Þriðjudagur 28. maí 2002

148. tbl. 6. árg.

Ekki eiga Samfylkingarmenn á Siglufirði von á góðu á næstunni. Gott ef Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar fer ekki norður og kennir þeim nokkur undirstöðuatriði um lýðræðið. Og ef allt fer á versta veg gæti Össur Skarphéðinsson líffræðingur á Vesturgötu sent þeim bréf.

Eins og menn muna sjálfsagt fékk George W. Bush meirihluta kjörmanna í forsetakosningum í Bandaríkjunum árið 2000 og varð forseti eins og lög þar vestra gera ráð fyrir. Í forsetakosningum er kosið er um kjörmenn í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Þessir kjörmenn velja forsetann. Bush fékk hins vegar ekki meirihluta atkvæða á landsvísu enda skiptir sú niðurstaða engu máli í forsetakjöri þar sem kosið er um kjörmennina í hverju ríki fyrir sig.

Rætt var við Össur Skarphéðinsson um þessa niðurstöðu í Morgunblaðinu 15. desember 2000 og þar segir meðal annars: „Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að úrslit forsetakosninganna séu áfall fyrir lýðræðið. Niðurstaðan hljóti að leiða til umræðu um breytingar á fyrirkomulagi kosninganna og talningar atkvæða, þannig að í framtíðinni verði ekki mögulegt að verða forseti með færri atkvæði en sá sem tapar.“

Á Siglufirði fékk S-listi Siglufjarðarlistans 46,8% atkvæða og 4 menn kjörna. Þessir fjórir menn eru hins vegar 57,1% bæjarfulltrúa á Siglufirði og hreinn meirihluti þótt minnihluti kjósenda hafi greitt þeim atkvæði sitt. Nú bíða menn spenntir eftir því að Össur þvingi S-listann til samstarfs við önnur framboð svo forða megi lýðræðinu á Sigló frá áfalli.