Fimmtudagur 25. apríl 2002

115. tbl. 6. árg.

Forsetar Þýskalands og Ítalíu hittust um daginn og fór vel á með þeim þar sem þeir ræddu hvernig þeir vildu sjá Evrópusambandið þróast. Þeir voru sammála um að stefna bæri að Sambandsríki Evrópu í stað Evrópusambandsins og að þessu sambandsríki yrði sett stjórnarskrá og annað sem ríki almennt hafa. Þetta vilja forsetar þessara tveggja stóru Evrópuríkja sjá gerast sem fyrst og ýta í sameiginlegri yfirlýsingu sinni á eftir þeirri vinnu sem þegar stendur yfir um nýjan sáttmála Evrópusambandsins. Í þeim sáttmála vonast flestir helstu leiðtogar Evrópusambandsins til að sjá aukinn samruna því þeir þrá fátt meira en eitt ríki í allri Evrópu. Þetta er reyndar framtíðarsýn sem íslenskir Evrópusambandssinnar deila með Evrópusambandssinnum annarra ríkja. Þessir íslensku vilja koma Íslandi inn í þennan ólýðræðislega skrifræðisklúbb með öllum tiltækum ráðum og breyta landinu svo hið snarasta í máttlaust dvergfylki í Sambandsríki Evrópu.

Það er þó öllu verra að þessir ágætu menn halda því grafalvarlegir fram að með því að ganga í Evrópusambandið væri Ísland ekki að skerða fullveldi sitt, hvað þá kasta því alveg frá sér. Nei, það væri að styrkja fullveldið! Og það væri að styrkja fullveldið vegna þess að embættismenn Íslands fengju að sitja fleiri fundi í Brussel, segja þessir íslensku talsmenn Evrópusambandsins, þó öllum sé ljóst að þeir hefðu ekkert að segja í þeirri ágætu borg. En málflutningur þessara góðu manna verður enn fráleitari þegar höfð er í huga sú leið sem Evrópusambandið er á og kemur fram í yfirlýsingu forsetanna tveggja sem minnst var á hér að framan. Það að halda því fram að Ísland gæti styrkt fullveldi sitt með því að ganga í Evrópusambandið er í besta falli barnaskapur en í versta falli tilraun til að plata Evrópusambandinu inn á almenning, enda er allt eins líklegt að innan fárra ára verði ekkert ríki Evrópusambandsins fullvalda.

Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars og þakkar samfylgdina í vetur.