Laugardagur 6. apríl 2002

96. tbl. 6. árg.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, IMF, sendi menn hingað á dögunum til að gera úttekt á efnahags- og fjármálalífi landans. Álit þessara sendimanna sjóðsins hefur verið gert opinbert og er það um margt athyglisvert, sérstaklega þegar litið er til afstöðu þeirra til hlutverks ríkisins í þeim hagvexti sem hér hefur verið á undanförnum árum, en um það segja þeir:

„Á síðasta áratug var mjög eftirtektarverður vöxtur í íslenska hagkerfinu. Framleiðsla jókst um 38% á árabilinu frá 1992-2001 og landsframleiðsla á mann (mælt með tilliti til kaupgetu – ppp) náði 29.000 Bandaríkjadölum á árinu 2001 sem er með því hæsta sem þekkist í OECD-ríkjunum. Þessa frammistöðu má að miklu leyti þakka stefnu stjórnvalda í eflingu markaðsbúskapar, hagræðingu í opinberum rekstri, einkavæðingu og öðrum umbótum sem hafa stuðlað að auknu frumkvæði einstaklinga, fjárfestingu og hagvexti. Góður árangur í að vinna bug á verðbólgu á fyrri hluta síðasta áratugar og hagstjórn sem miðaði að stöðugleika og festu lögðu grunn að hagvaxtarskeiðinu. Mikilvæg í því sambandi var sú framsýni stjórnvalda og staðfesta við að ná tökum á fjármálum hins opinbera og snúa fjárlagahalla fyrri ára í afgang, lækkun á nettóskuldum ríkisins og greiðslur til þess að mæta framtíðarskuldbindingum opinbera lífeyriskerfisins.“

En þó sendimenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins telji þannig að margt hafi verið vel gert hér á landi og að markaðsbúskapur hafi aukist, þykir þeim ástæða til að hvetja til þess að lengra verði gengið svo enn meiri árangur megi nást. Í því sambandi „hvetur sendinefndin stjórnvöld til að huga að því að auka hlutverk einkarekstrar í þjónustugreinum sem nú eru reknar af hinu opinbera svo sem á sviði heilsugæslu og menntunar. Skref í þessa átt gætu bætt þjónustuna og létt á útgjaldabyrði hins opinbera. Sendinefndin leggur einnig til að hugað verði að aðgerðum til að auka frjálsræði á vinnumarkaði svo sem að leyfa meiri breytileika í launahækkunum til að endurspegla betur framleiðnimismun á milli atvinnugreina og fyrirtækja. Það myndi stuðla að tilfærslu og hagkvæmri nýtingu vinnuafls og framleiðslutækja.“