Laugardagur 27. apríl 2002

117. tbl. 6. árg.

Fyrirtæki nokkurt hér í bæ heitir Íslensk getspá og hefur einkarétt á talnagetraunum. Um síðustu helgi bauð fyrirtækið upp á sexfaldan fyrsta vinning, alls um 53 milljónir króna. Þetta þótti eðlilega mörgum freistandi boð þótt líkurnar á því að velja 5 réttar tölur af 38 séu aðeins 1 : 501.942. Val á einni talnaröð kostar 75 krónur. Til að tryggja sér fyrsta vinning þurfa menn því að kaupa lottómiða fyrir 37,6 milljónir króna. Óskiptur fyrsti vinningur um síðustu helgi var sumsé um 15 milljónum króna hærri en kostar að kaupa alla möguleika. Enginn nýtti sér þennan möguleika og vinningurinn gekk ekki út. Líkurnar á því að sitja einn að vinningnum um síðustu helgi voru reyndar ekki nema 6,1% en hefðu engu að síður dugað í það skiptið. Ef einhver hefði verið svo bíræfinn að kaupa alla mögulegar talnaraðir hefði fyrsti vinningur hækkað í rúmar 60 milljónir. Með aukavinningum hefði sá sem keypt hefði alla talnamöguleika því getað unnið tæpar 70 milljónir og því hagnast um vel yfir 30 milljónir.

LOTTOÁ morgun verður dregið um enn stærri fyrsta vinning, allt að 80 milljónum króna. Vinningurinn verður því rúmlega tvöfalt hærri en kostar að kaupa alla 501.942 mögulegar talnasamsetningar og tryggja sér þar með fyrsta vinning. Ef einhver keypti þessar rúmu 500 þúsund raðir yrði heildarupphæð 1. vinnings um 88 milljónir. Sá sem kaupir alla möguleika getur því deilt vinningnum með öðrum spilara án þess að tapa á fjárfestingunni. Líkurnar á því að aðeins einn eða enginn hljóti vinninginn á morgun eru þó ekki nema 13,5% verði potturinn jafnstór og Íslensk getspá gerir ráð fyrir. Sá sem kaupir alla möguleika fær auk fyrsta vinnings (5 tölur réttar), 5 bónusvinninga, 165 vinninga fyrir fjórar tölur réttar og 5284 vinninga fyrir þrjár tölur réttar og 4970 vinninga fyrir tvær réttar aðaltölur og bónustölu.

Að lokum má geta þess að miðað við áætlanir Íslenskrar getspár um sölu verður vinningshlutfall (þ.e. hve stór hluti fer í vinninga miðað við sölu) um 85% í drættinum í dag en er aðeins 45% þegar fyrsti vinningur er einfaldur. Vinninghlutfallið í dag er talsvert hærra en í happdrætti Háskóla Íslands þar sem það er 70% en mun lakara en í hefðbundinni rúllettu þar sem vinningshlutfallið er 97%. Tveir fyrrnefndu happaleikirnir eru löglegir á Íslandi en ekki sá síðastnefndi.