Mánudagur 25. mars 2002

84. tbl. 6. árg.

Eru ríkisstofnanir of litlar og vanmáttugar? Þessari spurningu hefur fjármálaráðuneytið í tvígang varpað fram í vefriti sínu og svarið liggur fyrir. Í vefritinu er minnst á könnun þar sem niðurstaðan mun vera sú að stofnanir sem hafi aðeins 1-19 starfsmenn geti ekki jafn vel og hinar fjölmennari sinnt öllum skyldum sínum. Og þær skyldur sem upp á vantar eru skyldur hins nútímavædda ríkisrekstrar, nefnilega stefnumótun. Aðeins um 40% „litlu“ ríkisstofnananna munu hafa farið í gegnum sérstaka stefnumótunarvinnu, þegar hlutfallið af heildarfjölda ríkisstofnana mun vera 55%. Það sem er jafnvel enn alvarlegra, einungis 23% hinna „litlu“ eru að vinna að endurskoðun stefnumótunar sinnar, en heil 40% af heildarfjölda ríkisstofnana. Þetta er auðvitað ógnvekjandi samanburður.

Í vefritinu segir að augljóst sé að til að ríkisstofnanir geti sinnt þeim skyldum sem á þær eru lagðar, verði að líta svo á að ákveðin lágmarksstærð sé nauðsynleg. Niðurstaða ráðuneytisins er í raun sú að með færri starfsmenn en um það bil 10, séu stofnanir of fámennar til að geta sinnt öllu því skrifræði sem fylgir því að vera ríkisstofnun. Þessu er auðvelt að bjarga, því þó þess sé ekki sérstaklega látið getið í vefritinu þá blasir lausn ráðuneytisins við. Með því að ráða nokkra starfsmenn til minnstu ríkisstofnananna og láta þá sinna skrifræðinu fyrir ráðuneytið má ná tilætluðum árangri og fullar upplýsingar bæði um stefnumótun og endurskoðun stefnumótunar geta þá verið til í fjármálaráðuneytinu landslýð til mikils ábata.

Það sem vefrit ráðuneytisins lætur hins vegar vera að minnast á er að hjá ríkinu er starfandi mikill fjöldi manna og fer hann vaxandi. Vandamál ríkisrekstrarins felst alls ekki í of fámennum ríkisstofnunum heldur í of mörgum ríkisstarfsmönnum og alltof mörgum stofnunum. Lausnin felst ekki í því að „efla“ ríkisstofnanir með því að stækka þær og fjölga mönnum sem vinna við stefnumótun. Lausnin á vanda ríkisrekstrarins er að draga úr honum en ekki að auka skrifræðið innan hans. Fjármálaráðuneytið ætti að einbeita sér að því að minnka umsvif ríkisrekstrarins með því að einkavæða opinbera starfsemi í stað þess að láta sig dreyma um stærri og glæsilegri ríkisstofnanir þar sem unnið sé að aukinni stefnumótun.