Föstudagur 15. febrúar 2002

46. tbl. 6. árg.

VERDLAUNMagnús er ágætis mynd. Nýtt líf ekki síður. Dalalíf er all góð en Löggulíf nokkru síðri. Einkalíf er nú svona og svona. Þráinn Bertelsson á fremur farsælan feril sem kvikmyndaleikstjóri, eftir hann liggja nokkrar myndir sem hafa skemmt mörgum og eiga sjálfsagt eftir að gera það áfram. Fyrir rúmu ári bar það svo til að alþingismenn – í raun menntamálanefnd Alþingis – ákvað að launa Þráni starfsemi hans með því að gefa honum 1,6 milljónir króna af ríkisfé í svo kölluð heiðurslaun listamanna. Og miðað við framkvæmdina þá mega skattgreiðendur og Þráinn gera ráð fyrir að sá heiður verði ítrekaður árlega svo lengi sem báðir aðilar lifa. Og það er í þeim punkti sem rétt er að staldra við.

Lengi hefur það viðgengist að Alþingi veiti útvöldum listamönnum þessi svo kölluðu heiðurslaun. Listinn yfir heiðurslaunaþega er samþykktur í desember ár hvert og þeir sem einu sinni komast inn á hann, eru ætíð heiðraðir aftur að ári. Sumir hafa notið heiðurslauna áratugum saman og alls fengið greitt tugi milljóna króna. Lengi var fjöldi viðtakenda óbreyttur, það er að segja, nýir menn komust ekki inn nema eldri heiðurslaunaþegar féllu frá. Fyrir nokkrum árum tók svo að fækka á listanum, hægt og hægt, þar sem ekki var fyllt í þau skörð sem mynduðust af og til. En svo gerðist það skyndilega að heiðurslaunþegum var fjölgað talsvert og launin jafnframt hækkuð. Og þar sem engin breyting hefur enn orðið á því að styrkurinn er alltaf ítrekaður til þeirra sem einu sinni hafa náð inn á listann, þá geta menn nú rakað saman töluverðum upphæðum í „heiðurslaun“, ef þeim endist líf.

Hver halda menn að viðbrögðin yrðu, ef því yrði skyndilega haldið fram á Alþingi, að til dæmis frístundaljóðskáld sem hefði sent frá sér eins og tíu ljóðabækur sem hefðu selst í nokkur hundruð eintökum hver, ætti að fá sérstök heiðurslaun frá hinu opinbera fyrir viðvikið, 40 milljónir króna sem skyldu greiðast með jöfnum árlegum afborgunum? Sennilega þætti flestum sú hugmynd tóm della. Eða að kvikmyndagerðarmaður um fimmtugt skuli til æviloka fá eins og 1,6 milljón króna á ári frá ríkinu í þakklætisskyni fyrir þær myndir sem hann hefði staðið að fram að þessu? Ætli það félli ekki í grýttan jarðveg. Engu að síður er enginn raunverulegur munur á slíkum tillögum og því hvernig heiðurslaunakerfið hefur verið notað.

Er ekki rétt að endurskoða og afnema þetta heiðurslaunakerfi? Ef menn hafa áhyggjur af því að það kæmi illa við og myndi raska högum þeirra sem nú eru komnir inn í hlýjuna, þá er auðvitað hægt að ákveða að kerfinu verði ekki breytt í einni svipan, til dæmis gætu menn hugsað sér að styrkur til núverandi „launþega“ verði framlengdur einu sinni eða tvisvar enn en svo yrðu þeir að sjá fyrir sér sjálfir eins og aðrir landsmenn. En með einum eða öðrum hætti þarf að gera breytingar á þessu heiðurslaunakerfi, skattgreiðendur hafa nóg með önnur delluútgjöld þó þeir þurfi ekki að heiðra sömu mennina áratugum saman. Og talandi um sömu mennina þá er rétt að taka fram að kvikmyndagerðarmaðurinn Þráinn Bertelsson var ekki nefndur hér þar sem hann væri verr að sínum heiðurslaunum kominn en hver annar sem slíkra launa nýtur. Hins vegar vakti það talsverða athygli þegar Þráni var bætt á heiðurslistann nú nýlega enda höfðu kvikmyndaleikstjórar ekki komist þangað áður auk þess sem Þráinn þótti í yngra lagi, miðað við aðra heiðurslaunaþega. Reyndar má segja að ekki sé nema mátulega sanngjarnt að nefna Þráin hér sérstaklega því sennilega hafa fleiri skattgreiðendur haft kynni af verkum hans en margra annarra sem heiðurslauna hafa notið um áratugaskeið. En það er aukaatriði. Meginatriðið er það, að taka verður fyrir þennan rándýra „heiður“ sem skattgreiðendum er skipað að sýna nokkrum tilteknum listamönnum árum og jafnvel áratugum saman.