Miðvikudagur 29. maí 2002

149. tbl. 6. árg.

Hver býr í landi þar sem borgurunum er bannað að dansa hverjum fyrir annan svo kallaðan einkadans, en menn geta sammælst um að henda eldsprengju í bandaríska sendiráðið, sér að refsilausu?

Þú.

Vjatsheslav Molotov kynnir sér dóminn yfir þremenningunum sem Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær af ákæru fyrir að hafa smánað erlent ríki með því að varpa eldsprengju að sendiráði þess. Í stuttu samtali við Vefþjóðviljann taldi Molotov dóminn vera „áfangasigur“ en lagði áherslu á að „enn [væri] langt í land“. Bað hann að lokum fyrir góðar kveðjur til allra sem vilja þekkja hann.

Gott og vel, hugsanlega má fá eldsprengjumennina dæmda með því að ákæra þá beinlínis fyrir tilraun til að valda eldsvoða sem hefði haft almannahættu í för með sér, eða þá fyrir tilraun til eignaspjalla og þá þannig að bandaríska ríkið hafi fyrir því að krefjast refsingar yfir manngörmunum. Þannig að menn ættu svo sem ekki að ganga nú á lagið og taka að hræra mönnum Molotovkokteila í þeirri trú að héraðsdómur Reykjavíkur hafi í gær lýst noktun þeirra refsilausa.

Og reyndar er einkadansinn ekki refsiverður heldur, ef út í það er farið. Eins og menn vita og meðal annars hefur verið rakið hér í blaðinu, þá hafa móðursjúkir borgarfulltrúar talið sér og sumum öðrum trú um að með almennum lögum um lögreglusamþykktir hafi þeim verið veitt sérstakt vald til þess að stöðva löglega atvinnustarfsemi fólks. Það er í þeirri trú sem þeir hafa nú samþykkt sérstaka breytingu á lögreglusamþykkt Reykjavíkur þar sem – eins og ekkert sé sjálfsagðara – fólki er bannað að dansa svo kallaðan einkadans, hverju fyrir annað. Þessi furðulega samþykkt bíður nú staðfestingar dómsmálaráðherra og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort núverandi dómsmálaráðherra standi vörð um atvinnufrelsi og borgararéttindi þegar að þeim er sótt.

Eins og hér hefur áður verið getið þá bannar stjórnarskráin að menn séu sviptir atvinnuréttindum sínum nema það sé gert í lögum. Það blasir auðvitað við hverjum manni að sveitarfélög geta því ekki tekið upp hjá sjálfum sér að banna atvinnustarfsemi með lögreglusamþykkt! Mun núverandi dómsmálaráðherra hefja sig upp úr þeim pólitíska rétttrúnaði sem oft er svo þægilegt að láta ráða för? Það væri vissulega merkileg stund fyrir venjulegt frjálslynt fólk að fá að horfa upp á dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skrifa upp á að borgarstjórn Reykjavíkur hafi ríkari heimildir en sjálft löggjafarþingið til að stöðva löglega atvinnustarfsemi!