Miðvikudagur 22. maí 2002

142. tbl. 6. árg.

„Ég hef umtalsverðan stuðning meðal borgarbúa, meiri stuðning en Reykjavíkurlistinn og meiri stuðning en Alfreð Þorsteinsson, með allri virðingu fyrir honum“

– Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 19. maí 2002.

Þó flestir muni reyndar kjósa að hafa færri orð um eigin vinsældir þá er það sennilega rétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að bæði R-listinn sjálfur sem og borgarfulltrúinn vandaði, Alfreð Þorsteinsson, séu óvinsælli en hún. Og hún þar með vinsælli en þeir, svo orðalag hennar sjálfrar sé notað. Og þakka skyldi. Sennilega hefur aldrei verið látið eins með nokkurn annan stjórnmálamann og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ótrúlegum tíma og fyrirhöfn varið til að byggja upp þá ímynd að þar sé sérstakur skörungur á ferð. Við þá ímyndarsmíð njóta hönnuðurnir þess að sjálfsögðu að samkeppnin við hana innan hennar eigin flokka, Kvennalistans og Samfylkingarinnar, hefur aldrei verið neitt sem máli skiptir. En það er ekki aðeins eyðimörkin í krataörmum landsins sem hefur skapað Ingibjörgu Sólrúnu ímynd hins frambærilega stjórnmálamanns; nei, þessari ímynd hennar hefur verið haldið fram í tæpan áratug og þeirri baráttu hefur fylgt dæmalaus framkoma íslenskra fjölmiðlamanna sem hafa í besta falli látið það liggja milli hluta sem kynni að koma Ingibjörgu illa. Sumir fjölmiðlamenn hafa svo gengið lengra og lotið henni í stóru og smáu og hafa tilburðir þeirra verið sífellt undrunarefni í tæpan áratug.

Það var veturinn 1993-1994 sem herlegheitin byrjuðu. Þá var ákveðið að veðja á Ingibjörgu sem sameiningartákn vinstri manna í Reykjavík og nota hana sem hið sýnilega andlit vinstri flokkanna í borginni. Leikurinn hófst með dyggri aðstoð fréttastofu Ríkisútvarpsins. Jón Baldvin Hannibalsson var látinn skrifa langt og mikið hólbréf um hana og senda flokksmönnum sínum í Reykjavík. Efni þess var það að Ingibjörg hefði sýnt svo mikla framsýni og forystuhæfileika þegar EES-samningurinn var afgreiddur á Alþingi, að rétt væri að sameinast um hana sem borgarstjóraefni. Þetta bréf, hástemmt hól um væntanlegt borgarstjóraefni vinstri manna, var svo lesið upp frá orði til orðs í fréttatímum Ríkisútvarpsins og hafði mikil áhrif í þá veru að skapa þá trú – sem enn er stunduð hér og hvar – að Ingibjörg Sólrún hefði tekið sérstaklega stórmannlega afstöðu og framsýna og stutt EES-samninginn, ein stjórnarandstæðinga. Hve margir ætli viti hið sanna í því margauglýsta og rangfærða máli? Ingibjörg Sólrún, sú sem var ræðumaður á stofnfundi Samtaka gegn EES-samningnum, greiddi bara alls ekki atkvæði með EES-samningnum á Alþingi. Hún sat hjá. Rétt eins og til dæmis Finnur Ingólfsson og hefur þó enn engum dottið í hug að gera hann að borgarstjóra.

