Jafnvel af kosningabæklingi að vera er nýr áróðursbæklingur R-listans, Árangur í átta ár – þetta gerðist í Reykjavík 1994-2002, með ólíkindum yfirfullur af hálfsannleik, rangfærslum og hreinum ósannindum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fylgdarlið hennar virðist ráðið í því í þeirri kosningabaráttu sem nú stendur yfir að segja aðeins það sem hentar en hafa litla hliðsjón af sannleikanum. Þessi vinnubrögð hefur þetta góða fólk lært af fenginni reynslu að eru líklegust til árangurs, enda engir aðrir en pólitískir andstæðingar til að benda á þessa óheiðarlegu baráttuaðferð. Og hver trúir svo sem andstæðingunum, allir vita að þeir eru bara líka að fegra sinn hlut svo margir kjósa að láta þá gagnrýni sem sett er fram sem vind um eyru þjóta. Þeir sem ættu að benda á ósannindin og blekkingarnar eru þeir sem gjarna telja sig vera fulltrúa almennings og gæta hagsmuna hans. Þeir telja sig jafnvel eiga skilin sérstök forréttindi út á þennan stuðning við almenning. Þessir aðilar, fjölmiðlar, gætu komið í veg fyrir að óheiðarleg kosningabarátta borgaði sig, en hér á landi eru þeir því miður of veikir til að verða að nokkru gagni. Ef til vill er ástæða til að nefna í þessu sambandi að DV hefur sýnt ákveðna viðleitni í þá átt að koma lesendum sínum að gagni að þessu leyti, en aðrir og útbreiddari miðlar virðast telja að yfirlýst hlutleysi verði að birtast í því að segja ekkert sem máli skiptir og benda ekki einu sinni á rangfærslur og ósannindi. Ekki er við því að búast að stjórnmálamenn hér á landi beiti heiðarlegri vinnubrögðum á meðan svo illa er komið fyrir útbreiddustu fjölmiðlum landsins.
„Þeir sem ættu að benda á ósannindin og blekkingarnar eru þeir sem gjarna telja sig vera fulltrúa almennings og gæta hagsmuna hans. … [Þeir] gætu komið í veg fyrir að óheiðarleg kosningabarátta borgaði sig, en hér á landi eru þeir því miður of veikir til að verða að nokkru gagni.“ |
En aftur að áróðursbæklingnum alræmda. Margt er í bæklingnum af hæpinni framsetningu, sem flokkast undir hálfsannleik eða blekkingu. Má þar nefna að sýnt er súlurit af fjölgun starfa í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi á árunum 1998-2000 og er súla Reykjavíkur langhæst, enda fjölgunin þar 8.400 störf, en 2.000 í Hafnarfirði og 1.000 í Kópavogi. Þegar menn líta á myndina verður ekki um villst að atvinnulíf í Reykjavík er miklu blómlegra en í nágrannabæjunum. Eða hvað? Þegar þessar tölur eru bornar saman við íbúafjölda viðkomandi bæjarfélaga árið 1998 sést að fjölgunin er nákvæmlega sú sama hlutfallslega í Reykjavík annars vegar og í hinum tveimur sveitarfélögunum hins vegar. R-listinn lætur að því liggja að miklu meiri atvinnuuppbygging hafi verið í Reykjavík en nágrannasveitarfélögunum, þegar staðreynd málsins er sú að atvinnuuppbyggingin hefur verið nákvæmlega jafn hröð í þessum svefnbæjum og í höfuðborginni. Mikið afrek það hjá R-listanum.
Því er haldið fram að Nesjavallavirkjun muni í framtíðinni skila borgarbúum 1,8 milljörðum króna og þá hljóta menn að spyrja sig hverjir það verði sem muni greiða Orkuveitu Reykjavíkur, sem rekur virkjunina, þessar 1.800 milljónir króna. Ef marka má bækling R-listans eru það að minnsta kosti ekki Reykvíkingar sem greiða munu Orkuveitunni fyrir aðgang að aflinu frá Nesjavöllum, enda verða menn seint ríkir á að taka úr öðrum buxnavasa sínum og setja í hinn. Sérstaklega ef þeir verða að borga fyrir eyðslu Alfreðs Þorsteinssonar í leiðinni.
