Fimmtudagur 18. apríl 2002

108. tbl. 6. árg.

Það yrðu sjálfsagt fáum lesendum ný tíðindi ef að Vefþjóðviljinn gæti þess hér að hann er andvígur því að Ísland renni inn í Evrópusambandið. Hann vill að Ísland verði áfram frjálst og fullvalda ríki. Með inngöngu í Evrópusambandið hyrfi fljótt það fullvalda Ísland sem nú er til, en við tæki nokkurs konar amt í stóru sambandsríki. Á þetta sambandsríki hefðu hinir íslensku þegnar því sem næst engin áhrif en yrðu að gera sér að góðu að lúta valdi erlendra ráðamanna – manna sem enginn hér hefði nokkru sinni kosið og enginn hér gæti gert nokkuð til að koma frá völdum. Þessi afstaða blaðsins mun vera flestum lesendum kunn, hvort sem það er af góðu eða illu. Og svo mikilvægt er þetta málefni, baráttan um það hvort Ísland verði í framtíðinni fullvalda eða ekki, að Vefþjóðviljinn fagnar hverjum nýtum liðsmanni í þeirri baráttu.

Eða því sem næst. Á „þemaráðstefnu Norðurlandaráðs“ sem haldin var í vikunni flutti forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, erindi um „framtíð lýðræðis“. Fjallaði forsetinn þar talsvert um Evrópusambandið sem kannski var ekki nema von enda nú rekinn harður áróður fyrir því að Ísland renni inn í það ólýðræðislega samband. Er skemmst frá því að segja að forsetinn vandaði Evrópusambandinu ekki kveðjurnar og benti á það sem hann kallaði „lýðræðishalla“ þess og talaði um „takmarkað áhrifavald Evrópuþingsins, stefnumótun skriffinnanna í Brussel og samningaþóf ráðherranna fyrir luktum dyrum.“ Sagði forseti Íslands að að með „vaxandi umsvifum Evrópusambandsins og auknum áhrifum þess á efnahagslíf og fjármál aðildarlandanna [yrði] þessi lýðræðishalli á Evrópusamvinnunni sífellt meiri og engar skýrar tillögur til að rétta hann við [væru] líklegar til að öðlast nægilegt fylgi.“ Þetta er hárrétt hjá Ólafi Ragnari Grímssyni. En því miður, þá loksins forsetinn hefur rétt fyrir sér í mikilvægu málefni, þá vill svo illa til að það verður að biðja hann um að hugsa sinn gang. Það er nefnilega í meira lagi vafasamt að forseti Íslands eigi að tjá sig með þeim hætti sem hann þarna gerði.

Að vísu má segja, forseta til varnar, að það er munur á því hvort hann kynnir skoðanir sem ganga með eða gegn stefnu stjórnvalda hverju sinni. Og það er ekki stefna ríkisstjórnar Íslands að afsala fullveldi Íslands með inngöngu í Evrópuríkið. En, þrátt fyrir það, þá verður að telja að þarna hafi forsetinn gengið of langt. Forsetinn á ekki að blanda sér í þjóðmálaumræður eins og hann þarna gerði. Enda var því nú ekki lítið haldið fram þegar Ólafur Ragnar gaf fyrst kost á sér til forsetaembættis, að næði hann kjöri væri lokið afskiptum hans af þjóðmálum. Hefur það eflaust orðið til þess að margt fólk, sem ekki með nokkru móti gat fallist á skoðanir hans á þjóðmálum, hafi kosið hann til þessa virðingarembættis. Forseti sem blandar sér með þessum hætti í þjóðmálaumræðuna, hann gerir það aldrei aðeins einn og persónulega. Embætti hans blandast ætíð með og það er það sem hann getur ekki leyft sér. Að vísu kemur hér á móti persónuleg sérstaða núverandi forseta en það mátti öllum vera ljóst strax frá upphafi, að Ólafur Ragnar Grímsson gat aldrei orðið nokkurt sameiningartákn þjóðarinnar. Þess vegna hefur hann úr lægri söðli að detta en fyrirrennarar hans hefðu haft ef þeir hefðu talað eins og hann gerði í vikunni.

Eitt er hins vegar bæði broslegt og dæmigert. Nokkrir kratar á Alþingi, Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Halldór Ásgrímsson, brugðust hinir verstu við ræðu forsetans. Sérstaklega var Össuri og Guðmundi Árna misboðið enda er þeim sérstaklega annt um að forseti Íslands blandi sér ekki í þjóðmáladeilur. Gott og vel. Hverfum þá aðeins aftur í tímann. Í ágústmánuði 1998 var efnt til hátíðar norður í Hjaltadal og eitt aðalnúmerið á hátíðinni var ræða forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Bar þá svo við að forsetinn, sameiningartákn þjóðarinnar sem stundum er kallaður í gamni, tók að róa gegn umdeildu frumvarpi um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Ýmsum var þá nóg boðið og töldu forsetann fara langt út fyrir allt sem hann gæti leyft sér. En þá gerðist það að upp risu nokkrir menn, hæstánægðir með afstöðu forsetans, og voru hinir verstu yfir öllum þessum gerræðislegu tilburðum til að „svipta forseta Íslands málfrelsi“. Þarf nokkuð að rifja upp hverjir það voru?

Vefþjóðviljinn gagnrýndi Hjaltadalsræðu forsetans og hann telur einnig að Ólafur Ragnar hafi gengið of langt með orðum sínum um Evrópusambandið. En til að gæta sanngirni þá verður að engu að síður að viðurkenna að það síðarnefnda er ekki eins augljóst og hið fyrra. Því að með inngöngu í Evróupusambandið yrði fullveldi Íslands varpað fyrir róða og ef nokkurt deilumál stjórnmálanna getur á annað borð verið þess eðlis að fallast megi á að forseti Íslands blandi sér í umræðuna, þá væri það ef forsetinn teldi sig hafa raunhæfa og brýna ástæðu til að ætla að fullveldi landsins væri í hættu. En meira að segja það er vafasamt.