Helgarsprokið 28. apríl 2002

118. tbl. 6. árg.

Það er vandlifað. Í síðustu viku var sjómaður nokkur þannig dæmdur til að greiða fjársekt í ríkissjóð og fangelsis til vara, fyrir að hafa greint opinberlega frá þeirri skoðun sinni að Afríkunegrar væru í latara lagi. Eða að minnsta kosti latari en Íslendingar. Þessi undarlega skoðun mannsins er semsagt ekki bara alhæfing út í loftið heldur er líka refsivert að hafa orð á henni. En þó ríkið telji skoðanir þessa manns til glæpaverka þá má engu að síður hugsa sér skoðanir sem ríkið er jafnvel enn meira á móti. Þannig voru samþykkt í fyrra sérstök lög sem banna mönnum að tala um tóbak nema það sé beinlínis gert í þeim tilgangi að mæla gegn neyslu þess. Það er bara bannað að ræða almennt um tóbak, enginn maður má segja öðrum að sér þyki gott að reykja. Það er bannað.

Já það er margt samþykkt á Alþingi og hver veit hvaða óskir þrýstihópa þingið uppfyllir næst. Um daginn komu til dæmis saman fulltrúar höfuðborga til þess að ræða baráttu sína gegn fíkniefnum. Og nú eru það ekki bara fíkniefnin sem þarf að heyja opinbert stríð gegn. Nei, það hefur nefnilega komið á daginn að til eru þeir menn sem vilja að lögum verði breytt svo að fíkniefni verði ekki lengur bönnuð. Og þarf þá nokkrum að koma á óvart að þessir mætu menn hafi harðlega krafist þess að slíkur áróður verði bannaður með lögum? Og hvað halda menn að þingmenn heimsins muni standa lengi gegn þeim kröfum?

„Það hefur aldrei hvarflað að Vefþjóðviljanum að listrænt gildi verka ráðist af því hvar höfundur þeirra stendur í stjórnmálabaráttunni, ef hann stendur þá nokkurs staðar. Þannig væri Fjallkirkja Gunnars Gunnarssonar jafn mikið listaverk og áður þó einhvern tíma kæmi í ljós að Gunnar hefði í raun verið hatrammur kommúnisti.“

Það er semsagt margt sem menn þola ekki að heyra. Dæmin eru næstum því endalaus. Í síðustu viku bar það þannig til, einu sinni sem oftar, að því var fagnað óskaplega að 100 ár voru liðin frá fæðingu rithöfundar eins, Halldórs Laxness. Og var þá fátt til sparað, hvorki opinbert fé né almenn stóryrði. Meira að segja þá meitluðu menn nokkrar setningar eftir höfund þennan í stein og lögðu hann í gangstétt á Laugaveginum í Reykjavík, sjálfsagt í þeim tilgangi að vegfarendur geti sýnt skáldinu ekki minni sóma en menn eru vanir að sýna gangstéttarhellum. En sem sagt, það voru mikil hátíðarhöld vegna þessa afmælis, sjónvarpsdagskrá gekk úr skorðum, heilu dagblaðakálfarnir voru lagðir undir afmælisbarnið og margra daga málþing voru háð um þennan mann og verk hans. Og á einu slíku þingi munu hafa orðið þau helgispjöll að einn frummælenda, dr. Hannes H. Gissurarson prófessor, gat þess í erindi sínu að þó sér þætti Halldór Kiljan Laxness góður rithöfundur þá hefði skáldið verið síðra til pólitískrar leiðsagnar. Ef marka má frétt Morgunblaðsins af málþinginu þá varð vart fundafært á eftir vegna frammíkalla og jafnvel einræðna áheyrenda úr sæti vegna þessa. Svo virðist hreinlega sem sumir málþingsgestir hafi ærst undir orðum dr. Hannesar.

Vefþjóðviljinn tók lítinn þátt í umræddum hátíðarhöldum en leyfði sér engu að síður að vekja athygli á nokkrum atriðum af ferli Halldórs sem einhverra hluta vegna virtust ætla að verða útundan þegar ólíklegustu aðilar tóku að rifja upp stórt og smátt sem skáldinu tengdist. Var fjallað um nokkur slík atriði í síðasta helgarsproki en að öðru leyti hefur Halldórs Kiljans Laxness ekki verið getið í þessu blaði um alllangt skeið. Hins vegar birti Vefþjóðviljinn litla grein þriðjudaginn 23. apríl þar sem fjallað var lítillega um hinn kunna og vinsæla rithöfund, Gunnar Gunnarsson, en svo skemmtilega hittist á að sama dag náðu hátíðarhöldin og stóryrðin vegna Halldórs Laxness hámarki annars staðar. Var sagt frá nokkrum af alfrægustu verkum Gunnars og í nokkrum orðum vikið að ákveðnu skeiði í lífi hans, tímanum þegar hann var með allra vinsælustu rithöfundum bæði Danmerkur og Þýskalands. Vikið var örfáum orðum að samskiptum Gunnars við ráðamenn Þriðja ríkisins og klykkt út með þeirri skoðun að menn gætu óhræddir notið stórverka Gunnars án þess að aðrar tiltektir hans vörpuðu skugga á skáldið og ævistarf þess. Væri það því ánægjulegra sem Gunnar bæri höfuð og herðar yfir starfsbræður sína.