Þá kemur fram í bæklingnum að 4.342 íbúðir hafi verið byggðar í Reykjavík árin 1994-2001, en þess er ekki getið að mun fleiri langaði til að byggja í Reykjavík en gátu ekki vegna þess að R-listanum tókst ekki að útvega öllum lóðir sem vildu. Þess vegna óx Kópavogur og dafnaði á kostnað Reykjavíkur, en um þetta er ekkert fjallað í bæklingi R-listans.
XR_LOGO |
Það gerist í Reykjavík að borgaryfirvöld segja borgurunum ósatt um fjárhagsstöðu borgarinnar. |
Ekki er ástæða til að fara nánar út í efni áróðursbæklingsins nýja, en um að gera fyrir þá sem eru í góðu jafnvægi og hafa sterkan maga að kíkja á gripinn. Hér er þó nauðsynlegt að líta stuttlega á umfjöllun um fjárhagsstöðu borgarinnar, enda er þar að finna alvarlegustu ósannindi bæklingsins. Á það ber fyrst að líta að bæklingurinn virðist vera skrifaður áður en ljóst varð að skuldir eru mörgum milljörðum króna hærri en áætlanir gerðu. R-listinn hlýtur að hafa vitað af þessu þegar bæklingurinn var sendur út og jafnvel þegar hann var saminn, en kaus engu að síður að birta gömlu og úreltu myndina af stöðunni, enda er hún skárri en sú staðreynd sem nú blasir við. Annað, sem er í raun enn verra, er að R-listinn heldur áfram þeim fráleita samanburði sínum að bera skuldir borgarsjóðs árið 2002 saman við skuldir borgarsjóðs árið 1994. Þessi samanburður er svo vitlaus að það tekur engu tali. Borgaryfirvöld hafa á þessu tímabili flutt tugi milljarða króna úr borgarfyrirtækjum inn í borgarsjóð og skuldir borgarsjóðs um leið úr honum. Þegar yfirvöld haga sér með þessum hætti og birta svo samanburð á borgarsjóði nú og fyrir hreinsunaraðgerðir er ekki hægt að tala um annað en þau séu að reyna að plata borgarbúa. Þau treysta því að almenningur muni ekki sjá í gegnum flækjuna og, eins og áður sagði, að fjölmiðlar muni reynast algerlega gagnslausir.
Hvergi er í bæklingi R-listans talað um hverjar skuldir borgarinnar séu nú eða hve mikið þær hafa vaxið. Aðeins að skuldir borgarsjóðs hafi minnkað, en eins og menn geta séð af því hvernig skuldir hafa verið færðar úr borgarsjóði yfir í stofnanir borgarinnar gætu skuldir borgarsjóðs allt eins verið núll krónur í dag, því með þeim millifærslum skulda sem R-listinn hefur beitt, getur hann algerlega stýrt því hve miklar skuldir eru í borgarsjóði og hve miklar annars staðar – á minna áberandi stað – í borgarkerfinu.
Loks má nefna að skuldir borgarsjóðs 1994 og 2002 eru bornar saman við skatttekjur. Í þessum samanburði er fólgin tvöföld blekking. Annars vegar sú að skuldir hafa verið færðar úr borgarsjóði svo samanburðurinn er þegar af þeirri ástæðu marklaus. Hins vegar hafa skatttekjur ríflega tvöfaldast í tíð R-listans og samanburður við skatttekjur hefur því lítinn tilgang, annan en ef til vill þann að hvetja sveitarfélög til að hækka skatta eins og R-listinn hefur gert. Þessi samanburður hefur því eingöngu þá þýðingu að blekkja lesendur áróðursbæklingsins. Þessu ættu stórir og öflugir fjölmiðlar að fletta ofan af, en þeir munu ekki hafa döngun í sér til þess.