Mánudagur 11. mars 2002

70. tbl. 6. árg.

Reykvíkingar eru við það að detta í lukkupottinn. Ekki minni maður en sjálfur Dagur B. Eggertsson, nýútskrifaður læknir og nemi í mannréttindafræðum, hefur fallist á að stíga niður frá Svíþjóð til að stjórna málum þeirra – að vísu ásamt Alfreð Þorsteinssyni, Helga Hjörvar, Stefáni Jóni Hafstein og fleiri spámönnum, en á þessari gleðistundu er óþarfi að hugsa til þess. Mega Reykvíkingar nú vænta faglegrar stjórnunar hins upplýsta og óflokksbundna nútímamanns, sem er fulltrúi nýrrar kynslóðar, nýs tíma, nýrrar sýnar, nýrra viðhorfa og alls annars sem er nýtt. Sjálfur lýsir meistarinn markmiðum sínum svo, og þar er hvert orð dýrt en innhaldslaus tískuorð og merkingarlaus delluhugtök sjást hvergi: „Sjálfur hef ég mestan áhuga á og mun beita mér mest í verkefni sem kallast þekkingarþorp í Vatnsmýrinni þar sem leiða þarf saman háskólafólk, sprotafyrirtæki og fleiri aðila til að búa til nýsköpunarumhverfi sem gæti orðið afl í hagkerfi framtíðarinnar.“

Reykvíkingar verða reyndar ekki þeir fyrstu sem fá að njóta meitlaðra orða og stórbrotinna athafna þessa snjalla og vanlofaða manns og félaga hans á R-listanum. Dagur var – eins og velflestir aðrir sem eiga að erfa land og krúnu R-listans – einn af stjórnendum Röskvu sem stýrðu stúdentaráði Háskóla Íslands síðustu árin. Og þá fengu stúdentar nú aldeilis að kynnast hástemmdum markmiðum og stuðluðum loforðum. „Hjarta háskólans“ var eitt loforðið sem básúnað var með stórum orðum: „Matstofa, fundarsalir, leiksvið, tónleikaaðstaða og jafnvel bjórkjallari í aðalbyggingu Háskólans“. Annað loforð var „stúdentaútvarp“ en þar lofaði Röskva að „búa til útvarp sem í senn nýtir kosti Háskólans sem menntastofnunar og ferskleika stúdenta, sem ungs fólks vopnuðu hugmyndaauðgi, sköpunargleði og dirfsku.“ Áfram má telja og í stuttu máli má segja að Röskva hafi verið látlaus uppspretta hástemmdra loforða. Ár eftir ár boðaði Röskva stúdentum „sumarmisseri“ sem hún fullyrti að væri „handan við hornið“. Með sama hætti var látlaust lofað „úrbótum í aðstöðuleysi deildarfélaga“, og „gæðamati á próf“ í bland við undarleg fyrirheit eins og „öfluga þátttöku í átakinu „íbúð á efri hæð“.“

Þessi loforð sem forystumenn Röskvu útmáluðu með orðaflóði og óbilandi sjálfstrausti eiga einnig eitt annað sameiginlegt. Og hvað skyldi það nú vera? Jú, viti menn: „Hjarta Háskólans“ varð aldrei til, leiksviðið, tónleikaaðstaðan, bjórkjallarinn og hvað það nú var sem Röskva boðaði í aðalbyggingu Háskólans hefur að sjálfsögðu aldrei orðið meira en orðin tóm. Stúdentaútvarpið hefur aldrei sent út svo enginn veit enn hvað dagskrárgerðarmenn Röskvu hefðu haft til málanna að leggja, vopnaðir sköpunargleði, hugmyndaauðgi og dirfsku. Sumarmisserið er enn handan við hornið. Aðstöðuleysi deildarfélaga var árum saman jafn slæmt undir stjórn Röskvu. „Gæðamat á próf“ fór auðvitað aldrei fram. Já og auðvitað býr enginn í „íbúð á efri hæð“.

Loforðin urðu aldrei að neinu. En Röskva var kosin ár eftir ár enda gætti hún þess að koma með nýja og nýja frasa á hverju ári, hvern öðrum nútímalegri. Og ef einhver reyndi að benda á að allt væri enn óefnt frá síðustu kosningum þá var eingöngu svarað með enn íburðarmeiri og innihaldslausari loftköstulum. Svo virðist sem R-listinn í borgarstjórn – þar sem 4 af 8 efstu frambjóðendum eru fyrrverandi formenn Stúdentaráðs fyrir vinstri menn – ætli að reyna að leika sama leik í næstu borgarstjórnarkosningum. Loforð R-listans frá fyrri kosningum eru illa efnd. Það átti til dæmis að „eyða biðlistunum“ og „lækka gjöld á borgarbúa“ en biðlistarnir eru lengri en nokkru sinni fyrr og gjöld á borgarbúa hafa hækkað en ekki lækkað. En fjölmiðlar munu ekki fjalla um þetta enda hafa þeir ekki áhuga á sviknum loforðum og hæpinnni málefnastöðu vinstri manna í borgarstjórn. Og ef aðrir borgarbúar reyna að spyrja um þetta þá verður þeim eins og háskólastúdentum ekki svarað með rökum heldur nýjum frösum. Þeir sem munu spyrja um langa biðlista og hækkandi álögur munu aðeins fá að heyra að nú standi sko til að útbúa þekkingarþorp í Vatnsmýrinni þar sem leiða þurfi saman háskólafólk, sprotafyrirtæki og fleiri aðila til að búa til nýsköpunarumhverfi sem gæti orðið afl í hagkerfi framtíðarinnar.

En kannski dugar það.