Mánudagur 25. febrúar 2002

56. tbl. 6. árg.

Íslenskir fréttamenn hafa uppi mörg og fögur orð um hlutleysi sitt og „hlutverk“ sitt í þágu „almennings“. Sá sem vill gera íslenskan fjölmiðlamann brjálaðan á ekki auðveldari leið en að draga „hlutleysi“ hans í efa. – Gott og vel, sami árangur næðist svo sem með því að leggja til að upplýsingalögin yrðu afnumin eða að fjallað yrði með gagnrýnum hætti um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en þá er það líklega upp talið. – Og það er ekki einungis þannig að fréttamenn segist vera hlutlausir, margir þeirra trúa því sjálfir. Margir eru meira að segja svo svakalega hlutlausir að þeir eru ekki skráðir í nokkurn sérstakan stjórnmálaflokk, og hvað geta menn beðið um meira? 

En þrátt fyrir þetta þá er það svo að fréttamenn eru sjaldan eða aldrei hlutlausir, þó þeir segist gjarnan vera það. Þó fréttamaður segi sig til dæmis úr stjórnmálaflokki þegar hann er ráðinn inn á fréttastofu þá breytist hann ekkert við þann gerning. Hann hefur sömu skoðanir eftir sem áður enda segir hann sig ekki úr flokknum vegna þess að skoðanir hans hafi breyst. Og þó hann hafi kannski aldrei verið formlega skráður í nokkurn flokk þá kemur það hlutleysi ekkert við. Eða hvað? Hvaða fréttamaður hefur ekki sína persónulegu skoðun á þeim málum sem eru til umræðu og hvaða fréttamaður hefur aldrei gert upp á milli flokka og framboða á kjördegi? Gott dæmi er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og væntanlegt borgarstjóraefni flokksins, Stefán Jón Hafstein. Hann var lengi yfirmaður Rásar 2 og stýrði þar áhrifamiklum og umdeildum útvarpsþætti þar sem þjóðmálin voru rædd 5 daga í viku. Stefán Jón var ekki skráður í neinn stjórnmálaflokk á þeim tíma, en dettur einhverjum í hug að hann hafi verið ópólitískur? Að hann hafi bara verið hlutlaus til samfélagsmála þar til bara nú nýverið?

Svo getur einnig verið að fréttamenn tengist umfjöllunarefni sínu eða fréttamaðurinn eða menn honum nákomnir hafi hagsmuni af því hvernig umfjöllunin verður. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir nefnist fréttamaður á Ríkisútvarpinu sem getið hefur sér orð og uppskorið hrós fyrir einarða framgöngu í umdeildum málum, en Þóra Kristín þótti ganga mjög rösklega fram þegar málefni Árna Johnsen voru til sem mestrar umræðu í fyrra og nú gengur hún hart fram í Landssímamálum. Og allt í lagi með það, út af fyrir sig. En hlustendur eru aldrei upplýstir um það, að fréttamaðurinn er dóttir eins af þingmönnum Samfylkingarinnar þó flestir hljóti að sjá að þingmenn Samfylkingarinnar geta haft mikla hagsmuni af því hvernig fréttastofur fjalla um mál eins og þessi. Með því er ekki sagt að þessi tiltekni fréttamaður hafi látið það hafa áhrif á sig í þessum ólíku málum; auðvitað er eðlilegt að frá þeim sé sagt í fréttum og þá sérstaklega verðskulduðu mál Árna Johnsen vandaða umfjöllun. Aðalatriðið er hér það, að fréttastofa Ríkisútvarpsins hlýtur að eiga fleiri starfsmenn en svo að það sé nauðsynlegt að fela fréttamönnum umsjón mála þar sem foreldrar fréttamannsins eiga mikið undir því hvernig fréttaefnið er matreitt fyrir hlustendur. Ekki síst þegar þessa skyldleika er svo aldrei getið, þrátt fyrir stór orð um „rétt almennings til upplýsinga“ og um „nauðsynlegt traust og óhlutdrægni“.

Fréttamenn eru sífellt að taka afstöðu. Sjaldnast gera þeir það þannig að þeir lýsi eigin skoðun berum orðum. Þeir ákveða hins vegar hvað þeir fjalla um og hvað ekki; við hverja er talað og við hverja er ekki talað; hver er spurður að hverju og hver er svo ekki spurður sambærilegra spurninga, og svo framvegis. Með þessu er ekki sagt að fréttamennirnir séu hluti af einhverju allsherjarsamsæri vondra manna, þeir eru einfaldlega menn af holdi og blóði, menn sem hafa ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni og gildismat þeirra hefur áhrif á störf þeirra, eins og við er að búast.