Helgarsprokið 7. apríl 2002

97. tbl. 6. árg.

Eitt af því sem fólki finnst hvimleitt varðandi stjórnmál er hve oft stjórnmálamenn þykjast aðrir en þeir í raun eru. Margir stjórnmálamenn eru gjarnir á að vanda um fyrir öðrum og setja lífsreglur, sem hljóma vel og gefa góða mynd af þeim sjálfum sem siðföstum og sómakærum. Oft kemur svo í ljós að slíkar predikanir eru annað hvort fremur innantómt hjal, eða eiga kannski ekki jafn glatt við þá sjálfa eins og aðra.

„En nei, í framboði sínu fyrir R-listann í borginni segist Dagur aðspurður um fjármál listans vitaskuld ekki hafa átt við að stjórnmálaflokkar og -framboð taki það upp hjá sjálfum sér að opna bókhald sitt og loka þar með á alla „spillingu þar til annað sannast“.“

Nú hefur stokkið fram á leikvöllinn nýr og efnilegur stjórnmálamaður á Íslandi. Hann hefur margoft gefið góð ráð á báðar hendur og einatt býsnast skorinorður yfir því hve íslensk stjórnmál eru frumstæð og forneskjuleg. Fjölmiðlamenn hafa tekið honum fagnandi og lapið upp eftir honum siðbótarboðskapinn. „Nauðsyn á hugmyndalegri endurnýjun“, „nauðsyn á gagngerum breytingum“, sagði hann einbeittur. Nú þegar hann er svo sjálfur kominn í hringiðu stjórnmálanna, er fróðlegt að fylgjast með hvernig siðvæðingunni og hinum gagngeru breytingum reiðir af.

Dagur B. Eggertsson, nýútskrifaður læknir og nemi í mannréttindafræðum, ritaði fyrir skömmu lærðar ritgerðir um það reginhneyksli, að stjórnmálaflokkar opnuðu ekki bókhald sitt og gæfu ekki upp styrktaraðila sína. Það er „spilling þar til annað sannast“, segir Dagur. Svo bætti alvarlegur hann við: „Trúnaðarsamband sem ekki þolir ljós og opinbera umræðu vinnur gegn jafnræði þegnanna og eðlilegri samkeppni í atvinnulífinu. Það er í eðli sínu andlýðræðislegt og rangt.“ Hann formælir þeim sem hafa„slegið skjaldborg um leyndina“. Nú mætti ætla að sá sem lætur svo stór orð falla muni ekki fara fram fyrir stjórnmálasamtök, nema allt sé þar og hafi jafnan verið galopið og að hver króna, tilurð hennar og örlög, sé öllum til sýnis. Gott ef hann hljóti ekki bara að bera bókhaldið í hvert hús, til að tryggja jafnræði þegnanna. En nei, í framboði sínu fyrir R-listann í borginni segist Dagur aðspurður um fjármál listans vitaskuld ekki hafa átt við að stjórnmálaflokkar og -framboð taki það upp hjá sjálfum sér að opna bókhald sitt og loka þar með á alla „spillingu þar til annað sannast“. Það þarf auðvitað að setja um þetta sérstök lög, segir Dagur. Annars verður vesalings maðurinn auðvitað að halda því áfram, í samstarfi við R-listann, sem er svo „andlýðræðislegt og rangt“; að birta ekki bókhaldið. Dagur og R-listinn eiga auðvitað engan annan kost, það sjá allir. Þetta er svona álíka og að segja að það sé í hæsta máta ósiðlegt að neyta áfengis og í raun fyrir neðan allar hellur. En á meðan áfengisneysla hafi ekki verið bönnuð geti maður auðvitað ekki annað en skvett í sig duglega og daglega.

Dagur B. Eggertsson var nú reyndar ekki formlega orðinn stjórnmálamaður þegar hann tók að boða tiltekna siðbót, sem kom svo í ljós að átti ekki alveg við um hann sjálfan. Hann ritaði ævisagnarröð um Steingrím Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra, og lét þess sérstaklega getið við upphaf fyrsta bindisins að ævisögur næðu almennt ekki tilgangi sínum nú á dögum. Þær væru allt of hliðhollar þeim sem ritað væri um hverju sinni og meira í ætt við „hetjusögur“ fornaldar, fremur en að vera gagnrýnar heimildir, þar sem viðkvæm mál væru krufin, sett væri af stað sjálfstæð athugun og engu væri eirt. Því mátti búast við að Steingrímur mundi eiga í fullu fangi með þriðju gráðu yfirheyrslu Dags, hinn aðgangsharði rannsóknarmaður mundi velta við hverjum steini og ekki leyfa honum að komast upp með neinn moðreyk. Síðan kom í ljós að æviframhaldssaga Steingríms gekk út á það að Steingrímur fengi frjálsar hendur til að réttlæta allar mögulegar og ómögulegar misgjörðir og komast alveg ljómandi vel frá sérhverri þraut. Höfundurinn gekk meira að segja svo langt að leyfa Steingrími að koma öllum frægu ávirðingunum, sem kenndar eru við grænar baunir og varða frjálslega meðferð Steingríms á fjármunum Rannsóknarráðs, yfir á löngu látinn bókara sem vegna andláts síns hefur lítil tök á að bregðast við þeim ásökunum sem skyndilega voru á hann bornar. Dagur grennslaðist vitaskuld ekkert fyrir um sannleiksgildi þessarar varnar Steingríms. Segið svo að ný og betri öld í ævisagnaritun sé ekki runnin upp.