Nei það voru engin bréf skrifuð eða lesin upp í Ríkisútvarpinu þess efnis að Finnur Ingólfsson hefði sýnt stjórnvisku, framsýni og hugrekki, þegar hann sat hjá um EES-samninginn. Enda var sú afstaða hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og fleiri, gersamlega fráleit. EES-samningurinn er dæmigert mál sem þingmenn annað hvort greiða atkvæði með eða móti. Það voru gild rök til að samþykkja samninginn og önnur sterk rök fyrir því að hafna honum. Hjáseta Ingibjargar Sólrúnar, Finns og fleiri, var afstaða þess sem ekki er maður til að taka afstöðu en vegur salt á girðingunni svo lengi sem hann getur. Og ef grannt er skoðað þá er það taktík Ingibjargar Sólrúnar í fleiri deilumálum. Eða hvað segir leiðtoginn mikli um þau mál sem helst hefur verið deilt um í samfélaginu undanfarin misseri? Vill hún virkja á hálendinu? Var hún með eða móti gagnagrunni á heilbrigðissviði? Vill hún einkavæða ríkisfyrirtæki? Eða hafa rýnihóparnir ekki enn skilað niðurstöðu?

Þetta er nú ekki á verksviði borgarinnar, æpir nú eflaust einhver. Nei, gott og vel, kannski ekki beinlínis, þó að vísu megi benda á að fyrirtækið sem myndi virkja á hálendinu er að miklu leyti í eigu borgarinnar. En þeir sem leita álits hugrakka stjórnmálamanns nýja tímans á málum eins og þessum, grípa að minnsta kosti í tómt. Í ráðhúsinu situr hin hálofaða vonarstjarna vinstri manna og slær úr og í hvenær sem hitamál er borið undir hana. Meira að segja furðukosningin um flugvöllinn vafðist fyrir leiðtoganum. Það varð að draga skoðanir hennar á flugvellinum út með töngum. Og þó tókst varla að fá þær fram. Eða hver treystir sér til að endursegja þær? Vill hún ekki stefna að því að flugvöllurinn fari. En þó verði ein braut eftir. Þó þannig að öryggi verði ekki skert. En samt eigi að fjarlægja eina braut. Af þremur. Og þá verði aðeins ein eftir.

Reyndar er flugvallarfarsinn allur á eina bókina lærður og eftir öðru. Örskömmu áður en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efndi til sýndarmennsku-„kosningar“ um framtíð flugvallarins, í mars 2001, staðfesti hún aðalskipulag Reykjavíkur þar sem flugvöllurinn var gerður óhagganlegur fram á sumar 2016. Og á dögunum staðfesti hún nýtt skipulag þar sem gert er ráð fyrir að minnsta kosti einni braut fram til 2024. Tvö þúsund tuttugu og fjögur.

En hlægilegir tilburðir eins og þessir eru ekki það versta við hinn hálofaða stjórnmálamann. Nei, það sem verra er, er að stjórnmálamaðurinn sem fór fram sem sérstakur riddari heiðarleikans og orðheldninnar hefur reynst hvorritveggju dyggðinni heldur lítill liðsmaður. Hástemmd loforð R-listans eru almennt illa eða alls ekki efnd. Átta árum eftir að R-listinn lofaði að eyða biðlistum eftir dagheimilisplássum á fjórum árum, bíða tæplega 1.900 börn eftir plássinu sínu. R-listinn, sem lofaði sérstaklega að „lækka gjöld á Reykvíkinga“, efndi það loforð sitt með stórfelldum útsvarshækkunum og nýjum sköttum sem öðrum höfðu ekki hugkvæmst, og svo mætti áfram telja.

Þeir sem minnast á linnulaus svikin loforð þessa riddara orðheldninnar, hins stórbrotna stjórnmálamanns nýja tímans, fá auðvitað engin efnisleg svör. Þeim er svarað með heift og þeir sakaðir um „neikvæðan áróður“, „hryllingsmyndir“ og, ef allt annað þrýtur, um að eyða of miklum peningum til að kynna málstað sinn. Að því búnu lygnir borgarstjóri aftur augunum og lætur fótgönguliðum sínum, launuðum pistlahöfundum, álitsgjöfum og öðrum „sérfræðingum“, eftir að sverta andstæðinga borgarstjórans og saka þá um hvað sem vera skal.

