Þriðjudagur 26. mars 2002

85. tbl. 6. árg.

Hér á landi berst félagsskapurinn Evrópusambandið stundum í tal og er þá ósjaldan einnig minnst á stjórn þess á sjávarútvegsmálum aðildarþjóða sinna. Hið virta breska blað, The Sunday Telegraph, sagði nú um helgina litla sögu af þeirri mögnuðu stjórn. Í síðustu viku var haldin sjávarútvegsráðstefna í Noregi og bar þar meðal annars til tíðinda að fulltrúar Evrópusambandsins viðurkenndu að fiskistofnar í Norðursjó væru nú ákaflega illa á sig komnir. Evrópusambandið lét hins vegar hjá líða að meðganga að það er hin sameiginlega sjávarútvegsstefna þess sjálfs sem á mikla sök á því hvernig komið er, en Evrópusambandinu hefur ekki tekist betur upp við stjórn fiskveiða en annað. Á síðasta ári tóku þeir í Brussel sig til og lokuðu stóru svæði  í Norðursjó fyrir fiskimönnum, að sögn í þeim tilgangi að vernda hrynjandi þorskstofna. Hins vegar ákváðu þeir að gera sérstaka undantekningu á þeirri reglu og hleyptu sérstökum dönskum flota, svo kölluðum iðnaðarflota, inn á þetta sama svæði þar sem hann gat því sem næst ryksugað upp hvern sporð. Danirnir notuðu aflann, sem einkum var smáfiskur, svo í húsdýrafóður og sem garðáburð.

Það var hinn 7. febrúar í fyrra sem Evrópusambandið setti fyrstu reglugerðina um þessi þorskverndarsvæði. Krabbaveiðimenn bentu á að það væri afar ólíklegt að þorskurinn myndi rata í veiðarfæri þeirra og því væri óþarfi að setja krabbaveiðimönnum stólinn fyrir dyrnar í þorskverndarskyni. Sjávarútvegskommissarinn í Brussel viðurkenndi að þarna hefði Evrópusambandinu orðið á mistök en krabbakarlarnir hefðu átt að vera undanþegnir banninu. Mánuði síðar, 6. mars, var loks gefin út ný reglugerð þar sem Evrópusambandið lýsti því yfir að meðalgreindum þorski stafaði ekki hætta af krabbaveiðum. Gott og vel, snemma í apríl héldu svo tveir breskir bátar til krabbaveiða. Yfirvöld komust á snoðir um það og sjóherinn skakkaði leikinn. Skipstjórarnir röktu þessa sögu alla og, eins og The Sunday Telegraph segir, bjuggust ekki við að heyra meira frá hinu opinbera vegna þessa máls. En nei, viti menn, útgerð annars þeirra hefur nú verið ákærð fyrir ólöglegar krabbaveiðar á þorskverndarsvæði og á yfir höfði sér margra milljóna króna sekt.

Í febrúar síðast liðnum var hins vegar skipstjóri nokkur, Allan Watt að nafni, kvaddur fyrir dómara þar sem hann hafði verið nokkrum mínútum of seinn að afhenda opinberum eftirlitsmanni skipsdagbókina. Skipstjórinn rétti eftirlitsmanninum nefnilega ekki bókina fyrr en nokkrum mínútum eftir að áhöfnin byrjaði að landa afla sínum. Fyrir þessa yfirsjón var hann sektaður um eina og hálfa milljón króna og bátur hans hefur nú verið auglýstur til sölu. Allan Watt og áhöfn hans eru nú atvinnulaus og ætti það að kenna mönnum að vera handfljótir að afhenda skipsdagbækurnar því yfirvöld líða ekki yfirsjónir.

Nema Evrópusambandið. Það líður sínar eigin yfirsjónir.