Þriðjudagur 12. mars 2002

71. tbl. 6. árg.

Fyrir nokkrum árum setti Evrópusambandið bandarískum bananasölumönnum stólinn fyrir dyrnar. Evrópumenn fluttu hins vegar lítið að banönum vestur um. Bandarísk stjórnvöld svöruðu því með því að þvælast fyrir innflutningi – ekki á banönum – heldur skoskum lopapeysum. Þótt íslenskum börnum hafi verið kennt það í umhverfisþættinum Spíral í Ríkissjónvarpinu í vetur að hver eigi að vera sjálfum sér nógur og viðskiptahindranir séu í raun umhverfisvænar því þá „mengum“ við ekki umhverfið með flutningi á vörum milli landa er ekki víst að aðrir en annað dekurdýr Ríkissjónvarpsins, John Pilger, skrifi upp á þessa kenningu.

Því kom það á óvart á dögunum þegar George W. Bush forseti Bandaríkjanna kynnti nýja innflutningstolla á stál. Hann hafði að vísu gefið þetta í skyn áður, meðal annars á þeirri forsendu að ríki Evrópusambandsins veiti þarlendum stálframleiðendum ríkisstyrki. Og þetta framtak forsetans er ekki gert til að vernda umhverfið samkvæmt altæku kílómetrakenningu Spírals heldur bandaríska stálframleiðendur og starfsmenn þeirra. Þessir starfsmenn eru 0,1% vinnandi manna í Bandaríkjunum en margir þeirra eru kjósendur í Vestur Virginia og Pennsylvania og gætu atkvæði þeirra vegið þungt á metunum í næstu þingkosningum. Hin 99,9% munu finna fyrir atkvæðakaupunum í hærra stálverði.

Evrópusambandið hefur að sjálfsögðu hótað að hefna með tollum á þær fáu vörur sem Evrópumenn geta nú keypt án tolla frá Bandaríkjunum. Verður málið þá jafn heimskulegt frá báðum hliðum séð og í raun óþarft að tala um að þetta mál hafi „eins og öll önnur“ tvær hliðar. Bandaríkin leggja sumsé tolla á þær vörur sem Bandaríkjamönnum þykir hagstætt að kaupa frá Evrópu og Evrópusambandið leggur sérstaka tolla á þær vörur sem íbúum innan þess þykir akkur í að fá frá Ameríku. Svo segja menn að stjórnmálamenn geti ekki gert gagn.

Þetta mál minnir raunar einnig á hve mikilvægt það er að almennir borgarar geti veitt stjórnmálaflokkum fjárframlög án þess að veita öðrum upplýsingar um það. Stéttarfélög starfsmanna í stáliðnaði í Bandaríkjunum eru afar sterk og beita sér óspart. Þau eiga mikinn þátt í því að Bush hefur látið til leiðast að leggja tolla á innflutt stál. Frambjóðendur flokks hans mega vart við því að stéttarfélög í stáliðnaði beiti fé sínu og öðru afli gegn sér. Hvernig halda menn að völd félaga af þessu tagi (og þau eru síst aflminni hér á landi en í Bandaríkjunum) yrðu hér á landi í aðdraganda kosninga ef hinum almenna manni verður í raun neitað um að leggja stjórnmálaflokkum lið með því að gera fjárframlög til þeirra að opinberum upplýsingum? Verða slík félög, BSRB, ASÍ, Samtök iðnaðarins, Bændasamtökin, Stúdentaráð Háskóla Íslands og hvað þau heita öll þessi félög sem liggja upp á almennum launþegum, námsmönnum og skattgreiðendum, ekki þau einu sem hafa efni á að auglýsa og kynna málstað sinn fyrir kosningar? En kannski er það tilgangur þeirra sem hæst hrópa um meiri lög og fleiri reglur um fjármál flokkanna.