Vefþjóðviljinn fær fjölmörg bréf frá lesendum sínum og kennir þar margra grasa. Sumir bréfritarar vilja einungis þakka fyrir útgáfuna eða mæla á annan hátt hlýlega til blaðsins. Aðrir vilja leita álits blaðsins á ólíklegustu atriðum eða spyrja nánar út í efni þess. Svo eru þeir sem vilja telja Vefþjóðviljanum hughvarf í tilteknum málum eða jafnvel aðeins koma því á framfæri hvar aðstandendur blaðsins væru best geymdir. Blaðið er þakklátt öllum þessum bréfriturum, sem hver á sinn hátt hvetur það áfram. Og í síðustu viku átti blaðið venju fremur annríkt við að lesa bréf misjafnlega rólegra lesenda sinna.

Auðheyrt var á sumum bréfriturum að þeim líkaði stórilla að fjallað væri um Halldór Kiljan Laxness með öðrum hætti en beinlínis til þess að lofsyngja skáldið á gagnrýnislausan hátt. Sérstaklega voru þessir bréfritarar óánægðir með að rifjuð væru upp nokkur atriði sem gefa til kynna að ferill skáldsins hafi ekki verið eins flekklaus og geðfelldur og oft er látið. Ekki var því nú haldið fram að aukatekið orð væri rangt sagt eða haft eftir en þessir bréfritarar höfðu í stað þess komið sér upp annarri viðbáru: „Það voru sko aðrir tímar.“ Menn yrðu að meta orð og gerðir Halldórs Laxness í ljósi þess að einu sinni hefðu verið allt aðrir tímar og menn yrðu að taka nótís af því. Auðvelt væri að sitja nú og dæma og dæma en allt yrði þetta nú að skoða í ljósi þess að tímarnir væru gjörbreyttir. Eiginlega gætu nútímamenn ekki sett sig inn í það hversu allt hefði verið öðruvísi fyrir nokkrum áratugum og væri öll upprifjun slíkra hluta því tilgangslaus.

Gott og vel, tímarnir hafa breyst. Tímarnir eru reyndar alltaf að breytast. En hvað? Það vakna nú ýmsar spurningar þegar þessar tímarnirerubreyttirsvoídaggeturenginnhaftskoðunáþvísemHalldórKiljanLaxnesssagðioggerði-kenningar eru skoðaðar. Er það þá bara þannig að „tímarnir“ taka ráðin af mönnum og gera þá að því sem „tímunum“ sýnist og án þess að mennirnir sjálfir beri nokkra ábyrgð á einu eða neinu? Eru það bara „tímarnir“ sem gera varnarlausa menn að nasistum, kommúnistum, femínistum, frjálshyggjumönnum eða hverju sem er? Og það sem sumir menn gera til þess að vinna sjónarmiðum sínum fylgi, eru þar bara „tímarnir“ að verki? Og á þessi kenning þá við um alla tíma eða kannski bara einhverja ákveðna tíma? Geta nútímamenn vísað í „tímana“ sem afsökun fyrir því sem þeir sjálfir gera í dag, eða eru það bara tilteknir liðnir tímar sem gilda sem „aðrir tímar“? Hefjast þessir „aðrir tímar“, sem allt afsaka, kannski með Í austurvegi og lýkur þeim þá kannski líka með Skáldatíma

Það þætti eflaust ýmsum gott að vita hvort menn mega í dag hegða sér eins og þeim sýnist, svona af því að tímarnir eru nú allt öðru vísi en þeir verða einhvern tíma seinna. Þeir yfirveguðu, víðsýnu og umburðarlyndu menn sem treysta sér til að segja „alltílagi“ við öllum ferli Halldórs Kiljans Laxness, hvað eru þeir tilbúnir til að ganga langt? Eru þeir ekki örugglega tilbúnir að segja hreint út það sem í kenningum þeirra felst? „Það var allt í lagi að horfa upp á sviðsett réttarhöld, handtökur saklausra og horfelli almennra borgara og fara svo heim og skrifa bækur þar sem þessu var öllu andmælt sem ósannindum en þeir menn lofaðir sem ábyrgð báru á þessu öllu – af því að þá voru aðrir tímar.“ Eða hvað, er það ekki það sem verið er að segja? Og hvað ef Halldór Kiljan Laxness hefði ekki ferðast um ríki Jósefs Stalíns heldur annars manns sem uppi var á sama tíma en var engu betri, Adolfs Hitlers? Hefðu „aðrir tímar“ þá afsakað allt?

