Laugardagur 25. maí 2002

145. tbl. 6. árg.

Áskilti sem ungur Þjóðveri bar á förnum vegi á dögunum var letrað að George W. Bush væri mesti hryðjuverkamaður í heimi. Mynd af manninum með þennan boðskap birtist í blöðum um allan heim.

Ýmsir aðrir spekingar hafa einnig sent Bush kaldar kveðjur. Hann hefur verið kallaður stríðsæsingamaður, stríðsherra, heimsvaldasinni og einangrunarsinni. Og allt þetta er hann til þess að þjónka undir stórfyrirtæki, úhú á vegum alþjóðlegra auðhringa, ekki síst vopnaframleiðendur. Enda hafi þau stungið að honum fúlgum fjár fyrir kosningar. Svo er Bush vondur við aðrar þjóðir og stendur í vegi fyrir samningum milli þjóða. Síðast en ekki síst hefur Bush klikkað á því, að mati spekinganna, eins og raunar allir forsetar Bandaríkjanna síðustu áratugina, að beita áhrifum Bandaríkjanna ekki nægilega um víða veröld til að leysa hvers manns vanda. Á sama tíma eiga hann og aðrir Bandaríkjamenn að hætta allri afskiptasemi af sömu mönnum.

En hvað um þessa speki. Í gær undirrituðu tveir menn í Kreml samning um mestu fækkun kjarnorkuvopna í sögunni. Þjóð hvors um sig mun minnka kjarnorkuvopnabúr sitt um tvo þriðju. Annar þeirra heitir Vladimir Putin og gegnir starfi forseta Rússlands. Hinn er George W. Bush „mesti hryðjuverkamaður í heimi“.