Föstudagur 24. maí 2002

144. tbl. 6. árg.

Á dögunum birti Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík blaðaauglýsingu sem sýndi ungt barn teygja sig upp eftir afgreiðslunúmeri, sem ekki reyndist í lægri kantinum. „Hún er númer 1883“ sagði í auglýsingunni og vísaði það til þess að samkvæmt síðustu tölum, þeim sem lágu fyrir um síðustu áramót, voru 1883 börn á biðlista eftir dagvistun í Reykjavík, og það þrátt fyrir að R-listinn hafi forðum daga hátíðlega lofað að „eyða biðlistunum“. Eins og menn hafa tekið eftir hefur R-listinn síðustu daga verið í mikilli afneitunar-auglýsingaherferð þar sem allri gagnrýni á störf R-listans er einfaldlega hafnað sem ósannindum. Og auðvitað neitaði R-listinn þeim tölum sem Sjálfstæðisflokkurinn sagði frá og reyndar voru komnar frá borginni sjáfri.

R-listinn birti nýlega sína eigin auglýsingu, undir fyrirsögninni „Bylting í leikskólum“, og er þar fullyrt að tölur sjálfstæðismanna séu einfaldlega rangar. „Í Reykjavík eru nú 430 börn, eins og hálfs árs og eldri, sem enn hafa ekki fengið boð um pláss á borgarreknum leikskóla.“ segir R-listinn þar og þykist góður. Að vísu væri það nú ekki nema mátulega glæsilegt fyrir lista að sem sífellt lofaði hátíðlega að „eyða biðlistunum“ að vera svo með hátt á fimmta hundrað börn á biðlistum, en látum það vera. Lítum frekar á hvernig R-listinn fær töluna sem hann ber á borð fyrir kjósendur. Staðreyndin er sú, að rétt eins og minnihlutinn benti á, þá voru 1883 börn á biðlista um síðustu áramót. En svo hljóp bara R-listinn til og sendi foreldrum flestra barnanna bréf þess efnis að börnin myndu komast inn á leikskóla þótt síðar yrði. Og að því búnu tók R-listinn þessi börn af biðlistanum! Mun þetta vera fyrsti bréfaskólinn fyrir leikskólabörn á vegum Reykjavíkurborgar og þótt víðar væri leitað.

Börnin eru semsagt ekki komin á leikskóla hjá borginni. En það er komið bréf frá Ingibjörgu Sólrúnu og það hangir jafnvel á ísskápshurðinni. Og R-listinn telur sig hafa lyft grettistaki. Sennilega hugsa ýmsir foreldrar þessara barna að það sé eins gott að þeir séu ekki í fæði hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Þeir fengju þá sennilega ekki matarbita. En einn daginn bærist bréf þess efnis að þeir fengju rjúpu á næstu jólum. Og þar með teldi borgarstjóri sig hafa mettað þúsundir. Og R-listinn, þessi sem lofaði að eyða biðlistunum, hann telur sig geta eytt þeim með bréfasendingum! Það er kannski það sem Stefán Jón Einstein átti við þegar hann sagði á Útvarpi sögu í liðinni viku að R-listinn hefði náð „100 % árangri í dagvistarmálum“.