Þegar fréttir bárust af hungursneyðinni í Úkraínu skrifaði höfuðskáldið sérstaklega til Íslendinga að það hefði nú ferðast „um Ukraine þvert og endilangt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var alveg yndisleg hungursneyð. Hvar sem maður kom var allt í uppgangi.“ Þó Halldór hafi hér reynt að telja Íslendingum trú um að óhætt væri að treysta á „snildarmanninn“ Jósef Stalín, enda væri hjá honum allt í uppgangi, þá þykir það í góðu lagi af því að þá voru sko aðrir tímar. En ef Halldór hefði ekki ferðast „um Ukraine þvert og endilangt“ heldur farið til Póllands og sent þaðan hátíðlega yfirlýsingu: „Skrapp til Auschvitz. Skoðaði hvern krók og kima. Eingir gyðíngar hér. Bestu kveðjur, Halldór.“ hefði það þá kannski verið allt í lagi líka? Þá hefðu nefnilega verið aðrir tímar og hver værum við að dæma menn fyrir það sem þeir gera á öðrum tímum. Ósambærilegt? Að vissu leyti já, slík yfirlýsing hefði verið enn verri en sú sem Halldór gaf um hungursneyðina í Úkraínu. En dæmi sem þessi minna samt á að „aðrir tímar“ eru afsökun sem ekki nær út yfir öll mörk.

Eða hvað? Eigum við bara að samþykkja að „tímarnir“ geri menn ábyrgðarlausa á eigin verkum, svona eins og forseti Íslands er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum? Getur það verið? Auðvitað vita menn í dag margt sem fólk vissi ekki fyrir mörgum áratugum og vitaskuld á að taka það með í reikninginn þegar horft er til baka. En einhvers staðar lýkur ábyrgð „tímanna“ og ábyrgð hvers manns á gerðum sínum tekur við. Það voru líka aðeins ákveðnir menn sem þögðu við rangindum og lugu fyrir hið illa í heiminum. En auðvitað er rétt að skoða ummæli manna í ljósi þess sem þeir vissu og þess sem ætlast mátti til að þeir vissu. Um sumt hafa menn ekki vitað betur. Um annað hafa þeir beinlínis logið. Sumt er skiljanlegt í ljósi tímanna. Annað verður óskiljanlegt á öllum tímum.

Aldrei hefur það hins vegar hvarflað að Vefþjóðviljanum að Halldór Kiljan Laxness hafi ekki verið fær rithöfundur. Og í síðasta helgarsproki lýsti blaðið þeirri skoðun sinni, að sumar bækur Halldórs væru þannig stílaðar að fljótgert væri að telja upp þá sem hefðu gert betur á síðustu öld. Með öðrum orðum, Vefþjóðviljinn lýsti þeirri skoðun að Halldór Kiljan Laxness hefði verið einn albesti stílisti síðari aldar. En einhverra hluta vegna bárust blaðinu fleiri en eitt og fleiri en tvö bréf frá lesendum sínum, þar sem því var blákalt haldið fram að Vefþjóðviljinn viðurkenndi ekki að Laxness hefði verið góður höfundur. Og ekki vafðist það heldur fyrir bréfriturum að útskýra hvernig á því stæði. Jú, blaðið væri „enn í kalda stríðinu“ og „skipti rithöfundum í góða og slæma, eftir því hvar þeir hefðu verið í pólitík“.

Hvortveggja kenningin er með öllu röng. Það hefur aldrei hvarflað að Vefþjóðviljanum að listrænt gildi verka ráðist af því hvar höfundur þeirra stendur í stjórnmálabaráttunni, ef hann stendur þá nokkurs staðar. Þannig væri Fjallkirkja Gunnars Gunnarssonar jafn mikið listaverk og áður þó einhvern tíma kæmi í ljós að Gunnar hefði í raun verið hatrammur kommúnisti. Eða grjótharður nasisti. Íslandsklukka Halldórs Laxness er auðvitað engu verri – eða betri – fyrir það að höfundur hennar var lengi skjaldsveinn Jósefs Stalíns. Og svo langsóttara dæmi sé tekið þá yrði tónlist Johans Sebastians Bach ekki verri tónlist þó skyndilega kæmi í ljós að hún hefði ekki verið samin Guði til dýrðar heldur sem undirspil á samkomum djöfladýrkenda. Og að Bach hefði í raun verið margfaldur morðingi og níðingur. Hitt er svo annað mál hvort menn létu það eftir sér að njóta tónlistar slíks tónskálds.

