Helgarsprokið 24. mars 2002

83. tbl. 6. árg.

Hve oft munu forystumenn Samfylkingarinnar lofa að opna bókhald sitt – ekki akkúrat núna heldur á morgun – án þess að standa við það? Hvað ætli Össur Skarphéðinsson núverandi formaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir fyrrum talsmaður hennar og Jóhanna Sigurðardóttir fyrsti þingmaður hennar í Reykjavík hafi oft lofað kjósendum að opna bókhald flokkanna án þess að nýta sér aðstöðu sína til að gera einmitt það? Hvað ætlar Jóhanna í framboð fyrir marga flokka sem ekki opna bókhald sitt? Þeir eru þrír nú þegar, Alþýðuflokkurinn, Þjóðvaki og Samfylkingin. Einn þeirra var jafnvel hennar sérlegi einkaflokkur, stofnaður af henni, um hana, fyrir hana, um hennar hugmyndir og ekki síður hennar ranghugmyndir og auðvitað í nafni „fólksins“. Hversu oft mun R-listinn bjóða fram lista fullan af frambjóðendum sem hafa haft uppi stór orð um að opna þurfi bókhald stjórnmálaflokka án þess að kjósendur séu nokkru nær um hver fjármagnar auglýsingar, blöð og bæklinga R-listans sem samanlagt hafa kostað tugi milljóna króna? Nú hefur bæst nýr frambjóðandi í R-lista hópinn sem hvað eftir annað hefur vandað um fyrir öðrum hvað þessi mál varðar. Hvað ætli Stefán Jón Hafstein hafi skrifað marga leiðara í Dag-Tímann um málið? Í einum stóryrðaleiðaranum hélt Stefán Jón því til dæmis blákalt fram að fjármál stjórnmálaflokkanna væru hluti af einhverju neðanjarðarhagkerfi sem Stefán Jón hefur þá talið sig vita um. Verður R-listinn áfram hluti af „neðanjarðarhagkerfinu“ undir forystu Stefáns Jóns?

Þeir sem vilja setja sérstök lög um fjármál stjórnmálasamtaka bera því gjarna við að „almenningur eigi rétt á“ að vita hvaða menn það eru sem styðji stjórnmálaflokkana með fjárframlögum. Sérstök lög um fjármál flokkanna tryggja það nú reyndar ekki, eins og dæmin sanna frá þeim löndum sem sett hafa slík lög. Ætli stór hluti af þeim fjármunum sem ætlað er að hafa áhrif á stjórnmálamenn, ef einhver eru, fari um hirslur stjórnmálaflokkanna? Eða bara beint þangað sem honum er ætlað að gera sitt „gagn“? Ætli slík framlög finni sér ekki annan farveg, hvort sem lög eru fleiri eða færri um málið? Það eru líka önnur rök sem vega þyngra í þessum efnum. Þátttaka manna í starfi stjórnmálaflokka, þ.m.t. fjárstuðningur við flokkana, er einn af þáttum stjórnmálanna. Ýmsir vilja ekki leggja annað til málanna en fé. Það er þeirra framlag til umræðunnar. Margir vilja ekki að stjórnmálaskoðanir þeirra séu opinberar og vilja halda því fyrir sig hvaða flokk þeir kjósa, starfa fyrir og styrkja með fjárframlögum. Þeir sem vilja setja lög um að birta þurfi nafn styrktaraðila flokkanna í Stjórnartíðindum eru að biðja um takmarkanir á tjáningarfrelsinu.

Fyrir síðustu kosningar til Alþingis birtist auglýsing frá aðila sem kallaði sig „Ungt fólk í Samfylkingunni“. Þar voru þröngir hagsmunir innlendra grænmetisframleiðenda varðir í nafni unga fólksins í Samfylkingunni en aðrir greiddu í raun fyrir auglýsinguna. Þetta er ein af mörgum leiðum sem standa mun opin þegar sett hafa verið sérstök lög um fjármál flokkanna. Afl ýmissa hagmunasamtaka mun aukast til muna í umræðunni þegar almenningi verður meinað að styðja flokkinn sinn án þess að nafn styrktaraðila verði auglýst opinberlega. Þar munu ekki síst beita sér samtök sem eru á opinberu framfæri þ.e. samtök sem almenningur er neytddur til að styðja þótt hann sé algerlega á andverðri skoðun við samtökin í ýmsum málum. Samtök iðnaðarins eru ágætt dæmi þar um. Eins og Vef-Þjóðviljinn gat um í byrjun mánaðarins hafa Samtök iðnaðarins hrifsað um 800 milljónir króna úr vösum skattgreiðenda á síðustu 5 árum. Sem kunnugt er stunda samtökin afar ófyrirleitinn einhliða áróður fyrir tiltekinni stjórnmálaskoðun, innlimun Ísland í Evrópuríkið. Önnur samtök sem beita afli sínu ótæpilega – fyrir fé úr opinberum sjóðum eða nauðungargjöldum af saklausum – eru til dæmis Bændasamtökin, BSRB og Stúdentaráð. Með því að banna almenningi að styðja stjórnmálaflokka án þess að auglýsa það í Stjórnartíðindum er verið að auka afl þessara hagsmunasamtaka á kostnað hins almenna manns.