Föstudagur 22. mars 2002

81. tbl. 6. árg.

Jæja, nú er komið að því. Nú brýst út múgæsing. Stjórnarandstaðan á alþingi heimtar afsagnir og illhygðir pistlahöfundar munu láta skæðadrífu stóryrðanna ganga yfir þá seku. Fjölmiðlamenn munu ganga af göflunum, fréttastofa Ríkisútvarpsins mun senda sérstakan spillingarsérfræðing sinn af stað og hamingjan veit hvað DV lætur sér nægja. En eitt er víst, nú verður allt vitlaust. Það hefur nefnilega komið á daginn að stjórnarformaður Strætós bs., sem greinilega er sérlegur gæðingur núverandi borgaryfirvalda, fékk á síðasta ári greidda hálfa fimmtu milljón króna frá fyrirtækinu, samkvæmt sérstökum samningi sínum við borgarritara, en án þess að stjórn fyrirtækisins hefði um það nokkra vitneskju.

Muna menn eftir látunum sem urðu á dögunum þegar í ljós kom að þáverandi stjórnarformaður Landssímans hafði samið við samgönguráðherra um ráðgjafarstörf fyrir fyrirtækið? Stjórn Landssímans var ekki höfð með í ráðum og allt gekk af göflunum. Þetta þótti svo alvarlegur glæpur að meira að segja þeir sem viðurkenna, að sá starfsmaður Landssímans sem braust inn í bókhald fyrirtækisins, hafði þaðan trúnaðarupplýsingar og kom þeim í hendur blaðamanni DV, hafi rofið trúnað og brotið af sér, halda því blákalt fram að þessi maður sé „þjóðhetja“ fyrir afrekið. Hvað ætli þessir menn segi núna?

Mest lítið. Þetta mál rataði reyndar í kvöldfréttir Ríkisútvarpins. Og var frétt númer 10. Og þá er það sennilega upp talið. Þeir stjórnmálamenn sem hæst létu á dögunum og heimtuðu að samgönguráðherra segði þegar í stað af sér, þeir munu ekkert segja núna. Þeir munu ekki hafa neina skoðun á því að stjórnarformaður Strætós semji við borgarritara um milljónagreiðslur – sé í raun í sérstöku starfi hjá fyrirtækinu – án þess að stjórn fyrirtækisins fái nokkuð um það að vita. Þeir munu ekki krefjast þess að þegar í stað verði skipuð rannsóknarnefnd til að „fara ofan í saumana á málinu“. Og borgarfulltrúinn Guðlaugur Þór Þórðarson sem spurðist fyrir um málið með fullkomlega löglegum hætti, rauf engan trúnað og braut ekkert af sér, hann verður aldrei kallaður þjóðhetja.

Já það þurfti sérstaka fyrirspurn til þess að þetta mál kæmist upp á yfirborðið. Og það er nokkuð sérstakt í ljósi liðinna atburða hjá Landssímanum. Í „Landssímamálinu“ kom nefnilega í ljós að margir krefjast þess að stjórnir fyrirtækja viti um alla samninga eins og þann sem hér um ræðir. En öll umræðan um „Landssímamálið“ varð borgaryfirvöldum þó engin hvatning til þess að upplýsa stjórn Strætós um samninginn við stjórnarformanninn. Og ef borgarfulltrúinn hefði ekki farið af stað, þá hefði stjórnin aldrei fengið af þessu að vita. Stjórnarmenn – allir nema stjórnarformaðurinn – hefðu aldrei fengið að vita að fyrirtækið, þar sem þeir sitja í stjórn, hefði í raun verið með „starfandi stjórnarformann“ og hefði greitt honum milljónir króna.

Vefþjóðviljinn hefur ekki hugsað sér að vera með stóryrði vegna samningsins sem borgaryfirvöld gerðu við stjórnarformann Strætós um milljónagreiðslur frá Strætó til stjórnarformannsins án þess að stjórn Strætós fengi neitt um það að vita. En þeir sem hátt létu á dögunum, þeir sem kröfðust þess að samgönguráðherra myndi „axla pólitíska ábyrgð“, þeir hljóta nú að snúa sér að borgarstjóranum í Reykjavík sömu erinda.