En Vefþjóðviljinn rifjaði ekki aðeins upp nokkrar staðreyndir um Halldór Kiljan Laxness. Nokkru síðar fjallaði blaðið um annan þjóðþekktan rithöfund, Gunnar Gunnarsson, og eins og áður sagði leyfði blaðið sér að hafa þá skoðun að Gunnar hefði verið fremstur íslenskra rithöfunda á síðustu öld. Og það var eins og við manninn mælt, allnokkrir lesendur höfðu samband við blaðið og bentu á að sú skoðun væri beinlínis „röng“. Og ekki bara að þeir væru þess fullvissir að þessi bókmenntasmekkur væri ekkert smekksatriði heldur einfaldlega error facta; þessum mætu lesendum blaðsins fannst ekki einungis óhugsandi að nokkrum gæti liðist að telja nokkurn rithöfund Halldóri Kiljan Laxness fremri, heldur hlyti einhver pólitísk forneskja að valda því að menn settu fram slíkar skoðanir. Einn lesandi virtist til dæmis í fullri alvöru telja það innlegg í þessi mál, að Gunnar Gunnarsson hefði sjálfur verið hrifinn af Halldóri sem rithöfundi! Þessi mæti lesandi hafði meira að segja fyrir því að skrifa upp og senda blaðinu tæplega 60 ára gamla grein eftir Gunnar þar sem hann bar lof á ritstörf Halldórs Laxness! Og vantaði bara að lesandinn bætti quod erat demonstrandum við frá eigin brjósti.

Auðvitað er öllum sem snefil hafa af þekkingu á þeim Gunnari og Halldóri fullkunnugt um það að hvor dáðist að rithöfundarhæfileikum hins. Það var Gunnar sem stóð fyrir því að saga eftir Halldór, Salka Valka, var fyrst þýdd á annað mál og það sem meira er, hinum danska útgefanda leist ekki betur á en svo að hann gerði það að skilyrði fyrir útgáfunni að Gunnar þýddi söguna sjálfur á dönsku. En það að Gunnar hafi haft mikið álit á rithöfundarhæfileikum Halldórs er auðvitað engin tíðindi og fráleitt að það skipti nokkru máli ef lesandi vill bera þessa höfunda saman. Ekki frekar en það skipti máli að álit Gunnars á Halldóri var gagnkvæmt. Hvor taldi hinn réttilega mjög færan rithöfund, og hvor þýddi annars verk. 

Annað sem Vefþjóðviljanum var borið á brýn í bréfum frá lesendum sínum var það að blaðið hefði „aldrei fyrirgefið Halldóri Laxness“ það sem ámælisvert var á ferli hans. Og reyndar var blaðið ekki sett eitt á þann óvenjulega sakabekk heldur var því jafnvel haldið fram að ýmis óskyld þjóðfélagsöfl væru með í samsæri sem gengi út á það eitt að „fyrirgefa“ ekki þessu skáldi. Þó einhverjum þyki eflaust ógnvekjandi að heyra að umrætt blað hafi „ekki fyrirgefið“ Halldóri Laxness nokkurn skapaðan hlut þá þætti mönnum nú sennilega undarlegra ef Vefþjóðviljinn tæki allt í einu upp á því að lýsa því yfir fyrir sína hönd og annarra vandamanna að hér með væri Halldóri Kiljan Laxness fyrirgefnar allar sínar misgjörðir. Og ef út í það er farið, hefur Halldór Kiljan Laxness nokkurn tíma beðið nokkurn mann fyrirgefningar á nokkrum sköpuðum hlut? Jújú, í Skáldatíma sagðist hann allt í einu hafa haft rangt fyrir sér um Sovétríkin og málefni þeim tengd. Það hefði verið logið að sér og þeir vinstri sósíalistar hefðu sjálfir logið að sér. En sá hann ástæðu til þess að biðjast fyrirgefningar á framgöngu sinni?

Þó Vefþjóðviljinn hafi hér, gegn venju sinni, tekið að svara á þessum vettvangi nokkrum þeim lesendum sínum sem sáu ástæðu til þess að senda blaðinu línu í liðinni viku þá er vægast sagt fjarri lagi að flestir bréfritarar hafi fundið að umfjöllun blaðsins undanfarna daga. Hins vegar hefur blaðið aldrei kunnað við að hafa eftir jákvæð orð sem því berast utan úr bæ og hyggst ekki breyta út frá þeirri venju. Og þó. Einn ágætur lesandi gat þess að ef ekki hefði komið til umfjöllun Vefþjóðviljans um Nóbelsskáldið þá hefði þessi ágæti lesandi hreinlega „dáið úr Laxnesseitrun“ og með þeim vitnisburði lætur Vefþjóðviljinn lokið að sinni umfjöllun sinni um aldarafmæli Halldórs Kiljans Laxness.