Ekki nennir Vefþjóðviljinn að fara að saka núverandi borgarstjóra um óvenjulegan hroka í garð borgaranna. Blaðið nennir ekki einu sinni að nefna að meðal þess sem Ingibjörg Sólrún vill helst ekki sinna eru svo kallaðir viðtalstímar borgarstjóra, en fyrir hennar tíð í Ráðhúsinu gátu borgarbúar auðveldlega komist á fund borgarstjóra með erindi sín. Nú er sú leið mjög torsótt og fæstum fær. En þó Vefþjóðviljinn nenni ekki að kalla borgarstjóra oflofaðan hrokagikk þá þykist hann vita að aðrir stjórnmálamenn yrðu í hennar sporum sakaðir um meiri hroka en gott væri af manni í hennar stöðu. Nú og svo yrði slíkur palladómur Vefþjóðviljans sjálfsagt hér og hvar afgreiddur sem pólitískur skætingur – sem hann auðvitað væri að vissu leyti. En – þrátt fyrir alla dýrkunina á núverandi borgarstjóra, dýrkun sem auðvitað er að vissu leyti skiljanleg því ekki hafa vinstri menn marga aðra til að dýrka – þá er það nú samt svo að sumir hafa ekki getað orða bundist.

Eitt sinn fóru opinberir starfsmenn í verkfall og baráttan var hörð. Nokkrir tónlistarmenn ákváðu að efna til tónleika til stuðnings verkfallsmönnum. Öfluðu þeir allra tilskilinna leyfa fyrir samkomunni og gengu svo á fund verkfallsmanna og buðu forystumönnum þeirra að flytja nokkurra mínútna löng erindi á tónleikunum. Jæja, auglýstur tími rennur upp og tónlistarmennirnir stilla upp tólum sínum en bregða sér svo frá til að fá sér lítinn bita. Þegar þeir snúa aftur er búið að taka öll völd af þeim og mikil ræðuhöld hafin. Þessu lýsir einn tónlistarmannanna svo:

„Það er farið að halda ræður og þær halda bara áfram og áfram, endalaust. Við reynum að benda mönnum á að þetta hafi átt að vera tónleikar, en okkur er bara sagt að halda kjafti! Við höfðum ætlað að spila í klukkutíma en vorum allt í einu orðnir „gestir fundarins“ og áttum fyrir náð og miskunn að fá að spila eitt eða tvö lög! Þessi frægi fundur á Lækjartorgi var okkar hugmynd, Tolla hugmynd, en verkfallsmenn eignuðu sér hann. Pétur Pétursson þulur kippti okkur úr sambandi, það sést á kvikmyndinni sem Friðrik Þór Friðriksson tók á fundinum; og svo fór að lokum að við vorum í raun og veru grýttir út af sviðinu. Ósvífnin, tuddaskapurinn og svívirðingarnar sem ég fékk framan í mig frá Ragnari skjálfta, Ingibjörgu Sólrúnu, Ólafi Þórðarsyni og fleira fólki voru með ólíkindum. Fólkið sem við ætluðum af heilum hug að styrkja og sýna samstöðu með sagði að við værum dónar og sparkaði okkur út af sviðinu. Þetta eru mestu vonbrigðin á ferli mínum.“

– „Já já“ segir nú kannski einhver, „hvaða íhaldsdurgur er þetta sem hér lýgur upp á hana Ingibjörgu? Hún er nú enginn hrokagikkur. Hún ber nú svo mikla virðingu fyrir öðru fólki. Hvaða súkkulaðidrengur er það eiginlega sem lýsir framkomu hennar sem mestu vonbrigðunum á gervöllum ferli sínum?“

Ef einhver spyr sem svo, nú þá er rétt að svara því. Tilvitnunin er tekin úr bókinni „Bubbi“, þar sem Silja Aðalsteinsdóttir og Ásbjörn Morthens skrá sögu þess síðarnefnda. Þeir sem telja, að Bubbi Morthens sé meðlimur í samsæri hægri manna um að draga upp ljóta mynd af leiðtogum vinstri manna, eru beðnir um að rétta upp hönd.