Mánudagur 27. maí 2002

147. tbl. 6. árg.

VGLOGOIDSvona eftir á að hyggja, þá voru það stór mistök hjá vinstri-grænum í Reykjavík að vera með í því að draga fána R-listans að húni í Reykjavík en skilja sína eigin fánastöng eftir auða. Telja verður líklegt að framboð vinstri-grænna annars vegar og sameiginlegt framboð hinna vinstri flokkanna þriggja, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Dags B. Eggertssonar hefði ekki aðeins náð meirihluta í Reykjavík heldur hefðu slík framboð hugsanlega náð 9. sætinu sem Ólafur F. Magnússon klófesti við nefið á vinstri mönnum. Og það sem verra er fyrir vinstri-græna: eftir að skoðanakönnun eftir skoðanakönnun hefur talið þeim trú um að byltingin sé nú loks að hefjast, standa þeir uppi án nokkurs áþreifanlegs árangurs. Sjálfstætt framboð þeirra í Reykjavík hefði getað sýnt lífsmark með flokknum, það er að segja ef skammlaus árangur hefði náðst. En vinstri-grænir þorðu ekki og sitja nú uppi með það.

Meira að segja Neskaupstaður tapaðist. Að vísu rann Litla-Moskva inn í sveitarfélagið „Fjarðarbyggð“ fyrir fjórum árum, en áfallið er samt hið sama. „Fjarðarlistinn“, sem að meginstofni til er gamla Alþýðubandalagið í Neskaupstað hafði 7 menn af 11 en datt niður í 4 menn af 9. Akureyri er svo annar kapítuli í veruleikaáfalli vinstri-grænna. Henni hefur verið lýst sem sérstöku vígi þeirra og formannsins Steingríms J. Sigfússonar sérstaklega. Og veruleikaskyn vinstri-grænna var slíkt að þeir kynntu efsta mann sinn, Valgerði Bjarnadóttur, sem bæjarstjóraefni. Niðurstaðan varð sú að efsti maðurinn, bæjarstjóraefnið komst með herkjum inn. Vinstri-grænir náðu með herkjum í einn mann af ellefu í höfuðvíginu. Í tveimur af þremur stærstu bæjarfélögum landsins, Kópavogi og Hafnarfirði buðu vinstri-grænir fram í eigin nafni en var gersamlega hafnað. Í þessum tveimur bæjarfélögum hafa vinstri-grænir samtals engan bæjarfulltrúa af tuttugu og tveimur. Það er gersamlega ömurleg frammistaða af stjórnmálaflokki sem ekki aðeins tekur sig alvarlega heldur vonast til að aðrir geri það líka.

Góð frammistaða í Reykjavík hefði getað náð smáflokksstimplinum af vinstri-grænum. En kjarkurinn var ekki meiri en þessi. Auðvitað munu þeir reyna að segja að þeir séu nú mikilvægur hluti R-listans sem hafi unnið góðan varnarsigur og aðeins tapað 1 % af fylgi sínu. En hverjum dettur í hug að Árni Þór Sigurðsson sé sigurvegari laugardagsins – nema svona persónulega fyrir sjálfan sig – eða hún þarna Björk Vilhelmsdóttir sem er hinn flokksbundni vinstri-græni sem var hleypt í borgarstjórn? Nei, vinstri-grænir standa uppi gersamlega sigurlausir eftir laugardaginn. „Ja, okkur gekk nú all vel í Skagafirði“ segja þeir þá og átta sig sennilega ekki á því hve það svar segir mikið um það hvernig þeir léku af sér.

En fyrst minnst er á kosningaúrslitin þá er sjálfsagt að vekja athygli á einu. Forsvarsmenn tveggja óþarfra opinberra stofnana voru beinlínis hýddir á laugardaginn. Valgerður Bjarnadóttir, „framkvæmdastýra jafnréttisstofu“ og bæjarstjóraefni (en ekki bæjarstýruefni!) vinstri-grænna gerði ekki meira en að komast sjálf inn í bæjarstjórnina. Og í Hafnarfirði var Þorsteinn Njálsson, formaður tóbaksvarnarnefndar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, þurrkaður út. Þó Vefþjóðviljinn kunni ekki við að fullyrða að þessir frambjóðendur hafi fengið þessa ofboðslegu útreið vegna þeirra stofnana sem þeir stýra þá vill blaðið engu að síður gera það að tillögu sinni að Georg Ólafsson forstjóri Samkeppnisstofnunar leiði lista Húmanistaflokksins í Alþingiskosningunum að ári.