Föstudagur 26. apríl 2002

116. tbl. 6. árg.

Hvað er þægilegra fyrir stjórnmálamann sem á í basli heima fyrir en að halla sér að sigurvegara úr röðum systurflokks í öðru landi? Hver segir að það sem virkar í öðrum löndum muni ekki virka hér? Er ekki kjörið að slá tappa úr flösku þegar félagi úti í hinum stóra heimi er að slá í gegn? Ekki spillir það fyrir að hann er gamall kommi eins og maður sjálfur. Það mætti ætla.

Vorið 2000 var mesti vindhani íslenskra stjórnmála í framboði til formanns Samfylkingarinnar. Í viðtali við Morgunblaðið hinn 23. mars sagði hann: „Ef ég ætti að nefna einhverjar fyrirmyndir, sem ég horfi til, þá myndi ég nefna franska sósíalistaflokkinn. Hann var ákaflega róttækur flokkur undir forystu Jospin, en hefur líklega tekist best að ganga í gegnum gagngera umsköpun. Hann afneitar ekki markaðskerfinu heldur vill beita því í þágu fjöldans.“

Eftir að vindhaninn hafði náð kjöri sem formaður var hann spurður af sama blaði 9. maí hvort hann sé sammála Jospin um hlutverk ríkisvaldsins. „Já, ég er sammála honum að því leyti að ég vil ekki veikja ríkisvaldið um of. Þegar ég tala um sterkt ríkisvald á ég t.d. við það afl sem ríkið hefur í gegnum Samkeppnisstofnun, sem þyrfti þó að vera sterkari.“

Jospin og Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna leggja á ráðin.
Jospin og Al Gore fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna leggja á ráðin.

En æ, æ, nú hefur sjálft átrúnaðargoðið, franski forsætisráðherrann og frambjóðandi franska sósíalistaflokksins Lionel Jospin tapað fyrir þorpsfífli franskra stjórnmála í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna og tryggt helsta andstæðingi sínum til margra ára, Jacques Chirac, yfirburðasigur í síðari umferð kosninganna. Það er rétt að hafa það í huga á Le Pen var ekki að bæta við sig miklu fylgi frá kosningunum 1995 og 1997. Fylgishrun franskra jafnaðarmanna er það sem er athyglisvert við niðurstöðu fyrri umferðarinnar. Það er alveg makalaust að frambjóðandi sósíalistaflokksins, sem í raun stjórnar Frakklandi, skuli fá slíka útreið.
Ætli sé nokkur hætta á að við heyrum af hinni miklu fyrirmynd í Frakklandi í bráð? Ætli vindhanninn snúi sér ekki að einhverju öðru?