Laugardagur 4. maí 2002

124. tbl. 6. árg.

Ósonlagið er eitt af því sem þykir hvað mest heillandi í umræðum um umhverfismál. Hefur eyðing ósonlagsins verið bölsýnismönnum gagnlegt yrkisefni um árabil. Þetta á ekki síst við um ósonlagið – eða skortinn á ósonlaginu – yfir Suðurskautslandinu. Gat í ósonlaginu þar suður frá er oft sagt vera mannskepnunni að kenna þó það sé ekki alveg víst frekar en annað á sviði loftslagsfræða. Oft er svonefndum gróðurhúsaáhrifum blandað saman við eða hreinlega ruglað saman við eyðingu ósonlagsins, en ýmsir telja að maðurinn valdi hækkun hita andrúmsloftsins. Allt er þetta nú mikilli óvissu háð, en engu að síður hafa fjölmiðlar gaman af að fjalla um þessi mál og jafnvel að slá upp flennifyrirsögnum af því ef ísklumpur brotnar af Suðurskautslandinu og hægt er að vera með vangaveltur um að ef til vill kannski og jafnvel þýði það að nú sé þess skammt að bíða að sjór flæði yfir allt láglendi veraldar.

Ekki er við því að búast að allir fjölmiðlar muni taka vel eftir frétt sem New York Times var með í gær, en hún segir frá því að hiti á Suðurskautslandinu fari lækkandi en ekki hækkandi eins og menn hafa getað ímyndað sér af ýmsum fréttum og fréttaþáttum síðustu missera. Og það sem meira er, haft er eftir vísindamönnum – og þá ekki doktorum í „nútímavísindum“ heldur í loftslagsfræðum – að ósongatið kunni að valda þessu, en það er eins með þetta og annað á þessu sviði, menn vita lítið fyrir víst.

Það væri þokkalegt ef niðurstaðan yrði sú að ósongatið hafi aukið frost á Suðurskautslandinu og þar með ef til vill unnið gegn hækkun sjávarborðs. Þetta myndi teljast töluvert óvenjuleg niðurstaða, enda þýddi hún að hegðun mannsins kynni að hafa haft jákvæð áhrif á umhverfið, en það stríðir alveg gegn trúarbrögðum umhverfisöfganna.