Fimmtudagur 21. mars 2002

80. tbl. 6. árg.
„Jemand mußte Josef K. verleumdet haben, denn daß er etwas Böses getan hätte, wurde er eines Morgens verhaftet.“ – Franz Kafka, Der Prozeß.

Sennilega telja flestir landsmenn sig njóta þokkalegs réttaröryggis. Margir amast reyndar af og til út í dómskerfið sem taki allt of létt á alvarlegum glæpum eða telja lögfræðinga hina verstu menn sem geri sér það að leik að rukka fólk fyrir alls kyns skuldir og jafnvel „geri það gjaldþrota“, sér til skemmtunar. En þrátt fyrir að slíkar athugasemdir heyrist öðru hverju þá óttast sennilega fæstir um réttaröryggi sitt. Væntanlega álíta fáir að þeir eigi það á hættu að verða einn góðan veðurdag ákærðir og dæmdir til þungrar refsingar án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Og hafa eflaust rétt fyrir sér í öllum aðalatriðum.

Grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. í Morgunblaðinu 19.3.2002
Grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. í Morgunblaðinu 19.3.2002

Í fyrradag ritaði Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður eina af sínum athyglisverðu greinum í Morgunblaðið. Greinin bar nafnið „Um réttaröryggi miðaldra karlmanna“ og er skemmst frá því að segja, að Jón Steinar hefur nokkrar áhyggjur af því hvert stefni með það. Tilefni greinarinnar var það, að nokkrum dögum áður hafði Hæstiréttur Íslands – við mikinn fögnuð hér og hvar – staðfest sakfellingardóm Héraðsdóms yfir karlmanni sem ákærður var fyrir alvarlega glæpi sem hann var sagður hafa framið gagnvart þáverandi stjúpdóttur sinni hálfum öðrum áratug áður. Maðurinn sem þarna var sakfelldur var dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar og var lengd fangelsisdómsins slegið upp í fjölmiðlum með lítt duldum fögnuði. Þá var því sérstaklega fagnað að dómstólar hefðu tekið kæranda málsins trúanlegan og dæmt málið á framburði hans.

En þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni. Í málinu voru nefnilega ekki færðar neinar sérstakar sannanir fyrir sekt mannsins sem þó var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi. Hinn ákærði maður neitaði alltaf þeirri sök sem á hann var borin, en konan sem kærði hann, þá 27 ára gömul, hélt einnig fast við sína sögu. Engum vitnum var til að dreifa og engum sérstökum sönnunargögnum öðrum. „Sakfellingin virðist einfaldlega á því byggð“, segir Jón Steinar í grein sinni, „að dómararnir hafi trúað konunni en ekki manninum.“ Ef þetta er rétt túlkun hjá hæstaréttarlögmanninum – og þeir sem lesa dóminn vandlega munu sennilega komast að þeirri niðurstöðu – þá er ástæða til að óttast um réttaröryggi borgaranna. Ef dómurum helst uppi að dæma menn til refsivistar með þeim rökstuðningi einum að kærandi sé „trúverðugri“ en hinn kærði þá er illa komið. Þá geta „sannfærandi“ einstaklingar í raun og veru komið mönnum saklausum í fangelsi, með því einu að vera nógu „trúverðugir“ í vitnaleiðslunum, að minnsta kosti ef saga þeirra „gengur upp“ og hinum ákærða manni tekst ekki sanna sakleysi sitt með einhverju móti – sem hann á þó alls ekki að þurfa að gera.

Jón Steinar segir í grein sinni að svo virðist sem í ákveðnum málaflokki séu íslenskir dómarar skyndilega teknir að sakfella menn „ef þeir aðeins telji kærandann líklegri heldur en kærða manninn til að segja satt.“ Vonandi sjá flestir hversu hættuleg slík þróun yrði fyrir réttaröryggi borgaranna. Því miður óttast Vefþjóðviljinn að þessi tilfinning Jóns Steinars sé í óhugnanlega miklu samræmi við raunveruleikann. En kannski er slík þróun ekki undarleg þegar hugsað er til þess að dómararnir eru, hvað sem hver segir, aðeins menn af holdi og blóði. Þeir fyllast mannlegum óhugnaði þegar kært er fyrir mjög alvarleg brot og mega ekki til þess hugsa að hinn seki sleppi. Og við það bætist að þeir hafa undanfarin misseri verið undir mjög óvægnum þrýstingi. Eða eins og Jón Steinar segir í grein sinni: „Dómarar, sem sýkna sakborninga vegna skorts á sönnunum, verða jafnvel fyrir persónulegum árásum fyrir vikið. Nýleg dæmi um þetta þekkja allir sem fylgst hafa með umræðum um þjóðfélagsmál hér á landi undanfarin ár. Nú virðist þetta vera farið að vinna á dómurum. Þeir eru teknir að sakfella án nokkurrar viðhlítandi sönnunarfærslu. Þeir fá klapp á bakið frá fólkinu, sem áður veittist að þeim.“