Fimmtudagur 14. febrúar 2002

45. tbl. 6. árg.

„Nú dugir engin tilfinningasemi, þjóðerniskennd eða ýktir sjálfstæðistilburðir. Evrópusamkennd er það sem blífur!“Steingerður Ólafsdóttir, „Viðhorf“, Morgunblaðið, janúar 2002.

Nei nú dugir engin tilfinningasemi. Í utanríkismálunum verða Íslendingar í hennar stað að láta stjórnast af – „Evrópusamkennd“. Þeir þreytast greinilega aldrei á að finna nýjar röksemdir, Evrópusinnarnir. Sumar kenningarnar eru þess eðlis að það er sjálfsagt að ræða þær um stund, flestar eru samt þannig að það er varla að það taki því – en hvað á að segja um hana þessa? Enga tilfinningasemi takk, nei það er sko einhver óútskýrð „samkennd“ sem blífur. Blífur. Þessi nýjasta röksemd Evrópusinna – borin fram sem hápunktur greinar þar sem blaðamaður Morgunblaðsins  hamrar á þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, kasta krónunni og taka upp evru – er eiginlega svo furðuleg að það er varla rétt að svara henni öðruvísi en með útúrsnúningi og hálfkæringi.

Lína Langsokkur dreifir sælgæti í lausavigt.
Lína Langsokkur dreifir sælgæti í lausavigt.

Gott og vel. Sama blaðakona skrifaði aðra viðhorfa-grein skömmu síðar og var hún allnokkru betri en sú fyrri. Þar var fjallað um nýlátinn sænskan rithöfund, Astrid Lindgren að nafni, og helstu verk hennar. Sérstaklega var þar minnst á þekktustu persónu sem Astrid Lindgren skapaði, freknóttu stúlkuna með rauðu flétturnar: „Lína langsokkur er frægasta söguhetja Lindgren, þekkt um allan heim. Þessi ógleymanlega persóna er ólík öllum öðrum, svo dásamlega sjálfstæð, góð og glaðvær, hugrökk, uppátækjasöm og sterk. Það er öruggt að litlar stelpur eiga í Línu betri fyrirmynd en í Barbí eða öðrum ámóta bjargarlausum fígúrum.“ Já, hver hefur ekki hrifist af Línu og það jafnvel án þess að hnussa í átt til Barbíar þessarar sem einhverra hluta vegna hefur alltaf staðið í veginum milli vinstri manna og lífshamingjunnar?

En það er einmitt þegar þessar tvær greinar íslensku blaðakonunnar eru lesnar í samhengi, sem hægt er að byrja að skemmta sér. Þær tengjast nefnilega svolítið þær tvær, Evrópusamkenndin og Lína Langsokkur. Fyrir örfáum árum kusu Svíar um það hvort land þeirra skyldi ganga í Evrópusambandið og þá bar það til að blaðamenn leituðu álits áðurnefndrar Astridar Lindgren á málefninu. Og sú var að minnsta kosti hörð á einu: Lína Langsokkur er á móti Evrópusambandinu! Og hvernig mætti raunar annað vera? Níu ára gömul stúlka sem býr ein – með apa og hesti sem býr á dyrapallinum – og ræður sínum málum sjálf, gengur ekki í skóla, sefur með tærnar á koddanum en höfuðið djúpt undir sæng, geymir vekjaraklukkuna í kökudunknum en steikarpönnuna á hattahillunni, gengur um á skóm sem eru nákvæmlega helmingi lengri en fætur hennar og fer þannig í búðir þar sem hún kaupir kíló eftir kíló af sælgæti sem hún aldrei greiðir fyrir öðru vísi en með gullpeningum – hvernig ætti slík persóna að geta fellt sig við útþenjandi skrifræðisbákn sem stöðugt leggur skugga sinn yfir stærri svið mannlífsins og dælir frá sér reglum, tilskipunum og stöðlum og gerir sitt besta til að steypa ólíkum ríkjum í eitt mót? Nei, auðvitað er Ingilína Viktoría Kóngódía Engilráð Eiríksdóttir Langsokkur á móti Evrópusambandinu. Og er þannig sennilega betri fyrirmynd en áðurnefnd Barbí, sem minna hefur látið að sér kveða í umræðum um Evrópumál, enn sem komið er.

Já og talandi um Evrópusinna. Halldór Ásgrímsson var í sjónvarpi í gærkvöldi og mælti þá meðal annars: „Ég tel að EES-samningurinn sé mikilvægasti viðskiptasamningur sem við höfum gert!“ Gott og vel Halldór, en hvaða „við“? Sast þú ekki hjá? Í atkvæðagreiðslu um mikilvægasta viðskiptasamning sem við höfum gert?