Helgarsprokið 26. maí 2002

146. tbl. 6. árg.
„If I knew for a certainty that a man was coming to my house with the conscious design of doing me good, I should run for my life.“
– Henry David Thoreau.

Frelsi einstaklingsins, hvort heldur er persónufrelsi eða efnahagslegt frelsi ef hægt er að greina þar á milli á annað borð, hefur minnkað umtalsvert undanfarin átta ár í Reykjavík. Þetta kann að hljóma undarlega enda tækifæri sveitarfélaga til að skerða frelsi borgaranna takmörkuð af ýmsum ástæðum. En þó tækifærin séu takmörkuð í sveitarstjórnum til að hafa áhrif á frelsi einstaklingsins þá geta áhrifin verið veruleg ef saman fara nægur vilji og nægt hugmyndaflug til að nýta þessi færi. Og þegar til sveitarstjórna velst dugmikið fólk með góð áform þá er frelsi einstaklingsins veruleg hætta búin því þetta dugmikla fólk með góðu áformin skortir oft hvorki vilja né hugmyndaflug til að nýta tækifæri sem felast í völdum sveitarstjórna.

„…þá er kjarni málsins sá að hann er einkadans. Hann er hvorki þjóðdans né samkvæmisdans eins og sumir stjórnmálamenn vilja vera láta heldur er hann einkamál tveggja einstaklinga.“

Eitt þessara tækifæra er svokölluð lögreglusamþykkt Reykjavíkur en í henni er meðal annars kveðið á um útgöngubann í Reykjavík, á hvaða tímum það gildir og fyrir hvaða borgarbúa. Í fundargerð borgarstjórnar frá 16. maí síðastliðnum er að finna þessa málsgrein:

„8. Breytingar á lögreglusamþykkt Reykjavíkur; síðari umræða. Breytingar á lögreglusamþykkt Reykjavíkur, merktar I-III í bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 12. mars s.l., samþykktar með 14 samhljóða atkvæðum.“

Lesendum til glöggvunar þá skal þess getið að þarna er samþykkt breyting á lögreglusamþykkt þess efnis að hér eftir verði einkadans á nektardansstöðum í Reykjavík óheimill. Það er einkum þrennt sem þarna vekur athygli. Í fyrsta lagi hversu verulega hægt er að skerða efnahagslegt frelsi einstaklingsins með einfaldri samþykkt sveitarstjórnar, en um það hefur áður verið fjallað hér í blaðinu. Í öðru lagi að samþykktin er samþykkt með 14 samhljóða atkvæðum en einungis 8 borgarfulltrúar sátu í borgarstjórn fyrir R-listann þegar fundurinn fór fram. Í þriðja lagi hversu víðfeðmt stjórnvald borgarstjórn Reykjavíkur er orðin, hversu nærri einkalífi borgarbúa hún gengur.

Burtséð frá því hvort fólki finnist einkadans smekklegur eða ósmekklegur, niðurlægjandi eða uppbyggjandi þá er kjarni málsins sá að hann er einkadans. Hann er hvorki þjóðdans né samkvæmisdans eins og sumir stjórnmálamenn vilja vera láta heldur er hann einkamál tveggja einstaklinga. Það sem meira er, inntak dansins sjálfs er kynlíf og kynlíf tveggja fullorðinna einstaklinga getur ekki talist til annars en hinna mestu einkamála. Tæpast er til meira einkamál í veröldinni nema ef vera skyldi kynlíf eins einstaklings. Svo lengi sem dansari og áhorfandi ganga fúsir og frjálsir til leiks þá er það beinlínis skylda stjórnvalda að blanda sér ekki í leikinn.

Umræðan um nektardans eða ekki nektardans, einkadans eða ekki einkadans snýst ekki um hvað sé smekklegt og hvað ósmekklegt, hvað sé viðeigandi að fólk geri fyrir luktum dyrum í húsum sínum og hvað sé óviðeigandi að fólk geri þar. Líf annars fólks er nefnilega oft ósmekklegt og þess vegna lifir maður sínu eigin lífi en ekki annarra. Kynlíf annars fólks er jafnvel enn ósmekklegra og einmitt þessvegna lifir maður sínu eigin kynlífi en ekki annarra.