn varðandi eignarréttindi á Íslandi. Stærstur hluti hálendis landsins hafði þar til fyrir skömmu verið svokallaður almenningur, sem þýddi í raun að enginn átti hálendið. Eða að þjóðin átti hálendið, sem er sami hluturinn. Nú hefur þessu verið breytt og ríkið hefur sölsað undir sig þessar auðnir og þar með má segja að eignarrétturinn hafi orðið skýrari, en þó er fjarri því að hann sé með besta móti. Það er nefnilega nokkur munur á því að þjóðin eigi eitthvað og að ríkið eigi eitthvað, því „þjóðin“ getur ekki átt neitt enda er hún ekki til í þeim skilningi að það geti komið að gagni við ákvörðun eignarréttar. Þess vegna er það einmitt sem það er endaleysa að tala um að „þjóðin eigi fiskimiðin“. En nú á ríkið sem sagt hálendið og þar með má segja að einn aðili hafi á því skýran eignarrétt. Vandinn er bara sá að þessi tiltekni aðili er sá aðili sem verst er treystandi fyrir nokkrum hlut. Ástæðan er meðal annars sú að hann er allt of líkur þeim aðila sem kallast „þjóðin“ eða „allir“ og er þess vegna afar illa til þess fallinn að fara með nokkur eignarréttindi. Að minnsta kosti ef gæta á eignarinnar og fara vel með hana eða jafnvel að láta hana vaxa og dafna.

Ástæðan fyrir því að þetta er nefnt nú er að nú eru fjallvegir óðum að opnast og fólk fer að þyrpast á stórum og smáum fjallabílum út um allar trissur inni á hálendi. Og þó hálendið hafi hér að framan verið nefnt auðn, þá er ekki þar með sagt að æskilegt sé að illa sé farið með það og því spillt. Þvert á móti er æskilegt að þess sé gætt að ferðamenn gangi vel um á hálendinu eins og annars staðar og að ferðalögin verði ekki aðeins ferðamönnunum til skemmtunar heldur verði helst líka til þess að bæta aðstæður á hálendinu og viðhalda eða auka verðmæti þess. Til að þetta megi verða er æskilegt að hálendið sé í einkaeigu. Þannig mætti hugsa sér að einhverjir sem teldu fjármuni upp úr því að hafa að selja með einhverjum hætti aðgang að tilteknum náttúruperlum gætu keypt þær og spreytt sig á slíkum viðskiptum. Eigendur náttúruperlunnar myndu skilja það að til að hafa af henni tekjur áfram þyrfti að gæta þess að vel yrði um hana gengið og einnig að allar aðstæður væru með besta móti til að ferðamenn vildu leggja leið sína þangað. Þannig gætu aðstæður fyrir ferðamenn batnað, náttúruperlur verið undir góðu eftirliti og eigendur þeirra haft af þeim tekjur.

Afar ólíklegt er að á meðan hálendið er í eigu ríkisins – þ.e. í raun í einskis eigu – að þá verði farið með þau verðmæti sem þar eru með skynsamlegustum hætti. Ekki er þörf á að minna á hvernig ríkiseign lands fór með náttúruna í fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu og Sovétríkjanna og þangað þarf ekki að leita til að sjá dæmi um ólíka meðferð á landi eftir því hvert eignarhaldið er. Efist menn um að einkaaðilar myndu hugsa betur um reitinn sinn á hálendinu en ríkið gerir þarf varla annað en bera saman venjulega sumarbústaðalóð, sem er undantekningarlítið vel hirt, og land í eigu ríkisins, sem yfirleitt er harla lítið sinnt.

Meðal þess sem eigandi hálendis þyrfti að gera upp við sig er það álitamál hversu aðgengilegt hálendið á að vera. Eiga þar að vera greiðfærir vegir um allt, svo sem flestir geti „notið hálendisins“, eða á hálendið að vera torsótt svæði sem fáir sækja en njóta þeim mun betur? Er virkilega ástæða til að brúa allar ár, hefla alla vegi niður í fólksbílafæri og jafnvel merkja gönguleiðir um það hálendi sem fæstir hafa kynnst af eigin raun en flestir eiga sér hugmyndir um? Er kannski réttara, þrátt fyrir allt tískugjammið um „greitt aðgengi“, að láta góðan hluta hálendisins útilegumönnum og fuglum himinsins eftir? Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að svara því í dag en úr því blaðið hefur í dag vaðið úr einu í annað þá getur það alveg eins lokið sér af með því að rifja upp lítið ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, „Bílferð á heiði“:

Um þessa heiði þögnin hafði ríkt
í þúsund ár – og langar aldir vafið
hin dulu fell í mosagráa mýkt
og minjar sínar undir feldinn grafið;

unz auðnin vék og aðrir tóku völd
og akhljóð nýrra tíma um hrjóstrin streymdi.
Þú hinkrar við eitt hrímgað vetrarkvöld
og hugsar: Var það þetta sem mig dreymdi?

Þér berst frá himni og moldu minning hljóð
um móður þinnar gröf í dalnum inni,
um jörð sem drakk þíns föður banablóð,
um bróður þinn sem villtist einu sinni.

Vélhjartað kalt og knátt þig áfram ber,
en kynslóðanna spurning fylgir þér.