Laugardagur 16. febrúar 2002

47. tbl. 6. árg.

Aðalfundur Samtaka verslunarinnar-FÍS var haldinn í gær. Þessi samtök hafa jafnan uppi mikinn barlóm um stóru, vondu smásalana, og mikilvægi Samkeppnisstofnunar til að stjórna viðskiptalífinu í landinu. Það athyglisverðasta sem fram kom á fundinum var þó ekki barátta samtakanna fyrir auknum ríkisafskiptum í viðskiptalífinu, heldur frekar erindi Sigurðar Einarssonar, forstjóra Kaupþings, um stærð íslenskra fyrirtækja og stöðu þeirra í alþjóðlegri samkeppni.

Í ræðu sinni sagði Sigurður meðal annars: „Eigi okkur að takast að halda íslenskri í kjölfestu í slíkum fyrirtækjum, meðal annars til þess að þau viðhaldi höfuðstöðvum og starfsemi á Íslandi, þarf allt viðhorf til þeirra að gjörbreytast. Dæmi um það er að ef hugmyndir sumra íslenskra útrásarfyrirtækja ganga upp þyrftu íslensk fjármálafyrirtæki að stækka 50 til 100 falt til þess að geta sinnt fjármagnsþörfum þeirra. Almennt þurfa útrásarfyrirtæki að hafa sterkan bakhjarl á heimamarkaði, og þegar tillit er tekið til þess hve íslenskur markaður er lítill, er stöðugt nagg um ráðandi stöðu heima fyrir, skaðlegt fyrir þau á alþjóðavettvangi.“ Þessi sjónarmið Sigurðar eru sérlega umhugsunarverð í ljósi þess að Samkeppnisstofnun leyfði ekki samruna Landsbanka og Búnaðarbanka þegar hún var spurð álits á honum fyrir nokkrum misserum.

Síðar í ræðunni sagði Sigurður: „Eitt aðal samkeppnisforskotið í dag er aðgangur að stórum mörkuðum. Það ætti því að vera ánægjuefni þegar íslensk fyrirtæki verða stór. En stjórnvöld þurfa síðan að huga vel að því að aðgangur að íslenska markaðnum sé greiður. Sé því skilyrði fullnægt er engin ástæða til að óttast stærð íslenskra fyrirtækja. Vökul augu mögulegra erlendra keppinauta eru engu síður til þess fallin að halda íslenskum fyrirtækjum við efnið en bein þátttaka þeirra hér á landi. Með því að leyfa fyrirtækjunum að ná þeirri stærð sem markaðshagkvæmni kveður á um hverju sinni, samhliða því að stjórnvöld haldi vöku sinni gagnvart lögboðnum viðskiptahindrunum, tryggjum við best vöxt íslensks atvinnulífs og hag neytenda.“