Þriðjudagur 26. febrúar 2002

57. tbl. 6. árg.

Það munu ekki vera ýkja mörg ár frá því frjálslyndir jafnaðarmenn í Alþýðuflokknum börðust fyrir „einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn“. Árum saman hömruðu þeir á þessu máli í nafni frjálslyndrar jafnaðarstefnu eða allt þar til einhver benti þeim á að þegar væri til svona sameiginlegur sjóður allra landsmanna þ.e. ríkissjóður. Sá sjóður væri ef til vill ekki besta fyrirmyndin að lífeyriskerfi fyrir landslýð. Síðan hefur lítið heyrst um þetta baráttumál fyrir öðrum ríkissjóði. En þótt þessi frjálslynda jafnaðarstefna um ríkisrekstur lífeyrismála næði ekki fram að ganga er ekki þar með sagt að frelsi í lífeyrismálum sé nægilegt.

SPARIGRISSjálfsagt þykir ýmsum nóg um að lögum samkvæmt ber mönnum að greiða 10% launa sinna í „lífeyrissjóð“. Í raun er þeim svo refsað með lægri launum og hærri sköttum sem greiða ekki ein 6% til viðbótar í „viðbótarlífeyrissparnað“. Þeir sem greiða 4% til viðbótar fá nefnilega 2% „mótframlag“ frá vinnuveitanda og ríkið frestar skattlagningu á þessum hluta launanna og leggur jafnframt í púkkið. Jamm, sama ríkið og gerði trú manna á almennum sparnaði að engu með óðaverðbólgu áratugum saman beitir nú öllum brögðum til að menn spari; allt frá lagaboði til hreinnar greiðslu.

Það mætti ætla að þegar menn hafa verið skyldaðir með svo afgerandi hætti til að sýna fyrirhyggju fengju þeir örlitið svigrúm til að uppfylla þessa skyldu. En því er ekki að heilsa. Í fæstum tilfellum ráða menn því í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða. Jafnvel eru dæmi um að menn hafi greitt árum saman í sjóði sem augljóst var að stæðu ekki undir skuldbindingum sínum. Lífeyrissjóðirnir eru með öðrum orðum ekki allir eins og þeir hafa misjafnar áherslur. Og það sem meira er: launþegar kunna einnig að hafa misjafnan smekk á því í hvaða lífeyrissjóði þeir vilja vera. Já, þótt það hafi ekki verið gert ráð fyrir því þegar lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða voru sett, að launþegar geti myndað sér skoðun á hlutunum þá mun það vera svo, og þrátt fyrir að verðalýðsrekendur hafi gert sitt besta til að halda sjóðsfélögum lífeyrissjóða í hæfilegri fjarlægð frá stjórnun sjóðanna þá munu ýmsir greiðendur iðgjalda til lífeyrissjóða vilja vera í einhverjum allt öðrum sjóði en þeim er skipað í.

Fyrir þessu kunna að vera ýmsar ástæður. Kannski er einhver sem vill greiða í sjóð sem Ögmundur Jónasson veitir stjórnarformennsku þar sem sá sjóður er ekki líklegur til að fjárfesta í ferðaskrifstofurekstri á þessum síðustu og verstu tímum í þeirri grein. Maðurinn gæti metið það svo að Ögmundur hafi þegar brennt sig – og fjármuni umbjóðenda sinni í BSRB – á ferðaskrifstofurekstri með ævintýrinu um Samvinnuferðir og lært af reynslunni. Svo gæti þessi maður einnig viljað forðast fjárfestingar í álverum en þess í stað viljað komast í sjóð Ögmundar þar sem ýmsar fjárfestingar Ögmundar fyrir hönd sjóðsfélaga sinna í hátæknifyrirtækjum hafa fallið svo í verði að nú er rétti tíminn til að kaupa sig inn í sjóðinn. Þetta yrði ekki síður gott aðhald fyrir Ögmund þar sem nú þyrfti hann að sýna ábyrgð og festu við stjórn sjóðsins til að glata ekki sjóðsfélögum annað.

Fyrir Alþingi liggur nú einmitt frumvarp frá Hjálmari Árnasyni, Pétri H. Blöndal, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Jónínu Bjartmarz sem gerir ráð fyrir að menn geti valið sér lífeyrisjóð. Í greinargerð með frumvarpinu segir að að tilgangur frumvarpsins sé að „sú breyting [verði] á lögum um lífeyrissjóði að hverjum þeim sem skylt er að eiga aðild að lífeyrissjóði sé frjálst að velja sér sjóð til að greiða í enda standist sjóðurinn allar almennar kröfur og skilyrði um rekstur lífeyrissjóða.“

Nýr vefur um stjórnmál hefur litið dagsins ljós og er kenndur við frjálshyggju. Að sögn aðstandenda er vefurinn Frjálshyggja.is óháður stjórnmálaflokkunum og kemur til með að fjalla um málefni líðandi stundar út frá sjónarhóli frjálshyggjunnar sem og taka á hugmyndafræði, sögustaðreyndum og öðru því er málinu við kemur.