Föstudagur 5. apríl 2002

95. tbl. 6. árg.

Símenntun er eitt aðal tískuorðið nú á tímum og fátt sem hún læknar ekki. Þetta hafa framsóknarmenn uppgötvað eins og aðrir og hafa því stofnað stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins þar sem fólk getur lært allt um meginstefnu flokksins og það helsta sem hann hefur áorkað undanfarna áratugi. Stundaskrá skólans var auglýst í Morgunblaðinu í gær og vitnar hún glögglega um það hve Framsóknarflokkurinn á enn ríkt erindi í íslensk stjórnmál. Á dagskrá skólans verða tvö atriði, hvort öðru mikilvægara. Fyrst verður boðið upp á skólasetningu en hún er afar mikilvæg til þess að skólastarfið hefjist. Að henni lokinni verða skólaslit sem ekki eru síður mikilvæg svo nemendur komist út á akurinn að sýna hvað þeir hafa lært.

Ekki kom nú fram í auglýsingunni hverjir munu sjá um kennsluna í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins, en væntanlegir nemendur þurfa samt engu að kvíða enda mannval mikið í forystu flokksins. Þar fer fremstur Íslandsvinurinn Halldór Ásgrímsson, sem í utanríkisráðherratíð sinni hefur gætt þess að koma að minnsta kosti árlega í opinbera heimsókn hingað til lands og hefur hann verið hér aufúsugestur enda kunnur fyrir að bregða fyrir sig glettni og gamanmálum þegar það á við. Þá er ógetið Valgerðar Sverrisdóttur, hins hæfa iðnaðar- og viðskiptaráðherra en í ráðherratíð hennar hefur náðst ótvíræður árangur á öllum sviðum. Bankar hafa verið einkavæddir, virkjað hefur verið hér og þar, Norðurál hefur verið stækkað og glæsilegt álver veitir nú Austfirðingum næga atvinnu. Allir sem halda öðru fram eru ósannindamenn sem ekki unna Valgerði sannmælis. Er því vel við hæfi að birta hér brot af mynd sem Morgunblaðið birti í gær frá sigurhátíð Austfirðinga þar sem frammistöðu Valgerðar var fagnað. Myndin sýnir Valgerði lýsa glæstum árangri ráðuneytisins og til hliðar hlær Halldór Ásgrímsson dátt.

Og úr því byrjað er að hrósa framsóknarmönnum og búið er að geta þess að Halldór Ásgrímsson er þjóðlegur sprelligosi og Valgerður Sverrisdóttir óvenju hæfur ráðherra, þá er ekkert annað eftir en að benda á að Guðni Ágústsson er framfarasinnaður umbótamaður og Alfreð Þorsteinsson sérstaklega vandaður stjórnmálamaður sem borgarbúum er heiður að hafa í borgarstjórn sem valdamesta mann R-listans.