Fyrir allnokkrum árum voru sýndir í bresku sjónvarpi gamanþættir undir titlinum „Not the Nine O’Clock News“. Þar var að finna háð og ádeilu á fréttir, fréttamenn og ekki síður á stjórnmálamenn og ýmis furðuleg útspil þeirra og ummæli. Þegar þættirnir voru sýndir í íslenska ríkissjónvarpinu voru þeir kallaðir „Þetta var ekki í fréttum“ og var það heiti tekið upp af íslenskum útvarpsgrínista nokkrum árum síðar. Var í útvarpsþáttum Hauks Haukssonar, „ekkifréttamanns“ með sama hætti snúið út úr því helsta sem í fréttum var hverju sinni og jafnframt búnar til ýmsar ólíkindafréttir, sem þjóna áttu því hlutverki að draga fram fáránleika málefna sem í umræðunni voru.
„Ætlun Alfreðs hefur sennilega aldrei verið önnur en sú að fá dálítið lófaklapp á fundi framsóknarmanna í Reykjavík og nokkur viðtöl í fjölmiðlum. Kannski bara til að skemmta sjálfum sér. Kannski líka til að skemmta okkur hinum.“ |
Nú á undanförnum mánuðum hefur komið fram á sjónarsviðið hér í Reykjavík nýr „ekkifréttamaður“. Hann er vissulega ekki launaður starfsmaður útvarps- eða sjónvarpsstöðva, og ekki heldur skemmtikraftur að atvinnu, en hefur tekið að sér það hlutverk sjálfviljugur, að koma á framfæri fáránlegum „ekkifréttum“, að því er virðist í þeim tilgangi helstum að stytta landsmönnum skammdegið. Hér er að sjálfsögðu verið að vísa til Alfreðs Þorsteinssonar, borgarfulltrúa og formanns stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Alfreð hefur að undanförnu komið fram með hverja ólíkindatillöguna á fætur annarri varðandi Orkuveituna og fjármál hennar, sem enginn getur tekið alvarlega, nema auðvitað undirmenn hans hjá Orkuveitunni, sem eiga ekki kost á öðru, stöðu sinnar vegna, en að taka þátt í fáránleikaleikhúsi hans.
Nýjasta útspil Alfreðs var að leggja til að Orkuveitan kannaði möguleika á kaupum á kjölfestuhlut í Landsíma Íslands hf. af ríkinu. Tillagan gekk sem sagt út á, að Orkuveitan, sem er opinbert fyrirtæki í einokunarrekstri, notaði afraksturinn af orkusölu til Reykvíkinga og nágranna til að kaupa hlutabréf af ríkinu, í fyrirtæki sem starfar á gerólíku sviði. Í þessu máli missti Alfreð sjónar á tveimur grundvallaratriðum: Annars vegar því að Orkuveitan hefur lögum samkvæmt skýrt afmarkað hlutverk og heimildir þess til að fara út fyrir það hlutverk eru verulega takmarkaðar. Hins vegar því að markmið ríkisins með því að selja hlutabréf sín í Landsímanum hefur alltaf verið að draga úr opinberri þátttöku í atvinnurekstri, fá inn nýtt fjármagn og erlenda hluthafa með sérþekkingu á fjarskiptasviðinu, sem nýst gæti fyrirtækinu í framtíðinni. Tilgangurinn var aldrei sá að selja opinberu fyrirtæki undir pólitískri stjórn hlutabréf í fyrirtæki, sem ætlunin var að losa undir slíkum áhrifum. Loks má nefna, að Alfreð virðist hafa sést yfir þá staðreynd, að Reykvíkingar og aðrir notendur þjónustu Orkuveitunnar hljóta að velta fyrir sér hvort verðið á rafmagninu og heita vatninu sé hugsanlega alltof hátt, ef Orkuveitan hefur yfir að ráða einhverjum milljörðum, jafnvel tugum milljarða, sem hægt er að nota til hlutafjárkaupa í öðrum fyrirtækjum.
Alfreð kynnti þessar hugmyndir sínar á fundi hjá Framsóknarfélagi Reykjavíkur og fengu þeir stjórnarmenn Orkuveitunnar, sem ekki eru félagar í þeim virðulega félagsskap, fyrst upplýsingar um áformin í fjölmiðlum. Nú hefur komið fram að forstjóri Orkuveitunnar hefur skrifað um málið tveggja blaðsíðna skýrslu, sem kynnt var í stjórninni fyrir helgi. Eftir umræður þar hefur Alfreð komið fram og lýst því yfir að ýmsir kostir fylgi kaupunum, samkvæmt skýrslunni, en hlé verði gert á athugunum þar sem ekki sé áhugi hjá ríkinu á sölunni. Hann lætur með öðrum orðum í veðri vaka, að ekkert sé því til fyrirstöðu að Orkuveitan verði ráðandi eignaraðili að Landsímanum nema áhugaleysi ríkisins sem seljanda. Þrátt fyrir þetta er engin ástæða til annars en að ætla að málinu sé hér með lokið. Sennilega hefur Alfreð aldrei gert ráð fyrir að af þessum kaupum yrði. Ætlun hans hefur sennilega aldrei verið önnur en sú að fá dálítið lófaklapp á fundi framsóknarmanna í Reykjavík og nokkur viðtöl í fjölmiðlum. Kannski bara til að skemmta sjálfum sér. Kannski líka til að skemmta okkur hinum.
Það leiðir svo auðvitað hugann að öðru sambærilegu útspili Alfreðs fyrr í vetur, þegar hann lýsti opinberlega vilja sínum til að selja Perluna í Öskjuhlíð. Ekki var heldur meiri alvara í því máli en sú, að engin leið var fyrir hugsanlega kaupendur, raunverulega eða ímyndaða, til að átta sig á því hvað nákvæmlega væri til sölu, hvert kaupverðið gæti hugsanlega verið eða hverjar skuldbindingar nýir kaupendur yrðu að taka á sig. Besta sölulýsingin gekk manna á milli á vefnum í auglýsingu sem var orðuð einhvern veginn svo: „Hæð og ris til sölu í Hlíðunum. Ásett verð 5000 milljónir króna.“ Að sjálfsögðu hafa engin tilboð verið gerð og engir alvöru kaupendur komið fram á sjónarsviðið. Að sjálfsögðu munu Orkuveitan og Alfreð ekki selja Perluna. Það stóð heldur aldrei til. Þetta var auðvitað bara grín allan tímann.