Þriðjudagur 16. apríl 2002

106. tbl. 6. árg.

Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður var í „sunnudagskaffi“ hjá Kristjáni Þorvaldssyni á Rás 2 í fyrradag. „Sunnudagskaffið“ er einn af þessum þáttum sem réttlæta ríkisrekstur á útvarpi. Hinir eru til dæmis „Poppland“ í boði gosdrykkjarframleiðanda og „Bráðavaktin“ í boði lyfjaframleiðanda. Dettur mönnum annars í hug að Íslendingum væri boðið upp á popptónlist og spítalasögur ef ríkisvaldið hlutaðist ekki til um málið? Eða hvort talað væri við stjórnmálamenn í kjaftaþáttum?

VGLOGOIDEitt mál sem Steingrímur og Kristján ræddu nokkuð var tilurð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Var ekki laust við að Steingrímur lýsti því sem nokkru kraftaverki hvernig stjórnmálaflokkurinn varð til úr nánast engu á skömmum tíma og hvernig hann hefur vaxið og dafnað síðustu misserin. Steingrímur nefndi sérstaklega að ekki hefðu verið til flokksfélög, kjördæmasamtök eða aðrar undirstöður flokksstarfs, jafnvel hefði hinn nýi flokkur ekki átt „húseignir“. Aumingja Steingrímur öreigi, hafa ýmsir hlustendur hugsað, vesling flokkurinn hans átti ekki húsaskjól þegar lagt var af stað. Já blessaður karlanginn, en svona komast menn langt á hugsjóninni, fjallagrösum og munnvatni.

Þeim hlustendum sem störfuðu með Steingrími í Alþýðubandalaginu hefur þó vafalaust þótt vanta eitthvað í þessa lýsingu á þeirri örbirgð sem Steingrímur og félagar unnu sig upp úr á nokkrum mánuðum. Ekki síst þeim fyrrverandi félögum hans úr Alþýðubandalaginu sem fóru yfir í Samfylkinguna. Já, kannski hefur þeim þótt vanta eins og 40 milljónir króna í þessa lýsingu. Vantaði ekki 40 milljóna króna skuldasúpuna sem Steingrímur af rausnarskap sínum eftirlét Margréti Frímannsdóttur þegar hún gekk í eina sæng með Alþýðuflokknum? Sagan af hinni stórkostlegu „sameiningu vinstri manna“ árið 1999 er öðrum þræði um það hvernig íslenskir kommar plötuðu íslenska krata til að taka við skuldum upp á tugi milljóna króna. Þá sögu má lesa í opnu bókhaldi Samfylkingarinnar enda hefur framkvæmdsastjóri hennar lýst því yfir að almenningur eigi „siðferðilegan rétt á því“ að skoða bókhald stjórnmálaflokkanna. Helsti gallinn á opna bókhaldi Samfylkingarinnar er hins vegar sá að það er lokað.