Miðvikudagur 13. febrúar 2002

44. tbl. 6. árg.

Þegar vinstrigrænir þingmenn allra flokka ræddu um hið svonefnda boxfrumvarp, sem varð loks að lögum í vikunni, var það gjarna viðkvæði þeirra að „Alþingi hefði ýmislegt betra við tímann að gera að ræða þetta box“. „Það eru mörg mikilvægari mál sem bíða“. Sömu frasarnir eru notaðir gegn lagafrumvarpi um afnám á einokun ÁTVR á smásölu áfengis.

Vart er þó hægt að hugsa minni fyrirhöfn fyrir Alþingi en að afnema bann við því að menn stundi ákveðna íþrótt eða selji fólki rauðvínsflösku með ostabakkanum. Í meiri hluta tilfella kalla lagafrumvörp á mikla fyrirhöfn Alþingis og framkvæmdavaldsins eftir að þau verða að lögum. Frumvarp um fæðingarorlof sem hlaut nær einróma lof á Alþingi hefur það tildæmis í för með sér að hækka þarf skatta og fjölga þarf starfsmönnum á Tryggingarstofnun ríkisins til að taka á móti hálaunafólkinu og greiða því hæstu félagslegu bætur í heimi. Því miður eru langflest frumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi þessu sama marki brennd: Þau hafa framkvæmdir og kostnað í för með sér fyrir ríkisvaldið og um leið skattgreiðendur. Fyrirhöfn Alþingis vegna þeirra er óendanleg.

Hin nýsamþykktu lög um boxið krefjast hins vegar einskis af ríkinu eða skattgreiðendum. Alþingi er laust allra mála og getur snúið sér að „mikilvægari málum“. Boxið er úr sögunni. Reyndar má hreinleg gera ráð fyrir að verkefnum ríkisins, t.d. lögreglu, fækki þegar svo tilgangslaust bann er fellt úr gildi. Ekki þarf lengur að rannsaka og ákæra þá sem brjóta bannið. Þeir þingmenn sem hafa áhyggjur af því að „mikilvægari mál bíði“ og ægilegur tímaskortur hrjái þingheim ættu miklu fremur að greiða götu mála á borð við boxfrumvarpið og koma því þannig út af Alþingi í bókstaflegri merkingu. Sömu sögu er að segja að frumvarp um afnám einokunar ÁTVR. Fyrirhöfn ríkisins minnkar ef þetta frumvarp rennur hratt og örugglega í gegnum þingið – og hinir önnum köfnu þingmenn geta snúið sér að „mikilvægari málum sem bíða“.