Föstudagur 28. júní 2002

179. tbl. 6. árg.

Sennilega er misjafnt hvaða ástæður liggja að baki þegar hver og einn velur sér nám og síðar starfsvettvang. Stundum ræður sennilega tilviljunin ein en oftar liggja ákveðnar ástæður að baki. „Það að fara í þetta nám var ekki löngu ákveðið, ég ætlaði fyrst í sagnfræði en þegar ég fór að lesa ævisögur stjórnmálamanna stönguðust oft á pælingar þeirra hvað varðar fjármál og þegar ég fór að kynna mér betur þann bakgrunn sem lá að baki orðum þeirra vaknaði áhugi á hagfræði.“ Svo hefur DV í gær eftir Marínó nokkrum Tryggvasyni sem á dögunum útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands við ágætan vitnisburð. Það er sjálfsagt ekki heimskulegri ástæða fyrir námsvali en hver önnur; að minnsta kosti virðist sem námið hafi átt við Marínó.

Sjálfsagt hafa ýmsir af og til hugsað það sama. Hugmyndir stjórnmálamanna og ekki síður flestra hagsmunahópa sem tjá sig um þjóðmál eru gjarnan svo undarlegar að ekki þarf að koma á óvart þó hjá mönnum vakni nokkur áhugi á hagfræði; svona að minnsta kosti til þess að athuga hvort nokkurt minnsta vit er í þeim málflutningi sem hæst ber hverju sinni. Umræddur nýútskrifaður viðskiptafræðingur segist í viðtalinu við DV lesa mjög hratt og komast yfir að lesa rúmlega 700 blaðsíðna kennslubók á einum degi og sennilega munu fæstir hafa löngun eða tíma til að leika það eftir til lengdar. En það er ekki eins og menn þurfi að lesa úr sér augun til þess að öðlast afar frambærilegan skilning á þeim grundvallaratriðum hagfræðinnar sem mestu máli skipta í þjóðmálaumræðunni. Það mætti komast langleiðina að þeim árangri með einni góðri bók, sem Vefþjóðviljinn hefur reyndar áður leyft sér að mæla með.

Í metsölubókinni Hagfræði í hnotskurn fjallar Henry Hazlitt um ýmis grundvallaratriði hagfræðinnar á einstaklega skiljanlegan hátt. Hann útskýrir hvað býr að baki háum sköttum, verðbólgu og atvinnuleysi, fjallar um hlutverk verðs og hagnaðar, ræðir um verkalýðsfélög, tolla, vélvæðingu, húsaleigu og lágmarkslaun svo aðeins örfá atriði séu nefnd. En ekki síst er mikilvægt að hann vekur athygli á ýmsum þeim ranghugmyndum sem sífellt virðast ganga aftur í ræðum óábyrgra stjórnmálamanna af lýðskrumstegundinni. Hazlitt bendir á það einkenni slíkra aðila að líta aðeins á áhrif tillagna sinna á einn tiltekinn hóp en loka augunum vísvitandi fyrir áhrifunum á alla aðra. Þannig er látlaust verið að kynna hugmyndir að nýjum opinberum framkvæmdum eða öðrum aðgerðum og því fagurlega lýst hve þær yrðu mikil lyftistöng fyrir einhvern tiltekinn hóp, byggðarlag eða starfsstétt. En þess er aldrei getið að að allt verður þetta að fjármagna með auknum sköttum á alla aðra sem þar með hafa minna fé milli handanna.

Þannig er aðeins „jákvæða“ hliðin sýnd en aldrei hin „neikvæða“. Þegar hið opinbera er svo búið að reisa mannvirkið eða stofna sjóðinn þá blasir „jákvæði“ árangurinn við. En fáir leiða hugann að þeim neikvæða, einmitt af því að hann blasir ekki við. Ef til dæmis sveitarfélag ákveður að reisa íþróttahús þá mun fljótlega veglegt íþróttahús blasa við vegfarendum og vera eilíft minnismerki um drífandi meirihluta í sveitarfélaginu. En fáir leiða hugann að því að íþróttahúsið var byggt fyrir skattfé sem tekið var af íbúum sveitarfélagsins og þeir höfðu þar með nákvæmlega þeim mun minna fé til að kaupa það sem þeir hefðu viljað fyrir peningana. Íþróttahúsið sést, af því að það var byggt. Það sem íbúarnir hefðu keypt, það sést aldrei, einfaldlega vegna þess að íbúarnir fengu ekki að kaupa það. Og sama gildir um allar opinberar framkvæmdir, alla opinbera styrki, allan opinberan „stuðning“ við einhver málefni eða hagsmunahópa; allt kemur þetta úr vasa skattgreiðenda og dregur úr því sem þeir geta sjálfir gert.

Allt er þetta rætt í hinni fróðlegu bók Henrys Hazlitts og er óhætt að mæla með henni við alla þá sem vilja kynna sér þau grundvallaratriði sem skipta máli í þjóðmálaumræðunni. Hinir, sem ekki vilja skilja þessi atriði, ættu að forðast hana eins og heitan eldinn.