Vafalaust verður einhverjum hugsað til þess hve margir vilja bæta sér það upp að súpan er bragðvond með því að fá sér ábót þegar hinn árvissi söngur um „of langt sumarfrí“ þingmanna hefst. „Hvers vegna eiga þingmenn að fá fimm mánaða frí þegar venjulegt fólk fær aðeins fimm vikur“, spyrja þeir sem láta hæst um þetta mál. Í „Silfri Egils“ á Skjá 1 í gær sátu einhverjir stjórnarandstæðingar og skældu yfir því að þingmenn fengju þetta fimm mánaða langt sumarfrí. Gott ef þeir töldu það ekki mikla ógn við lýðræðið. Og auðvitað voru þeir á einu máli um að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefði gert allt rangt og ekkert rétt í störfum sínum. Nú eru auðvitað ekki allir stjórnarandstæðingar mjög praktískir í hugsun en þegar að þeirra mati sitja við völd menn sem færa allt á versta veg er þá ekki bara ágætt að þeir séu í fríi? Raunar brá einnig fyrir glensi því upplýst var að líklega þyrftu þingmenn að drífa sig í sauðburðinn um þetta leyti árs og því væri gert hlé á störfum þingsins. Var þá hlegið dátt að því hve þingheimur er gamaldags.
Alþingi er fjölmennara nú og situr lengur en nokkru sinni. Eru menn bættari með það? Ef að ekki þarf annað til en mikinn mannskap og tíma svo alsæla verði með landslög þá er ekki annað að gera en að skipuleggja fjölmennar vaktir í þingsölum allan sólarhringinn árið um kring. Ýmis mál þarfnast hins vegar engra afskipta þingmanna þótt það kunni að hljóma ótrúlega nú þegar flest mál verða fyrir barðinu á „heildrænni stefnumótun til framtíðar“ í ráðuneytum, ríkisstofum og bæjarkontórum. Fleiri mættu átta sig á því að það eru til viðfangsefni í þjóðfélaginu sem krefjast þess ekki að ráðherrar undirriti „samning“ um málið við sjálfan sig, undirmenn sína eða einhvern þrýstihópinn. Það er því hreinlega ekki um það að ræða að þingmenn geti farið í of langt frí.