Miðvikudagur 27. febrúar 2002

58. tbl. 6. árg.

Það er alltaf verið að biðja um meiri fjárveitingar. Svo til allar greinar opinbers rekstrar telja í senn nauðsynlegt og bráðsnjallt að þær sjálfar fái meira fé frá skattgreiðendum og halda því meira að segja fram að hin auknu útgjöld yrðu skattgreiðendunum sjálfum mjög í hag. Þannig hafa háskólastúdentar – og ekki síður kennarar þeirra – árum saman boðað þau vísindi að hver króna sem ríkið setji „til menntamála“, hverju nafni sem nefnast, skili sér „margföld til baka“. Þegar hlustað er á háskólakórinn flytja þessar kröfur, og nútímalegu stjórnmálamennina sem keppast við að taka undir, virðist sem engin endimörk séu á því hversu mikið megi hagnast á því að skattleggja hinn almenna mann og eyða fé hans til „menntamála“, það komi alltaf „margfalt til baka“. Jafnvel fer mönnum að þykja freistandi að dæla bara öllum fjármunum ríkisins til „menntamála“ í nokkur ár og svo geti menn lifað í vellystingum praktuglega af rentunum eftir það.

Sama kenning er áberandi á mörgum öðrum sviðum. Náskyld henni er sú trú að fjárskortur sé það helsta sem standi opinberum stofnunum fyrir þrifum sem og hin að öll helstu mein slíkra stofnana megi leysa með því að auka fjárveitingar til þeirra. Þannig er allt sem miður fer í heilbrigðismálum rakið til „fjársveltis“ og menn kunna þau ráð helst að auka opinber framlög til heilbrigðismála, enda eru þau aukin ár frá ári. Svipuð staða er í ýmsum nágrannaríkjum Íslands og má hér nefna Stóra-Bretland sem dæmi. Þar þykir heilbrigðiskerfið í algerri rúst og sér ríkisstjórn Verkamannaflokksins þau ein ráð að hækka skatta á borgarana og veita auknu fé til spítalanna í framhaldi af því. En ekki eru allir þeirrar skoðunar að þá sé björninn unnin.

Michael nokkur Gross, sem um áratugaskeið hefur verið sérfræðingur í taugasjúkdómum og sem slíkur unnið til fjölda viðurkenninga og verðlauna, sagði á dögunum upp starfi sínu við konunglega sjúkrahúsið í Guildford. Í framhaldi af því ritaði hann grein í The Mail on Sunday og skýrði þar brotthvarf sitt úr starfi og lýsti ástandinu á breskum sjúkrahúsum. Ekki eru tök á að endursegja ófagra lýsingu hans hér, en í sem stystu máli má segja að Gross segi breska heilbrigðiskerfið gersamlega hrunið. Sjúklingar þurfi að bíða von úr viti eftir aðstoð sérfræðinga, nýjasta tækni bjóðist ekki og bestu lyf ekki heldur. Rannsóknir geti tekið óratíma og niðurstaða fáist ekki fyrr en eftir margar vikur og svo framvegis. Og Gross segir að auknar fjárveitingar komi að litlu haldi til að bæta úr þessu.

Jújú segir Michael Gross, látiði spítalana fá meira fé, það er alltaf vel þegið. En það er ekki aðalatriðið nú. Gross segir að stjórnsýsla og skrifræði hafi aukist ótrúlega á undanförnum árum og sé nú svo komið að starfsmenn við stjórnsýslu spítalanna séu orðnir fleiri en sjúkrarúmin! Nánar tiltekið, samkvæmt nýjustu tölum voru starfsmenn í stjórnsýslu og eignaumsýslu spítalanna 212.020 en sjúkrarúmin alls 199.730. Þessu fylgi svo það að annað starfsfólk, læknar, hjúkrunarkonur og aðrir eyði óratíma í að glíma við mörg lög yfirstjórnarinnar í hvert sinn sem leita þarf til yfirmanna eftir ákvörðunum, jafnvel hinum einföldustu. Gross segir að ógnvekjandi upphæðum sé kastað á glæ með þessu móti, fé sem nýta mætti til að bæta heilsu venjulegra sjúklinga. Við þetta bætist svo að stjórnvöld eru af hugmyndafræðilegum ástæðum á móti því að einstaklingarnir beri sjálfir meiri ábyrgð á eigin heilsu, svo sem í gegnum tryggingakaup.

Eins og áður sagði telja margir að aukið fé til opinberrar þjónustu leiði um síðir til bættrar þjónustu. Sú hugmynd er í besta falli hæpin. Það má hins vegar næstum alltaf treysta því að aukið fé til opinberrar þjónustu leiðir til aukinnar sóunar í opinberri þjónustu. Hún heldur svo auðvitað áfram svo lengi sem ekki má ræða aðrar leiðir sem kynnu að reynast betur en sífellt umfangsmeiri opinber rekstur.