Dagur hefur verið ötull baráttumaður gegn fyrirgreiðslupólitík og sérstaklega gert að umtalsefni þegar stjórnmálamenn stunda „úthlutanir takmarkaðra gæða eða tilraunir til að hafa áhrif þar á“. Siðferðilegar heitingar Dags ná miklu flugi þegar hann ræðir það þegar tilteknir einstaklingar eða fyrirtæki fá sérstaka meðferð hjá stjórnmálamönnum, umfram aðra borgara. Uss og svei, þá er Degi að mæta. Það er augljóst um hvaða mál Dagur er að tala um undir rós; hann er greinilega foxillur yfir því að Ingibjörg Sólrún skyldi í tvígang reyna að koma verðmætustu lóðunum í Reykjavík í hendur Jóns Ólafssonar, styrktarmanns síns. Maður vill helst ekki til þess hugsa hve beinskeytt Dagur hefur lesið henni lexíuna, maður lifandi, og það sem konugreyið hefur mátt ganga í gegnum á meðan þeirri yfirhalningu stóð. Ja hérna hér.

En Dagur er þó umfram allt faglegur, óháður og nútímalegur. „Ég tek það mjög hátíðlega að ég er utan flokka.“ „Mitt hlutverk er að ná til hinnar óflokksbundnu kynslóðar.“ Allir sem ekki eru flokksbundnir eiga því augljóslega að kjósa R-listann, því svo vill til að þar er Dagur, öllum óháður, faglegur og boðar „alþjóðlegan menningarbrag“. Með því að kjósa eitthvað annað framboð en R-listann eru menn að kjósa eftir flokkslínum eða kjósa ófaglega, eða hvort tveggja, og það gerir auðvitað enginn af hinni óflokksbundnu kynslóð. Að minnsta kosti enginn sem vill teljast nútímalegur. En til þess að vera öryggir þá ættu óflokksbundnir ekki aðeins að kjósa R-listann heldur strika alla aðra frambjóðendur en Dag út. Þeir eru nefnilega flokksbundnir og því hvorki nútímalegir né faglegir.

En það sem mestu skiptir þó í stjórnmálum, að minnsta kosti nútíma stjórnmálum, er gegnsæi. Dagur setur fram það sem hann kallar „ófrávíkjanlega viðmiðun stjórnmálamanna“: „Opinberar athafnir sem ekki þola dagsljós og opinbera umræðu eiga ekki að eiga sér stað, opinberar ákvarðanir sem eru teknar í skjóli nætur og þarf að hylja sjónum almennings á ekki að taka“. Gildi þessara kenninga gagnvart Degi sjálfum kom svo í ljós þegar hann varð óvænt formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið 1994. Þeir sem þekkja til starfsemi Stúdentaráðs vissu að formaður þess kom jafnan úr hópi þeirra sem setið höfðu í ráðinu í eitt ár á undan. Á framboðsfundi, nokkrum dögum áður en Dagur var kosinn nýr í ráðið, var hann spurður að því hver yrði formaður ráðsins ef Röskva héldi meirihluta. Dagur var nóta bene í framboði fyrir Röskvu, alls kostar óháður að vanda. Dagur svaraði eitthvað á þá leið að Röskvufólk væri almennt svo hæfileikaríkt að hver sem er gæti sinnt hlutverki formanns Stúdentaráðs. Hann virtist lítið hafa velt þessu léttvæga atriði fyrir sér, sem auðvelt yrði að vinna úr þegar þar að kæmi. Því var ekkert sem gaf tilefni til annars en að sama regla gilti áfram, það er að einhver þeirra sem þegar höfðu verið í ráðinu eitt ár mundi hreppa hnossið. Síðan kom á daginn að Dagur skaust í formannssætið strax að kosningum loknum, þvert ofan í væntingar, jafnvel væntingar margra félaga sinna í Röskvu. Hefur það stílbrot á stúdentapólitíkinni örugglega komið honum í jafn opna skjöldu og öllum öðrum, enda gjörsamlega plottfrír maður, því „ákvarðanir sem eru teknar í skjóli nætur og þarf að hylja sjónum almennings á ekki að taka“, það er „ófrávíkjanlega viðmiðun“. Í ljósi þessarar fléttu var nokkur skemmtun að horfa á viðtal við Dag nú fyrir skemmstu, þegar hann var spurður að því hvort hann yrði næsti borgarstjóri á eftir Ingibjörgu Sólrúnu. Hann svaraði út um víðan völl svipað og um árið og sagði að það væru auðvitað margir til kallaðir, en hans áhugamál væri nú fyrst og fremst að líkna sjúkum. Þegar spyrillinn gekk á hann og vildi fá svar, sagði hann: „Nei, ég er ekki í framboði til þess“. Og ef svo ólíklega vill til að Dagur gefi síðar kost á sér í embætti borgarstjóra þá verður það að sjálfsögðu ekki að hans eigin frumkvæði, því þá hefði hann verið að leyna áætlunum sínum og lífið er jú einu sinni plott er lágkúran lögmál sjáiði, og hann „er ekki í framboði til þess“ að verða borgarstjóri. Nei nei, það verður þá sennilega fremur vegna þess að svo margir hafa þá skorað á hann í millitíðinni, undiraldan verður þá orðin svo þung í þjóðfélaginu að hann getur einfaldlega ekki brugðist breiðum hópi stuðningsmanna sinna og er nauðugur einn kostur gefa kost á sér. Og mun þurfa talsverða umhugsun því það verður stór ákvörðun að hverfa frá áhugaverðu námi og miklum vísindaiðkunum.

