Í DV í gær var rætt við Davíð Oddsson forsætisráðherra um þann möguleika að Decode fái ríkisábyrgð á 20 þúsund milljóna króna skuldabréfaláni til að stofna lyfjaþróunardeild. Þar segir Davíð m.a.: „Ég held því fram að þetta sé ekki breyting á þeirri stefnu sem við höfum haft, að gæta þess að skekkja ekki samkeppnisstöðu í landinu gagnvart atvinnugreinum í samkeppni. Þetta gerir það ekki með neinum hætti.“
Þetta stenst þó ekki hjá forsætisráðherra enda eru fleiri lyfjaþróunarfyrirtæki starfandi hér á landi. Lyfjaþróunarfyrirtæki eiga heldur ekki aðeins í samkeppni innbyrðis heldur einnig í samkeppni um fjármagn og starfsmenn við aðrar atvinnugreinar. Það er ekki gott að meta stuðning ríkisins við Decode til fjár þar sem ekki er ljóst hvaða kjör, ef nokkur, fyrirtækið hefði fengið til starfsemi hér á landi án ríkisábyrgðar. Munur á vaxtakjörum er þó vart undir 4%. Það er því ljóst að ríkisábyrgðin er í raun ríkisstyrkur upp á mörg hundruð milljónir króna á ári. Hvernig eiga önnur fyrirtæki að keppa um starfsmenn við fyrirtæki sem fær 2 til 3 milljónir króna á starfsmann á ári í ríkisstyrk? Þetta nær ekki nokkurri átt.
Enda er forsætisráðherra inntur eftir því síðar í viðtalinu hvort það sé ekki ósanngjarnt gagnvart öðrum fyrirtækjum og stofnunum að Decode fái ríkisábyrgð. Ráðherrann svarar því til að gagnrýni af þessu tagi eigi allt eins við um fjárfestingar í álverum, virkjanaframkvæmdum og öðru þess háttar. Þetta svar forsætisráðherra gengur ekki heldur upp. Menn hafa nefnilega vænst þess af ríkisstjórnum undir forsæti Davíðs Oddssonar að þær bæti ekki við verkefnum í atvinnulífinu á vegum eða með stuðningi ríkisins. Þær hafa staðið undir þeim væntingum að verulegu leyti enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Landsvirkjun var ekki stofnuð af ríkisstjórnum Davíðs. Hún var til staðar árið 1991 og vonandi verður hún seld úr eigu opinberra aðila áður en langt um líður eins og svo mörg önnur opinber fyrirtæki á síðustu árum. Það er af og frá að nota hana eða önnur ríkisfyrirtæki sem stofnuð voru fyrir 1991 sem fordæmi í þessu máli. Ríkisstjórnin er einfaldlega að fara inn á brautir sem hún hefur ekki fetað áður að heitið geti.