Mánudagur 29. apríl 2002

119. tbl. 6. árg.

Steingrímur Hermannsson vitringur og fyrrverandi forsætisráðherra var alltíeinu mættur í sjónvarpsþáttinn „Silfur Egils“ á Skjá einum í gær. Var hann þar meðal annars spurður um það, hvort hann teldi líkur á því að núverandi stjórnarflokkar störfuðu áfram saman að loknum næstu Alþingiskosningum og virtist Steingrími ekki lítast neitt sérstaklega vel á það. Hann sagðist nefnilega telja að það Framsóknarflokkurinn færi svo illa ef hann starfaði með Sjálfstæðisflokknum. Nú er Vefþjóðviljinn lítill áhugamaður um velferð Framsóknarflokksins, en hann hefur engu að síður til gamans vakið athygli á því að það vill svo furðulega til, að hafi Framsóknarflokkurinn setið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, þá hefur Framsóknarflokkurinn undantekningarlaust setið í næstu ríkisstjórn sem mynduð hefur verið eftir næstu kosningar. Hafi hann hins vegar setið í stjórn án Sjálfstæðisflokksins hefur hann oftar en ekki dottið úr ríkisstjórn þegar við næstu kosningar á eftir!

En þetta var nú ekki það sem mesta athygli vakti í málflutningi Steingríms Hermannssonar í gær. Steingrímur minntist nefnilega á ár sín í forsætisráðuneytinu og sagði þar frá því, að sitt mikilvægasta verkefni hefði verið „að halda mönnum saman“. Það hefur þá líklega verið vegna anna við það verkefni sem Steingrímur vanrækti illilega það verkefni sem hann hefði með réttu átt að sinna talsvert betur: að halda sjálfum sér saman.