Miðvikudagur 27. mars 2002

86. tbl. 6. árg.

Nú eru nýir og gamlir eigendur DV komnir í hár saman. Þegar blaðið var selt á dögunum mun nefnilega hafa verið samið um það að fyrri eigendur þess hæfu ekki smáauglýsingasölu í samkeppni við þá nýju. Þennan samning telja kaupendur nú hina hafa brotið og hafa krafist þess að lögbann verði lagt við smáauglýsingasölu eldri eigenda, en þeir gefa út annað blað eins og mörgum er kunnugt. Þessi samningur aðilanna hafði aldrei verið birtur opinberlega, frekar en aðrir samningar sem fólk gerir sín á milli, en þegar að lögbannsbeiðnin varð að fréttamat þá varð samningurinn það líka. Og í fréttum í gær var fullyrt, eftir „öruggum heimildum“ að Samkeppnisstofnun ætlaði að vaða í málið þar sem vel mætti vera að samningurinn bryti gegn samkeppnislögum.

Eins og áður sagði, þá reka báðir samningsaðilar fjölmiðla hér á landi. Hvorugum þeirra datt hins vegar í hug að birta samning sinn í sínum blöðum. Og Vefþjóðviljinn er alveg sáttur við það enda hvarflar ekki að honum að neinn „almenningur“ eigi nokkurn minnsta rétt á að „fá upplýsingar“ um slíka samninga. En hvað halda menn að hefði gerst ef þessir fjölmiðlar hefðu komist yfir slíkan samning milli annarra aðila? Menn geta verið vissir um að honum hefði strax verið slegið upp og það hefði fylgt með að „almenningur ætti rétt á upplýsingum“ um slík málefni, fjölmiðlamennirnir væru einfaldlega að „sinna skyldum sínum við almenning“ og það mætti ekki einu sinni rannsaka hvernig fjölmiðlarnir hefðu komist yfir samninginn. Því það væri nefnilega svo mikilvægt að „vernda heimildarmenn“.

Muna menn eftir stóryrðaflaumnum sem kom frá sigmundernunum á DV þegar Landssímamálið stóð sem hæst og seldi sem flest eintök á dögunum? Muna menn eftir hetjunni, manninum sem Reynir Traustason kallar „litla landssímamanninn“, sem laumaðist í bókhald vinnuveitanda síns að beiðni þessa Reynis, fann þar gögn, lét Reyni fá þau, Reynir birti þau og varð hetja? Gott og vel. Segjum að starfsmaður DV hefði í skjóli nætur laumast inn á skrifstofur fyrirtækisins, rótað fram og til baka á skrifstofu ritstjórans þar til hann hefði fundið umræddan samning milli gömlu og nýju eigendanna, tekið svo samninginn og komið honum til annarra fjölmiðla sem hefðu slegið honum upp sem lögbroti. Ætli DV myndi ekki örugglega skrifa hástemmda leiðara um að þessi maður væri hvorki meira né minna en þjóðhetja?

Nei ætli það. Fjölmiðlamenn meina nefnilega ekkert með því þegar þeir þvaðra um „rétt almennings til upplýsinga“. Enda er enginn slíkur „réttur“ til staðar. Og fjölmiðlamenn eru engir fulltrúar almennings þótt þeir láti oft þannig til þess að þrýsta á um forréttindi sér til handa eða til að hræða fólk og einkum opinberar stofnanir, svo sem dómstóla, til undanlátssemi við sig. Fjölmiðlar eru einungis fyrirtæki sem rekin eru í þeim tilgangi að skila hagnaði. Þó ýmsir eigi viðskipti við þessi fyrirtæki – rétt eins og menn eiga viðskipti við til dæmis kvenfatabúðir, hjólbarðaverkstæði og nektarstaði – þá verða fyrirtækin ekki að neinum fulltrúa almennings við það. Eins og fjölmiðlamennirnir vita auðvitað yfirleitt sjálfir; nema svona rétt á meðan þeir örustu í þeirra hópi fljúga hvað hæst í sjálfsupphafinni oftrú á hlutverk sitt í heiminum.