Fimmtudagur 23. maí 2002

143. tbl. 6. árg.

R-listinn var að gefa út sérstakt blað sem borið var inn í annað hvert hús í höfuðborginni. Blaðið heitir því aðlaðandi nafni, Rokk í Reykjavík, enda á nú aldeilis að heilla unga fólkið. Sennilega er í þessu blaði sett Íslandsmet í málflutningi þar sem R-listinn birtir þar heilsíðuauglýsingu undir hinni ótrúlegu fyrirsögn: „Reykjavíkurlistinn lækkar skatta“! Er nokkur Íslendingur sem ekki veit að R-listinn hefur hækkað skatta stórlega en ekki lækkað? Og ef menn af trúarástæðum hlusta ekki á það sem pólitískir andstæðir R-listans segja, þá er ekki lengra síðan en á sunnudaginn að hávær mótmæli verkalýðshreyfingarinnar við stórfelldum skattahækkunum R-listans voru rifjuð upp. Allir sögðu hið sama: Forseti ASÍ, stjórn Dagsbrúnar, formannafundur allra landssamtaka Alþýðusambandsins og formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur mótmæltu harkalega stórfelldum skattahækkunum R-listans. Og þó það hafi ekki verið rifjað upp á sunnudaginn þá má bæta því við hér að meira að segja Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins tók undir og lýsti sárum vonbrigðum sínum með skattahækkunina.

Gegn þessu öllu kemur R-listaliðið svo bara með heilsíðuauglýsingu: „Reykjavíkurlistinn lækkar skatta“.

Úr R-lista blaðinu.
Úr R-lista blaðinu.
Það varð bara að birta þetta sérstaklega. Annars hefði enginn trúað að nokkur gæti í raun auglýst eins og R-listinn gerir.

Og ef lesið er lengra í auglýsingunni þá aukast undrin enn! Hvað haldiði að komi? Haldi menn sér nú fast: Sem sérstök sönnun fyrir því að R-listinn „lækki skatta“ er bara fullyrt upp í opið geðið á kjósendum, sem R-listinn virðist álíta að ekki eigi neitt betra skilið: „LÆGRI HOLRÆSAGJÖLD. Holræsagjöld hafa verið lækkuð nú þegar meira en sjálfstæðismenn lofa. Holræsagjald var lækkað um 25 % um síðustu áramót, sem þýðir 1.128 miljónir á næstu fjórum árum.“  – Halló! Það var R-listinn sem lagði holræsagjaldið á! Það var ekkert holræsagjald þegar R-listinn tók við völdum. R-listinn lagði það á og hefur síðan innheimt milljarða króna af borgurunum með þeim hætti. Svo lækka þeir gjaldið – gjaldið sem þeir fundu upp sjálfir – um einn fjórða og koma þá bara og segja: Sko, sjáiði bara! Við lækkum skatta! 

Þessi „skattalækkun“ R-listans er svona svipuð og maður stöðvi annan á götu, fari með valdi í veskið hans og taki sér þar fimmþúsundkall en fái svo bakþanka og láti manngreyið fá þúsundkall í staðinn. En hringi svo í fórnarlambið nokkru síðar, næst þegar hann vill láta gera sér greiða, og segi: „Hæ, manstu eftir mér? Ég er sá sem gaf þér þúsundkall um daginn.“

Og svo bætir R-listinn um betur og segist þegar hafa lækkað holræsagjöldin um meira en sjálfstæðismenn lofa. Sjálfstæðisflokkurinn lofar raunar að afnema holræsagjaldið með öllu! Hvernig hefur R-listinn „þegar“ lækkað gjöldin meira en það? Er R-listinn farinn að borga mönnum fyrir að fara á klósettið??