Laugardagur 23. mars 2002

82. tbl. 6. árg.

Samtök iðnaðarins verða æ skringilegri. Þau gera ekkert orðið annað en senda ruslpóst út í hvippinn og hvappinn með „fréttum“ af því að í Svíþjóð hafi stuðningur við evruna aukist um hálft prósent, að Möltubúar séu að semja við Evrópusambandið eða eitthvað ámóta mikilvægt. Næst verður líklega greint frá því að Marsbúar hyggi á inngöngu fyrir árið 3000 og að þeir telji góðar líkur á að fá undanþágu frá geimferðaáætlun ESB. „Fréttir“ Samtaka iðnaðarins eru sem sagt bæði tíðar og smávægilegar, en það er ekki það versta. Þær eru líka allar úr einni átt og algerlega einhliða áróður fyrir inngöngu Íslands í ESB. Aldrei hefur það gerst að Samtök iðnaðarins hafi sent frá sér frétt sem kynni að draga úr líkum þess að Íslendingar gerðust aðilar að þessu sambandi.

Nú kann að vera að einhver segi sem svo að þetta sé ekki nema eðlilegt, samtökin séu að berjast fyrir ákveðnum málstað. Og það er laukrétt og vel það, Samtök iðnaðarins eru að berjast fyrir þessum eina málstað. En það sem þeir gleyma sem halda þessu fram er að Samtök iðnaðarins eru ekki venjuleg frjáls félagasamtök. Samtökin eru fjármögnuð af skattfé, þ.e.a.s. hver einasti Íslendingur greiðir nauðugur til samtakanna. Þessi staðreynd ætti að fá þau til að staldra við og velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að þau hafi fjölda manna í því einu að vinna með slíkum aðferðum að framgangi þessa máls sem mörgum skattgreiðendum er meinilla við.

Nú hefur komið í ljós að jafnvel ákafamennirnir í Samtökum iðnaðarins hafa áttað sig á að óeðlilegt er hvernig þeir nota skattfé í þessum áróðri sínum, því þeir hafa sent út sérstaka „tilkynningu“ til að útskýra baráttu sína og hvernig að henni hafi verið staðið. Þessi „tilkynning“ samtakanna er frekar kattarþvottur en fullnægjandi rökstuðningur við framgöngu samtakanna og baráttuaðferðir, því í honum er ekkert sem máli skiptir í þessu sambandi. Til að friða skattgreiðendur er hins vegar reynt að láta líta út fyrir að Samtök iðnaðarins hafi haft uppi vandaðan málflutning og í því sambandi er vísað til tíu ára gamalla rita sem samtökin hafi gefið út. Þess er hins vegar ekki látið getið hvernig samfelldur einhliða og ósanngjarn áróðurinn hefur gengið frá samtökunum síðustu misseri og ár og hversu langt samtökin ganga í að túlka hluti sér í vil en þegja um það sem ekki hentar Evrópurétttrúnaðinum.