En sami spyrill spurði Dag hvernig hin „gegnsæja stjórnsýsla“, sem Dagur hefur gert að sínum öðrum einkunnarorðum, fari saman við bókhald Reykjavíkur. Eins og þekkt er hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að láta eina tiltekna rekstrareiningu á vegum borgarinnar, borgarsjóð, koma eins vel út og þeim mögulega er kostur, en flytja í staðinn sem mest af skuldum borgarsjóðs yfir í ýmis fyrirtæki borgarinnar, og meðhöndla þær þannig eins og skítugu börnin hennar Evu. Jafnvel hafa verið stofnuð ný pappírsfyrirtæki á vegum borgarinnar í þeim tilgangi að færa það til sem síður má sjást. Dagur á ekki í vandræðum með þetta smámál, því það heyrir til „nútímalegra stjórnunarhátta“ að greina þetta nú allt vel að og vera ekki að ota að fólki einhverjum ónauðsynlegum smáatriðum. Og stúdentapólitíkin kemur hér aftur að góðum notum. Röskva í Stúdentaráði lagði á árum Dags mikla áherslu á að sýna hve bókhaldsliðurinn „rekstur skrifstofu“ Stúdentaráðs væri lágur, ekki síst í samanburði við þá tíð þegar andstæðingarnir Vaka voru í forystu Stúdentaráðs. Það bara kostaði nær ekkert fyrir Röskvu að reka þessa skrifstofu, ólíkt bruðlurunum í hinni fylkingunni. En viti menn, þegar málið var skoðað kom í ljós að það bættust reglulega við nýir og nýir bókhaldsliðir, sem yfirleitt hétu myndarlegum nöfnum, eins og atvinnumál stúdenta og þjóðarátak og réttindaskrifstofa. Engu var til sparað í rekstri þessara mikilvægu þátta, nema hvað. Eða vill einhver minni réttindi stúdenta eða að þeir séu án vinnu? Reyndar höfðu nær allir þessir liðir verið starfræktir áður, og þá bókfærðir undir hinum óaðlaðandi lið „rekstri skrifstofu“, en það þjónaði auðvitað hagsmunum stúdenta og var sjálfsagt liður í „gegnsærri stjórnsýslu“ að greina þetta allt að. Og fyrir hreina tilviljun hafði þessi aðgerð síðan þann þægilega fylgifisk að liðurinn „rekstur skrifstofu“, sem mesta þrasið stóð um, snarminnkaði. Segið svo að Enron hafi verið brautryðjendur á sínu sviði.

En reyndar er ósanngjarnt að ræða um fjármál í sömu andrá og Dag B. Eggertsson ber á góma. Hann hefur nefnilega tekið það skýrt fram að hann sé ekki á leið inn í borgarstjórn til að „tala um peninga“. Auðvitað á hann ekki að vera að ómaka sig að vera að ræða um eitthvað svona smálegt og veraldlegt. Bókararnir hljóta að geta séð um að telja baunirnar. Dagur segir í staðinn í fyrrgreindu viðtali: „Ég tek ábyrgð á framtíðinni.“ Með svo þungar klyfjar á herðum sínum sér hver sanngjarn maður að hann á ekki að vera að láta gjaldkerann flækjast fyrir. Og við vitum hvar hann mun dvelja langdvölum á næstunni, því „framtíðin á lögheimili í Vatnsmýrinni“. En fleira stendur til. Dagur er líka að berjast fyrir því að hér komist á „þroskað umræðusamfélag“. Jú sjáið: „Breyttur heimur, nýjar átakalínur og úrlausnarefni á sviði stjórnmálanna kalla á uppstokkun, nýja sýn á verkefni stjórnmálanna, ný stjórnmál.“ Og til að skýra enn betur: „Vettvangur þarf að vera fyrir hendi til að koma sjónarmiðum og gildismati á framfæri og þar með hafa áhrif á niðurstöðu umræðunnar og þær ákvarðanir sem fylgja í kjölfarið“. Þá er það loks á hreinu.

En það er alveg furðulegt hvað fólk er eitthvað orðið afhuga stjórnmálum.